Skip to main content

Háskólaráðsfundur 10. janúar 2013

01/2013

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2013, fimmtudaginn 10. janúar var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Anna Rut Kristjánsdóttir, Ebba Þóra Hvannberg, Guðrún Hallgrímsdóttir, Hákon Hrafn Sigurðsson (varamaður fyrir Börk Hansen), Jakob Ó. Sigurðsson, Kjartan Þór Eiríksson (varamaður fyrir Kristin Andersen), Margrét Hallgrímsdóttir, María Rut Kristinsdóttir, Tinna Laufey Ásgeirsdóttir og Þorfinnur Skúlason. Fundinn sátu einnig Jón Atli Benediktsson og Magnús Diðrik Baldursson sem ritaði fundargerð.

Rektor bauð fulltrúa í háskólaráði velkomna og setti fundinn. Áður en gengið var til dagskrár greindi rektor frá því að engar athugasemdir hefðu borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Rektor greindi frá því að Hákon Hrafn Sigurðsson hefði óskað eftir að taka upp mál undir liðnum „önnur mál“ og var dagskrá fundarins samþykkt með þeirri viðbót. Engar athugasemdir voru gerðar við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast þau því staðfest. Ebba Þóra Hvannberg tók ekki þátt í afgreiðslu dagskrárliðar 6d).

1. Mál á döfinni í Háskóla Íslands.
Rektor gerði grein fyrir nokkrum viðburðum frá síðasta fundi háskólaráðs og framundan.
a) Milli jóla og nýárs hlaut Gylfi Zoëga, prófessor við Hagfræðideild, heiðursverðlaun úr verðlaunasjóði Ásu Guðmundsdóttur Wright fyrir árið 2012.
b) Milli hátíða var haldið fjölsótt jólaball fyrir fjölskyldur starfsfólks og stúdenta á Háskólatorgi.
c) Rannsóknastyrkir úr Vísindasjóði Landspítala til vísindamanna á sviði heilbrigðisvísinda voru veittir 3. desember sl. Um er að ræða þrjá hvatningastyrki til sterkra rannsóknahópa sem þegar hafa öðlast alþjóðlega viðurkenningu, að fjárhæð 5 m.kr. hver styrkur. Fyrir hópunum fara Þórarinn Guðjónsson prófessor, Jón Friðrik Sigurðsson sálfræðingur og Davíð O. Arnar yfirlæknir. Hinn 19. desember sl. voru síðan veittir 8 styrkir úr Vísindasjóði Landspítala til ungra vísindamanna sem stunda klínískar rannsóknir, að fjárhæð 1 m.kr. hver.
d) Miðvikudaginn 19. desember sl. var undirritaður samstarfssamningur milli Arion banka og Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og mun bankinn styrkja stofnunina sem nemur hálfum launum verkefnisstjóra og til að undirbúa Alþjóðlega Tungumálamiðstöð í væntanlegu nýju húsnæði stofnunarinnar.
e) Dagana 3. og 4. janúar sl. var haldin ráðstefna Heilbrigðisvísindasviðs um rannsóknir í líf- og heilbrigðisvísindum. Tókst ráðstefnan með ágætum og fékk hún mikla og góða umfjöllun í fjölmiðlum.
f) Á næstunni verða haldnir tveir viðburðir í fyrirlestraröð Háskóla Íslands, „Fyrirtæki verður til“. Þriðjudaginn 22. janúar nk. fer fram kynning á lyfjafyrirtækinu Actavis og miðvikudaginn 13. febrúar nk. verður tölvufyrirtækið CCP kynnt.
g) Hinn 1. júlí 2013 verða fimm ár liðin frá innleiðingu nýs skipulags og stjórnkerfis Háskóla Íslands og sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands. Með nýja stjórnskipulaginu var hinum sameinaða háskóla skipað í fimm fræðasvið og ráðnir forsetar þeirra. Á þeim fimm árum sem liðin eru frá innleiðingu nýja stjórnskipulagsins hefur markvisst verið unnið að aukinni þverfræðilegri samvinnu innan og á milli fræðasviðanna og skilvirkri verkaskiptingu á milli miðlægrar stjórnsýslu og stjórnsýslu fræðasviða, svo nokkuð sé nefnt. Mikilvægir áfangar eru einnig endurskoðun á skipulagi og starfsemi Rannsóknaþjónustu annars vegar og Alþjóðaskrifstofu hins vegar og yfirfærsla hluta verkefna þessara eininga til Rannís, sbr. síðasta fund háskólaráðs. Í upphafi árs 2013 var opnaður nýr innri vefur fyrir starfsfólk Háskóla Íslands og er honum ætlað að efla upplýsingastreymi og samskipti, auk þess sem vefurinn mun geyma alla helstu verkferla og gæðahandbók háskólans. Innri vefurinn hefur nú þegar verið aðlagaður fyrir snjallsíma og spjaldtölvur og er verið að kynna hann skipulega innan skólans. Annað átaksverkefni framundan er efling enskrar útgáfu ytri vefs háskólans. Stefnt er að því að ljúka ýmsum öðrum  umbótaverkefnum fyrir 1. júlí nk.
h) Ýmis stór framkvæmdaverkefni eru framundan og eru þau helstu stækkun Háskólatorgs, nýbygging fyrir hús íslenskra fræða, bygging húss Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og húsnæði fyrir heilbrigðisvísindadeildir í tengslum við byggingu nýs Landspítala-háskólasjúkrahúss, auk þess sem skriður gæti komist á Vísindagarða Háskóla Íslands áður en langt um líður.

2. Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur og áætlun.
a) Fjárlög fyrir árið 2013.
b) Fjárhagsáætlun Háskóla Íslands fyrir árið 2013.

Fyrir fundinum lá minnisblað um fjármál Háskóla Íslands og tillögu fjármálanefndar um skiptingu fjárveitingar árið 2013 sem og greinargerðir frá fjármálastjóra og forsetum fræðasviða vegna fjárhagsáætlana 2013. Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs, og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs, og gerðu grein fyrir málinu. Málið var rætt og svöruðu Guðmundur og Jenný Bára spurningum fulltrúa í háskólaráði.
- Tillaga fjármálanefndar háskólaráðs um skiptingu fjárveitingar innan Háskóla Íslands árið 2013 samþykkt einróma.

c) Um starfsskyldur kennara í Félagi háskólakennara, tillaga til háskólaráðs.
Fyrir fundinum lá minnisblað og tillaga samráðsnefndar háskólaráðs um kjaramál og Félags háskólakennara um starfsskyldur kennara í félaginu. Guðmundur R. Jónsson gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
- Tillaga samráðsnefndar háskólaráðs um kjaramál og Félags háskólakennara um starfsskyldur kennara í félaginu samþykkt einróma með þeirri breytingu að í 2. mgr. skýringarkaflans falla niður orðin „o.s.frv.“ Jafnframt samþykkt að samráðsnefnd háskólaráðs um kjaramál og Félag háskólakennara undirbúi fyrir ráðið innan tveggja mánaða tillögu um hvaða stjórnunarstörf skuli metin sérstaklega til lækkunar kennsluskyldu.

3. Innri endurskoðun Háskóla Íslands.
- Frestað.

4. Hagnýting hugverka og nýsköpun í Háskóla Íslands.
Inn á fundinn komu þau Kristján Leósson, vísindamaður hjá Raunvísindastofnun og formaður Hugverkanefndar Háskóla Íslands og Landspítala, Ólöf Vigdís Ragnarsdóttir, lögfræðingur hjá vísinda- og nýsköpunarsviði Háskóla Íslands, og Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísinda- og nýsköpunarsviðs, og gerðu grein fyrir starfi Hugverkanefndar og stöðu mála varðandi hagnýtingu hugverka og nýsköpunar í Háskóla Íslands. Málið var rætt og svöruðu Kristján, Ólöf Vigdís og Halldór spurningum fulltrúa í háskólaráði.

Margrét Hallgrímsdóttir vék af fundi.

5. Skýrsla jafnréttisnefndar háskólaráðs: Staða og þróun jafnréttismála við Háskóla Íslands 2008-2011, sbr. ályktun háskólaþings 16. nóvember 2012.
Fyrir fundinum lá skýrsla jafnréttisnefndar háskólaráðs, Staða og þróun jafnréttismála við Háskóla Íslands 2008-2011, og sá hluti fundargerðar háskólaþings 16. nóvember 2012 sem fjallar um skýrsluna. Inn á fundinn kom Hrefna Friðriksdóttir, dósent við Lagadeild og formaður jafnréttisnefndar, og gerði stuttlega grein fyrir helstu niðurstöðum skýrslunnar og áherslum í starfi nefndarinnar. Málið var rætt og svaraði Hrefna spurningum ráðsmanna.

Að umræðu lokinni samþykkti háskólaráð einróma svohljóðandi bókun:

„Háskólaráð þakkar jafnréttisnefnd fyrir skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála við Háskóla Íslands 2008-2011, en skýrslan var einnig kynnt og rædd ítarlega á háskólaþingi 16. nóvember 2012. Með hliðsjón af ábendingum í umræðum í háskólaráði og á háskólaþingi, Stefnu Háskóla Íslands 2011-2016 og erindisbréfi jafnréttisnefndar, beinir ráðið eftirfarandi til nefndarinnar:

