Skip to main content
20. júní 2018

Nærri þrjátíu milljónir til verkefna á Menntavísindasviði

Fimm verkefni fræðimanna við nýja Deild menntunar og margbreytileika hlutu styrk úr Jafnréttissjóði Íslands í gær.

Ásmundur Einar Daðason félags- og jafnréttismálaráðherra afhenti styrkina við athöfn á Hótel Borg en tæplega hundrað milljónir króna voru til úthlutunar. Alls bárust 85 umsóknir um styrki til fjölbreyttra verkefna sem öll miða að því að efla jafnrétti kynjanna í íslensku samfélagi og á alþjóðavísu. 

Að þessu sinni hlutu 28 verkefni styrki en þetta var í þriðja sinn sem úthlutað er úr sjóðnum. Verkefni Önnudísar Grétu Rúdólfsdóttur, dósents í aðferðafræði rannsókna við Háskóla Íslands, hlaut hæsta styrkinn, samtals tíu milljónir króna. 

Styrkþegar og verkefni þeirra eru:

Annadís Gréta Rúdólfsdóttir, dósent í aðferðafræði rannsókna, fyrir verkefnið: „Börn á tímum kynlífsvæðingar og stafrænnar tækni: Rannsókn og aðgerðir“.

Brynja Elísabeth Halldórsdóttir, lektor í uppeldis- og menntunarfræði, fyrir verkefnið:  „Immigrant women‘s experiences of EDV and IPV (IWEV)“.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, prófessor í menntunarfræði, fyrir verkefnið: „Nýliðun karla í kennslu“.

Katrín Ólafsdóttir, doktorsnemi Jóns Ingvars Kjarans, lektors í kynjafræði, fyrir verkefnið: „Ofbeldi í nánum samböndum út frá sjónarhorni geranda“.

Kristín Björnsdóttir, dósent í fötlunarfræði, fyrir verkefnið: „Jafnrétti fyrir alla: jafnréttisfræðsla í framhaldsskólum“.

Lesa má nánar um verkefnin HÉR.

Um sjóðinn 

Jafnréttissjóður Íslands var stofnaður árið 2015 í tilefni af hundrað ára afmæli kosningaréttar íslenskra kvenna. Markmiðið er að styrkja verkefni og rannsóknir sem miða að því að efla jafnrétti kynjanna. Sjóðurinn nýtur framlaga af fjárlögum í fimm ár og starfar samkvæmt reglum sem um hann gilda. Í samræmi við ályktun Alþingis og úthlutunarreglur sjóðsins leggur stjórn hans áherslu á að veita fé til verkefna sem m.a. hafa að markmiði að efla jafnrétti á vinnumarkaði, varpa ljósi á samfélags- og efnahagslegan ávinning af jafnrétti, vinna gegn kynbundnu ofbeldi, falla undir þróunarverkefni í skólakerfinu, hvetja ungt fólk til aukinnar samfélagsþátttöku og stjórnmálastarfs og varpa ljósi á stöðu kynjanna jafnt í samtíð sem fortíð.  

Styrkþegar við úthlutunina á Hótel Borg í gær ásamt Ásmundi Einari Daðasyni félags- og jafnréttismálaráðherra.