Skip to main content
6. nóvember 2020

Tvöfalt fleiri sækja um framhaldsnám á vormisseri

""

Háskóla Íslands hafa borist um tvöfalt fleiri umsóknir um framhaldsnám á vormisseri 2021 en á sama tíma í fyrra. Umsóknartímabil um grunnnám stendur enn yfir en miðað við stöðuna nú má reikna með að nemendafjöldi við skólann verði vel á 16. þúsund á nýju ári.

Skólanum barst metfjöldi umsókna í grunn- og framhaldsnám í vor eða hátt í 11.700. Þennan mikla fjölda má að líkindum skýra með áhrifum kórónaveirunnar á íslenskt samfélag og atvinnulíf en margir hafa kosið að sækja sér frekari menntun og efla þannig stöðu sína í því erfiða atvinnuástandi sem ríkir í landinu. Stór hluti umsækjenda í vor staðfesti skólasvist sína sem þýðir að metfjöldi leggur nú stund á nám við skólann, eða tæplega 15.000 manns. 

Háskóli Íslands hefur tekið inn nemendur í takmarkaðan hluta námsleiða í grunn- og framhaldsnámi á vormisseri ár hvert. Framlengdum umsóknarfresti um framhaldsnám á vormisseri lauk 31. október sl. og hafa tæplega 1.100 umsóknir borist. Til samanburðar voru þær tæplega 550 þegar umsóknarfresti lauk 15. okt. í fyrra. Ekki er útilokað að umsóknum á framhaldsstigi eigi eftir að fjölga frekar því hægt verður að sækja um innritun í tilteknar leiðir til viðbótarnáms á meistarastigi í nokkrum deildum Félagsvísindasviðs, á Menntavísindasviði og í þverfaglegri námsleið í umhverfis- og auðlindafræði til 30. nóvember.

Jafnframt er enn opið fyrir umsóknir um nám í afmörkuðum hluta námsleiða í grunnnámi á vormisseri 2021 og er umsóknarfrestur til 30. nóvember. Þar stefnir einnig í fjölgun umsókna milli ára.

Ef fram heldur sem horfir og svipað hlutfall umsækjenda staðfestir skólavist sína á vormisseri og undanfarin ár þá verður met slegið í fjölda nemenda og verða þeir hátt í 16 þúsund.

„Það er greinilegt að mikill áhugi er á framhaldsnámi við Háskóla Íslands. Við fögnum þessum umsóknum og munum taka vel á móti nýjum nemendum. Jafnframt gerum við ráð fyrir auknum stuðningi stjórnvalda vegna nýnema enda bendir allt til að nemendum fjölgi um fimmtung á einu ári. Það er gríðarleg fjölgun,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.

""