Skip to main content
21. júní 2018

Skoða áhrif kynlífsvæðingar og stafrænnar tækni á börn

„Verkefnið er að hluta til viðbrögð við umræðum um þöggun, yfirgang og jafnvel ofbeldi gegn konum. Það hefur líka verið mikil umfjöllun um kvíða og þunglyndi og sterkar tengingar þessara tilfinninga við kyngervi,“ segir Annadís Greta Rúdólfsdóttir, dósent í aðferðafræði rannsókna við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, en hún tók við veglegum styrk úr Jafnréttissjóði Íslands í vikunni fyrir verkefnið „Börn á tímum kynlífsvæðingar og stafrænnar tækni: Rannsókn og aðgerðir“. Hópur vísindamanna við Háskóla Íslands kemur að rannsókninni sem Annadís leiðir.

Markmið rannsóknarinnar er að kanna kynjaða menningu í leik- og grunnskólum og á netinu. Skoðuð verða tækifæri og takmarkanir sem börnum og unglingum eru sett við að birta og móta kyngervi sitt. Gengið verður út frá þeim forsendum að börn séu virk í að skilgreina og skapa sitt eigið kyngervi.

Annadís segir að á undanförnum mánuðum hafi verið kallað eftir aðgerðum, meðal annars í kjölfar #metoo-byltingarinnar, og taldi rannsóknarhópurinn skólana vera ákaflega mikilvægan vettvang til að bregðast við umræðunni. „Okkur sem störfum við kennslu hefur sárlega þótt vanta rannsóknir á íslenskum vettvangi og var þessi rannsóknarhugmynd í raun viðbragð við því.“

Það liggur ljóst fyrir að til þess að skólakerfið og samfélagið geti brugðist við á markvissan hátt þarf góðar rannsóknir og þekkingu á stöðu mála. „Haldnir hafa verið fjölmargir fyrirlestrar og umræðufundir um þessi mál. Það hefur þó ekki verið skoðað út frá hvaða forsendum börnin sjálf vinna með þær upplýsingar sem þeim berast um kyngervi og samskipti kynjanna. Við vitum að það er erfitt að grípa inn í skaðleg kynjamynstur og auka jafnrétti ef ekki liggur fyrir þekking á þeim tækifærum og takmörkunum sem kynjað umhverfi og orðræður skapar börnum og unglingum,“ lýsir Annadís og bætir við að þessi þekking eigi einnig erindi í nám leik- og grunnskólakennara.

Í framhaldi af rannsókninni er stefnt að því að hanna gagnvirka heimasíðu fyrir börn og kennara sem ætlað er að veita uppbyggilega leiðsögn til að takast á við málefni sem snerta samskipti og kynjaðan reynsluheim barna.

Auk Önnudísar kemur öflugur hópur rannsakenda á vegum Rannsóknastofu um jafnrétti, kyngervi og menntun (RannKyn) í samstarfi við Rannsóknastofu í menntunarfræðum ungra barna (RannUng) og Jafnréttisskóla Reykjavíkurborgar að verkefninu. Þetta eru þau Þórdís Þórðardóttir, Kristín Karlsdóttir, Jón Ingvar Kjaran, Brynja Elisabeth Halldórsdóttir, Þórður Kristinsson og Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir.

Styrkjum var úthlutað úr Jafnréttissjóði Íslands þann 19. júní síðastliðinn. Alls bárust 85 umsóknir um styrki til fjölbreyttra verkefna og hlutu 28 þeirra styrk. Þess má geta að verkefni Önnudísar hlaut hæsta styrkinn að þessu sinni, samtals tíu milljónir. Alls fengu fimm verkefni á Menntavísindasviði styrk úr sjóðnum. Sjá nánar HÉR.

„Verkefnið er að hluta til viðbrögð við umræðum um þöggun, yfirgang og jafnvel ofbeldi gegn konum,“ segir Annadís Greta Rúdólfsdóttir, dósent í aðferðafræði rannsókna við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, en hún tók við veglegum styrk úr Jafnréttissjóði Íslands fyrr í vikunni. Hér er hún ásamt Ásmundi Einari Daðasyni félags- og jafnréttismálaráðherra afhenti styrkina við athöfn á Hótel Borg.