Skip to main content
8. júní 2023

Samið um samstarf við Háskólann í Tromsø

Samið um samstarf við Háskólann í Tromsø - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Dag Rune Olsen, rektor Háskólans í Tromsø (UiT), undirrituðu í vikunni samstarfssamning milli skólanna sem tekur m.a. til rannsókna, kennslu og starfsmanna- og nemendaskipta. Samninginn undirrituðu þeir í Aðalbyggingu Háskólans í Tromsø.

Samstarf háskólanna tveggja hefur aukist umtalsvert á undanförnum árum sem birtist m.a. í auknum fjölda vísindagreina sem vísindamenn skólanna tveggja birta í sameiningu. Þá vinna stofnanirnar þétt saman á vettvangi Háskóla norðurslóða (University of the Arctic) og í tengslum við leiðtoganámskeiðið ARCADE: The Arctic Academy for Social and Environmental Leadership þar sem áhersla er á að efla leiðtogahæfni nemenda á norðurslóðum og hæfni þeirra til að þróa skapandi lausnir út frá þverfræðilegu sjónarhorni. Enn fremur koma fræðimenn við HÍ og UiT að kennslu í glænýju netnámskeiði innan edX-samstarfisins um átök og friðaruppbyggingu.

Með samningnum nýja er samstarfið formfest enn frekar en það nær m.a. til þróunar sameiginlegra rannsóknarverkefna, námskeiða, ráðstefna og funda og starfsmanna- og nemendaskipta auk þess sem kveðið er á um sameiginlega nýtingu rannsóknarinnviða.

Samstarfssamningurinn er til fimm ára og verður unnið að nánari útfærslu hans á næstu mánuðum og misserum.
 

Dag Rune Olsen, rektor Háskólans í Tromsø (UiT), og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, handsala samstarfsamninginn.