Metþátttaka í starfstengdri leiðsögn og kennsluráðgjöf | Háskóli Íslands Skip to main content
10. desember 2019

Metþátttaka í starfstengdri leiðsögn og kennsluráðgjöf

Hátt í fimmtíu starfandi leik- og grunnskólakennarar settust á skólabekk síðastliðið haust til að mennta sig í starfstengdri leiðsögn og kennsluráðgjöf. Starfstengd leiðsögn og kennsluráðgjöf er nám á meistarastigi sem er ætlað kennurum á öllum skólastigum og öðru fagfólki á sviði uppeldis- og menntunar. Námið var sett á laggirnar í þeim tilgangi að efla leiðsagnarhæfni þeirra sem annast starfstengda leiðsögn og ráðgjöf á sviði menntunar. Í náminu er horft heildrænt á skólann sem lærdómssamfélag með það að markmiði að efla starfshæfni og fagmennsku einstaklinga og hópa innan sem utan skólans.

Fyrirkomulag kennslunnar er með þeim hætti að námið er skipulagt yfir þrjár annir og sniðið að starfandi kennurum. Kennt er í þremur námslotum yfir hverja önn en á milli lota er námsumhverfi Háskólans nýtt með markvissum hætti til samstarfs. 

Þessa miklu þátttöku í náminu má rekja til aðgerða stjórnvalda til að fjölga kennurum. Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, kynnti aðgerðirnar á vormánuðum en þær fela m.a. í sér styrk til starfandi kennara til að mennta sig í starfstengdri leiðsögn og kennsluráðgjöf. Markmiðið er að fleiri sæki sér sérhæfingu á þessu sviði til þess að skólar verði betur í stakk búnir til að styðja við kennaranema og nýútskrifaða kennara. 

Nemendur hafa verið afar ánægðir með námið. „Námið veitir góða innsýn í hugmyndafræði starfstengdrar leiðsagnar og eflir þætti sem mikilvægt er að hafa á valdi sínu til að takast á við þær áskoranir sem fylgja leiðsagnarstarfi,“ segir Björg Melsted, grunnskólakennari.
 

Nemendur samankomnir á góðri stund á bókasafni Menntavísindasviðs. MYND/ Kristinn Ingvarsson