Skip to main content
5. febrúar 2021

Sérfræðilæknar læra með aðferðum starfstengdrar leiðsagnar

Sérfræðilæknar læra með aðferðum starfstengdrar leiðsagnar  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Yfir þrjátíu sérfræðilæknar frá hinum ýmsu sérgreinum hafa setið handleiðaranámskeið í húsnæði Menntavísindasviðs í Stakkahlíð síðustu daga. Markmið námskeiðsins var að þróa heildstæða nálgun í handleiðslu lækna í framhaldsnámi hér á landi. Handleiðarar gegna gríðarlega mikilvægu hlutverki í að fylgja sérnámslækni eftir í öllu ferlinu og gæta þess að framgangur hans sé í samræmi við námsáætlun.   

Teymisvinna kennslufræðinga og lækna 

Kveikjan að samstarfi Menntavísindastofnunar og spítalans varð fyrir tæpum tveimur árum þegar Tómas Þór Ágústsson, yfirlæknir sérnáms á Landspítala, óskaði eftir liðsinni við að þróa námskeið fyrir handleiðara. Teymisvinna kennslufræðinga og lækna er ný af nálinni á Íslandi þótt slíkt samstarf hafi tíðkast víða erlendis. 

„Verkefni okkar var að aðlaga og staðfæra námskeið að íslenskum aðstæðum sem miðar að því að þjálfa sérnámslækna í aðferðum starfstengdrar leiðsagnar og handleiðslu. Við byggjum á hugmyndum Royal Collage of Physicians og höfum fengið aðstoð, stuðning og efni frá þeim. Við höfum heimsótt þá til London og komið að þeirra námskeiðum hérlendis en erum nú að halda námskeiðið í fyrsta sinn á íslensku,“ segir Guðrún Ragnarsdóttir, lektor við Menntavísindasvið og umsjónarmaður náms í starfstengdri leiðsögn og kennsluráðgjöf. Aðrir fulltrúar Háskólans í verkefninu eru Súsanna Margrét Gestsdóttir, aðjunkt við Menntavísindasvið, og Ásta Bryndís Schram, lektor við Heilbrigðisvísindasvið. 

„Þetta hefur verið skemmtileg samtvinnun. Læknar koma inn með umfjöllunarefni sem tengjast þeirra vettvangi og við komum inn sem kennslufræðingar með atriði sem tengjast starfstengdri leiðsögn og kennslufræði,“ lýsir Guðrún en áhersla á þverfaglega nálgun í heilbrigðiskerfinu hefur verið áberandi í umræðunni síðustu ár.

En hvernig geta læknar og þeirra aðferðir nýst kennslufræðingum? „Við lærum til dæmis hvernig þeir tengja með markvissum hætti námskrárnar við rafrænar ferilmöppur sérnámslækna í gegnum ólík matsblöð. Matsblöðin taka svo aftur mið af ólíkum hæfniviðmiðum. Þetta er eitthvað sem við gætum tileinkað okkur og þróað áfram í kennaranáminu. Í því samhengi má nefna 360° matið þar sem samskiptahæfni sérnámslækna er metin af ólíkum fagstéttum á þeim starfstöðvum sem þeir eru á hverju sinni.“

Markviss endurgjöf mikilvæg 

Þátttakendur voru afar ánægðir með námskeiðið en farið var meðal annars í þau grundvallaratriði sem einkenna árangursríka handleiðslu. Menntun handleiðara og færni hjálpar sérnámslæknum að laða fram það besta í sjálfum sér til að tryggja öryggi skjólstæðinga sinna við breytilegar aðstæður.  

„Á námskeiðinu var jafnframt farið í gerð starfsþróunaráætlana, framkvæmd á framgangsrýni, hvernig best má nýta ólíkar matsaðferðir og hvernig þróa má leiðir til úrbóta fyrir sérnámslækna í vanda. Eins var farið í mikilvægi markvissrar endurgjafar og aðferðafræðina sem liggur þar að baki. Góð endurgjöf getur skipt sköpum og er sá þáttur náms sem hefur hvað mest áhrif á nemendur og vöxt þeirra. Vel unnin endurgjöf er valdeflandi en það þarfnast þjálfunar bæði fyrir handleiðara að veita slíka endurgjöf og eins fyrir sérnámslækni að taka við henni,“ segir Guðrún að endingu. Stefnt er að því að endurtaka námskeiðið í mars.   

Um verkefnið 

Samstarfsaðilar verkefnsins eru Menntavísindastofnun, Landspítali – háskólasjúkrahús, Sjúkrahús Akureyrar og Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu. Faghóp um handleiðslu skipa: Arnfríður Henrysdóttir, sérfræðilæknir í fæðinga- og kvensjúkdómalækningum á Landspítala, Ásta Bryndís Schram, lektor við Heilbrigðisvísindasvið HÍ, Elsa B. Valsdóttir, sérfræðilæknir skurðlækningasvið á Landspítala, Guðrún Ragnarsdóttir, lektor við Menntavísindasvið HÍ, Gunnar Thorarensen, sérfræðilæknir svæfinga- og gjörgæslulækninga á Landspítala, Inga Sif Ólafsdóttir, sérfræðilæknir í lyf- og lungnalækningum og kennslustjóri kandídata á Landspítala, Margrét Ólafía Tómasdóttir, heimilislæknir hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Súsanna Margrét Gestsdóttir, aðjunkt við Menntavísindasvið HÍ, og Tómas Þór Ágústsson, yfirlæknir sérnáms á Landspítala.

Yfir þrjátíu sérnámlæknar frá hinum ýmsu sérgreinum hafa setið handleiðaranámskeið í húsnæði Menntavísindasviðs í Stakkahlíð síðustu daga. Markmið námskeiðsins var að þróa heildstæða nálgun í handleiðslu lækna í framhaldsnámi hér á landi. Handleiðarar gegna gríðarlega mikilvægu hlutverki í að fylgja sérnámslækni eftir í öllu ferlinu og gæta þess að framgangur hans sé í samræmi við námsáætlun.