1. Jafnréttisnefnd geri tillögu til háskólaráðs fyrir 1. júní 2013 um hvernig efla megi frekar fræðslu um jafnréttismál og samþættingu jafnréttissjónarmiða innan Háskóla Íslands.
2. Jafnréttisnefnd geri tillögu til háskólaráðs fyrir 1. júní 2013 um endurskoðun jafnréttisáætlunar Háskóla Íslands. Við endurskoðunina verði lögð áhersla á jafnréttismál í víðum skilningi, eins og tiltekið er í erindisbréfi jafnréttisnefndar, stefnu háskólans og fram kemur í umræðum á háskólaþingi og í háskólaráði. Í þessu felst m.a. að ný jafnréttisáætlun taki mið af því að Háskóli Íslands er alþjóðlegur rannsóknaháskóli í fjölmenningarsamfélagi þar sem fjölbreyttir hópar nema og starfa.
3. Háskólaráð leggur áherslu á öflugt og samhæft jafnréttisstarf innan Háskóla Íslands. Í því skyni kanni jafnréttisnefnd hvernig auka megi samvinnu sérfræðinga, rannsóknastofnana og -stofa á sviði jafnréttismála á ólíkum fræðasviðum innan háskólans. Nefndin skili áliti sínu til rektors fyrir 1. júní 2013.“

Guðrún Hallgrímsdóttir vék af fundi.

6. Bókfærð mál.
a) Tillaga Félagsvísindasviðs um fjöldatakmörkun í MA nám í félagsráðgjöf til starfsréttinda háskólaárið 2013-2014, ásamt viðeigandi breytingum á reglum nr. 153/2010 um takmörkun á inntöku nemenda í tilteknar námsgreinar við Háskóla Íslands.

- Tillaga Félagsvísindasviðs um að fjöldi nemenda sem teknir verða inn í meistaranám í félagsráðgjöf til starfsréttinda háskólaárið 2013-2014 verði takmarkaður við 40 staðfest.

b) Tillögur fræðasviða um nýjar námsleiðir, ásamt viðeigandi breytingum á reglum fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.
- Tillaga Menntavísindasviðs um stofnun nýrrar námsleiðar í kennslufræði verk- og starfsmenntunar til B.Ed.-prófs (120 ein. aðalgrein) staðfest. Einnig staðfest að til samræmis bætist við a-lið 119. gr. reglna nr. 569/2009 málsliðurinn „kennslufræði verk- og starfsmenntunar“ og við 19. gr. reglna nr. 319/2009 um inntökuskilyrði í grunnnám við Háskóla Íslands bætist við málsgreinin „Til að hefja B.Ed.-nám í kennslufræði verk- og starfsmenntunar í kennaradeild skal stúdent hafa lokið fullgildu lokaprófi í iðngrein (meistarabréf), listgrein, tæknigrein eða verkgrein sem nýtist til kennslu á grunnskóla- eða framhaldsskólastigi í skilgreindri námsgrein eða á skilgreindu námssviði. Stúdent þarf einnig að hafa lokið annað hvort (a) stúdentsprófi eða (b) diplómanámi í kennslufræði á bakkalárstigi í kennaradeild og hafa fimm ára starfsreynslu í greininni.“
- Tillaga Félagsvísindasviðs um að námsleið á meistarastigi í hagnýtri þjóðfræði verði lögð niður og í staðinn tekið upp nýtt kjörsvið í þjóðfræði undir heitinu hagnýt þjóðfræði staðfest. Einnig staðfest að til samræmis falli niður 28. mgr. 84. gr. reglna nr. 569/2009.

c) Fyrirvarar í kennsluskrá Háskóla Íslands 2013-2014.
- Staðfest.

d) Stjórn Happdrættis Háskóla Íslands.
- Staðfest að stjórn Happdrættis Háskóla Íslands verði skipuð óbreytt árið 2013, en í henni sitja Eyvindur G. Gunnarsson, dósent við Lagadeild á Félagsvísindasviði, formaður, Ebba Þóra Hvannberg, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild á Verkfræði- og náttúruvísindasviði, og Óskar Magnússon, hrl., útgefandi.

7. Mál til fróðleiks.
a) Heiðursdoktorsnefnd Háskóla Íslands.
b) Umsögn Háskóla Íslands um frumvarp til laga um breytingu á lögum um opinbera háskóla, nr. 85/2008 (landbúnaðarháskólar og samstarf opinberra háskóla). Þingskjal 366 - 319. mál.
c) Hugskeyti, fréttabréf Hugvísindasviðs Háskóla Íslands, desember 2012.
d) Fréttabréf Félagsvísindasviðs, desember 2012.
e) Frjáls verslun, sprotablað, 7. tbl., 2012.

8.  Önnur mál.
a) Málefni Rannsóknasjóðs Háskóla Íslands.

Hákon Hrafn Sigurðsson gerði að umtalsefni úthlutunarreglur Rannsóknasjóðs Háskóla Íslands og var málið rætt.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.00.