Skip to main content
10. október 2022

Útgáfa Lúkíansþýðingar Sveinbjarnar Egilssonar

Útgáfa Lúkíansþýðingar Sveinbjarnar Egilssonar - á vefsíðu Háskóla Íslands

Út er komin bókin Lúkíansþýðingar Sveinbjarnar Egilssonar. Már Jónsson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, bjó þýðingarnar til prentunar og skrifar ítarlegan inngang. Útgefandi er Sæmundur.

Verk Lúkíans nutu mikilla vinsælda um langt skeið, ekki síst til kennslu í forngrísku, meðal annars við Bessastaðaskóla á fyrstu áratugum 19. aldar. Þýðingar Sveinbjarnar Egilssonar á verkunum varðveittust í handritum skólapilta. Í bókinni eru birtar þýðingar Sveinbjarnar á samræðunum „Karon“ og „Tímon“, varnarræðu Prómeþeifs og nokkrum skondnum samtölum grískra guða, að ógleymdri frásögn Lúkíans af draumi í æsku um það hvað hann nú ætti að taka sér fyrir hendur.

Már Jónsson hefur rannsakað Íslandssögu frá síðari hluta 13. aldar til loka 19. aldar og hefur um árabil lagt kapp á að búa texta til útgáfu með það í huga að auðvelda aðgang almennings og fræðimanna að tímabilinu. Má þar nefna Jónsbók frá 1281, frásagnir af Spánverjavígunum árið 1615, dómabækur Skálholtsbiskupa frá 17. öld, frásagnir af Kötlugosum, valda dóma um barnsmorð árin 1600 til 1900 og dóma um galdra á árabilinu 1576-1772.

Már Jónsson