Skip to main content

Fundargerð 127. fundar

Háskólaráð Kennaraháskóla Íslands kom saman til 127. fundar þriðjudaginn 1. apríl 2008 kl. 15:00. Eftirtaldir sátu fundinn: Ólafur Proppé, Allyson Macdonald, Kristín Bjarnadóttir, Haukur Ingibergsson, Ingunn Guðmundsdóttir, Júlía Þorvaldsdóttir, Jóhanna Karlsdóttir, Kristján Jóhann Jónsson og Elvar Snær Kristjánsson


Gestir fundar: Guðmundur Ragnarsson (v/3. liðar) og Steinunn Halldórsdóttir (v/ 8. liðar)

Svanhildur Kaaber sat fundinn og ritaði fundargerð.

Dagskrá fundarins var svohljóðandi:

1.    Fundur settur og dagskrá kynnt
2.    Skýrsla rektors
3.    Ársreikningur og ársskýrsla 2007
4.    Framlenging á skipun dómnefndar til 1. júlí n.k.
5.    Námskeið í íslensku á kennarabraut
6.     Skipan og stjórnun deilda á menntavísindasviði
7.    Heiðursdoktorar í tilefni aldarafmælis
8.     Sameining Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands
9.    Önnur mál

1.    Fundur settur og dagskrá kynnt
Rektor setti fundinn og kynnti dagskrá hans. Fram kom að liður 8. á dagskránni yrði færður fram og tekinn fyrir næst á eftir 4. lið á dagskránni.

2.    Skýrsla rektors
Rektor gerði grein fyrir nokkrum málum:

-    Rektor sagði frá því að unnið er að gerð skorkorts í Háskóla Íslands. Skorkortinu er ætlað að spegla stefnu hins sameinaða háskóla.
-    Rektor sagði frá frumvörpum um grunnskóla og framhaldsskóla, menntun og réttindi kennara sem lögð hafa verið fram á Alþingi. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur lagst gegn ákvæðum sem þar er að finna um lengra kennaranám. Rektor og forstöðumaður kennarabrautar hafa átt fund um málið með fulltrúum sveitarfélaga.
-    Í tengslum við aldarafmæli skólans er verið að vinna að 800 bls. riti í tveimur bindum um almenningsfræðslu á Íslandi. Nú er orðið ljóst að ritið kemur ekki út á áætluðum tíma vegna vandamála sem upp hafa komið við myndritstjórn. Ný áætlun er að ritið komi út í haust.
-    Minnt var á útvarpsþáttaröðina Að rækta fólk, á rás 1 í RUV, en það eru þættir um kennara og kennarastarf. Þættirnir eru gerðir í tilefni af aldarafmælinu.
-    Rektor sagði frá framlagi Kennaraháskólans í fundaröð háskóla um Ísland á alþjóðavettvangi. Framlag skólans var málþingið Menntun til víðsýni sem haldið var 27. mars. Auk menntamálaráðherra fluttu Allyson Macdonald og Ólafur Páll Jónsson erindi á málþinginu.
-    Rektor lagði fram yfirlit og sýndi dreifingu og fjölda þeirra umsókna um framhaldsnám við skólann sem komnar eru.
   
3.    Ársreikningur og ársskýrsla 2007
Framkvæmdastjóri fjármálasviðs gerði grein fyrir ársreikningi og tölulegu yfirliti yfir starfsemi skólans 1998-2007 en þessum gögnum var dreift með fundarboði.

Ársreikningurinn sýnir jákvæða niðurstöðu en hafa verður í huga að nemendur voru heldur færri á síðasta ári en gert var ráð fyrir, þrátt fyrir að nemendafjöldi sé yfir viðmiðunarmörkum þegar litið er til lengri tíma.

Íhugaðar voru yfirlitstölur um starfsemi skólans þar sem sjá má samanburð milli ára á tíu ára tímabili eða alveg frá sameiningunni 1998.

Háskólaráð þakkaði þessar upplýsingar.

Rektor sagði frá því að ársfundur skólans yrði haldinn 30. apríl næstkomandi kl. 11:00. Á fundinum verður farið yfir rekstrarstöðu skólans, ársskýrslu dreift og farið yfir efni hennar.

4.    Framlenging á skipun dómnefndar til 1. júlí n.k.
Rektor gerði grein fyrir því að framlengja þarf skipun dómnefndar fram að sameiningu en fyrir liggja nokkur verkefni.

Háskólaráð samþykkti að framlengja skipun dómnefndar til 1. júlí þegar lög um Kennaraháskóla Íslands falla úr gildi.

Háskólaráð veitti rektor einnig heimild til að framlengja á sama hátt skipan annarra nefnda ef upp kann að koma.

