Skip to main content
28. október 2020

Nærri 15 þúsund nemendur í Háskóla Íslands

""

Nærri 15 þúsund manns leggja nú stund á grunn- og framhaldsnám við Háskóla Íslands og er það metfjöldi. Nemendur eru nærri 15% fleiri en á sama tíma í fyrra.

Háskóli Íslands birtir árlega tölfræði yfir fjölda nemenda við skólann í lok október en þá er sá frestur sem nemendur hafa til þess að skrá sig úr námi og námskeiðum á haustmisseri runninn út.

Í kjölfar þess að skólinn fékk metfjölda umsókna um nám í vor, sem m.a. má rekja til áhrifa kórónuveirufaraldursins, var reiknað með að fjöldi nemenda yrði umtalsvert meiri en í fyrra og það hefur nú fengist staðfest.

Alls eru 14.992 nemendur skráðir í grunn- og framhaldsnám við skólann en til samanburðar voru þeir 13.092 á sama tíma í fyrra. Nemendum hefur því fjölgað um 1.900 á milli ára eða sem nemur 14,5%. Þá má geta þess að nemendur eru nú um þúsund fleiri en þegar þeir voru flestir að hausti á árunum eftir bankahrunið.

Alls eru grunnnemar við skólann um 9.400 og þar af eru nýnemar um 4.400 sem er einnig met. Enn fremur eru framhaldsnemar um 5.600, en þar af eru 600 í doktorsnámi.

Reikna má með að nemendum Háskóla Íslands fjölgi enn frekar á nýju ári þar sem skólinn tekur inn nýnema í valdar greinar í grunn- og framhaldsnámi á vormisseri. Sem stendur er opið fyrir umsóknir vegna náms á vormisseri og er umsóknarfrestur um framhaldsnám til 31. október og um grunnnám til  30. nóvember.

„Háskólasamfélagið hefur aldrei verið fjölmennara  og við tökum nýnemum okkar fagnandi. Það er gott að vita að svo mikill áhugi er á námsframboði við Háskólann. Skólinn er alhliða háskóli og er fjölgun nemenda á öllum fræðasviðum. Það er áskorun að stækka svona mikið en við treystum á aukinn stuðning stjórnvalda til að geta búið sem best að starfsfólki og nemendum,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, um þessa miklu aðsókn í skólann. 

Tölfræði um nemendafjölda