5.    Námskeið í íslensku á kennarabraut
Rektor kynnti tillögu brautarstjórnar kennarabrautar um óbreytta skipan skyldunámskeiða í íslensku á brautinni en tillagan var send með fundarboði. Brautarstjórn kennarabrautar leggur til að ekki verði gerðar breytingar á núverandi náms- og kennsluskrá hvað varðar skyldunámskeið í íslensku á brautinni, a.m.k. ekki að sinni. Það felur í sér að kennaranemar sem velja íslensku sem kjörsvið taka námskeiðið Íslenska I, sem og þeir nemar sem velja kjörsviðið Almenn kennsla í grunnskóla. Aðrir nemendur á kennarabraut eiga þess kost að velja þetta námskeið sem annað af tveimur valnámskeiðum. Brautarstjórn bendir jafnframt á að í kjarna í námi í grunnskólakennarafræðum og leikskólakennarafræðum er eitt 10 eininga námskeið í íslensku sem ber heitið Talað mál og ritað og er kennt á fyrsta misseri og er skyldunámskeið fyrir alla nemendur í leik- og grunnskólakennarafræðum. 

Fram kom að kennarar í íslensku telja nauðsynlegt að gefa nemendum kost á að velja upphafsnámskeið hvort sem er á vor- eða haustmisseri.

Háskólaráð samþykkir þá tilhögun sem brautarstjórn kennarabrautar leggur til.

6.     Skipan og stjórnun deilda á menntavísindasviði
Rektor gerði grein fyrir samþykkt háskólaráðs Háskóla Íslands um stjórnun og skipan deilda og fræðasviða hins sameinaða háskóla ásamt ákvörðun um að deildarforsetar á öðrum sviðum en menntavísindasviði verði kosnir samkvæmt gildandi reglum Háskóla Íslands.  Kennaraháskóla Íslands var falið að ákveða hvernig val deildarforseta á menntavísindasviði fari fram.

Rektor rifjaði einnig upp þá ákvörðun sem háskólaráð tók fyrr á árinu þess efnis að menntavísindasviði verði skipað í fjórar deildir til bráðabirgða en sú ákvörðun skyldi endurskoðuð fyrir lok vormisseris.

Rektor lagði til að á misserisþingi í næstu viku verði opin umræða um skipan og stjórnun deilda á menntavísindasviði.

Háskólaráð ræddi þessar hugmyndir og lýsti þeirri skoðun að tvær eða þrjár deildir gætu hentað vel innan menntavísindasviðs. Fram kom að eðlilegt væri að vinna samkvæmt gildandi reglum Kennaraháskólans.

Háskólaráð samþykkti samhljóða tillögu rektors um að taka umræðu þessa upp á misserisþingi og að rektor leggi tillögu um skipan þessara mála fyrir næsta háskólaráðsfund.

Rektor minnti á að stúdentar eru velkomnir á misserisþing.

7.    Heiðursdoktorar í tilefni aldarafmælis
Rektor gerði grein fyrir hugmyndum um tilnefningu fjögurra heiðursdoktora í tilefni af aldarafmæli skólans og lagði til að heiðursdoktorar yrðu tilnefndir á lokahátíð afmælisárs Kennaraháskólans 7. júní næstkomandi.

Rektor dreifði upplýsingum um þá einstaklinga sem um ræðir og bað háskólaráð að líta á tillögu þessa sem trúnaðarmál.

Háskólaráð fagnar tillögu rektors og styður hana heils hugar.

8.     Sameining Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands
Steinunn Halldórsdóttir kom á fundinn til að gera grein fyrir stöðu sameiningarmála og starfi verkefnisstjórnar sem nú hefur haldið fimmtíu fundi.  Í máli hennar kom fram að frumvarp til laga um háskóla hefur ekki verið lagt fram á Alþingi en gert ráð fyrir að svo verði síðar í þessari viku. Einnig kom fram að kennsluskrá hins sameinaða háskóla er komin á vefinn. Þá gerði Steinunn grein fyrir störfum ýmissa hópa sem eru að vinna að samþættingu og samræmingu verklags og reglna um margvíslega þætti starfsins í hinum sameinaða háskóla. Hún sagði einnig frá ýmsum framkvæmdamálum sem unnið er að, s.s. sameiningu tölvukerfa, símkerfa, skjalastjórnunarkerfa o.s.frv. Að lokum sagði Steinunn frá boði rektors Háskóla Íslands 18. apríl næstkomandi og bað háskólaráð að taka frá þann tíma. Einnig nefndi hún sameiningarhátíð sem er verið að undirbúa 1. júlí.

Háskólaráð þakkaði þessar upplýsingar.

9.    Önnur mál

Næsti fundur verður haldinn 29. apríl kl. 15:00.
Fundinum lauk kl.17:20

Svanhildur Kaaber