Skip to main content
7. júní 2023

Nýtt netnámskeið um átök og friðaruppbyggingu

Nýtt netnámskeið um átök og friðaruppbyggingu - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskóli Íslands býður nú upp á nýtt, opið netnámskeið innan edX-samstarfsins sem snertir átök og friðaruppbyggingu þar sem áherslan er m.a. á kynjasjónarmið og þátt einstaklinga og hreyfinga ótengdum ríkisvaldi. Um er að ræða áttunda námskeið skólans innan samstarfsins.

Námskeiðið nefnist „Paths to peace and conflict: from the body to the international“ og þar er friðaruppbygging kynnt og greind frá ólíkum sjónarmiðum. Nemendur öðlast skilning á áhrifum átaka á einstaklinga og líkama þeirra auk þess að læra um hlutverk alþjóðastofnana og gerenda sem eru óháðir ríkisvaldinu þegar kemur að átökum og friðaruppbyggingu. 

Í námskeiðinu er beitt ólíkum greiningartækjum, meðal annars kynjasjónarhorni og samþættingu mismunarbreyta, til að varpa ljósi á ólíkar leiðir til að styrkja friðarferla og bæta útkomu þeirra. Kennarar í námskeiðinu leggja til að mynda áherslu á skiptinguna milli einkarýmis og hins opinbera og hvernig það sjónarmið jaðarsetur reynslu einstaklinga sem oft gegna mikilvægu hlutverki í friðaruppbygginu. Þá er sjónum einnig beint að mikilvægi landfræði í friðarfræðum og líkamlegri reynslu í átökum. Dæmi eru m.a. sótt til Afganistans, Balkanskaga, Búrúndí, Kólumbíu og Georgíu.

Kennarahópurinn í námskeiðinu samanstendur af fræðimönnum frá Háskóla Íslands, Háskólanum í Tampere í Finnlandi, Háskólanum í Tromsø, Norðurslóðaháskóla Noregs, Háskólanum í Sarajevo í Bosníu-Hersegóvínu og Háskóla Baskalands á Spáni.

Um edX

EdX er alþjóðlegt samstarfsnet háskóla um rekstur opinna netnámskeiða sem bandarísku háskólarnir Harvard og MIT leiða og Háskóli Íslands hefur verið aðili að undanfarin ár. Markmiðið með þátttöku Háskólans í edX er að auka aðgengi að öflugu og spennandi námi, koma þekkingu innan skólans á framfæri á alþjóðavettvangi og þróa kennsluaðferðir í takt við örar breytingar á tækni og samfélagi. Þetta er áttunda netnámskeiðið sem skólinn býður upp á innan edX-netsins.
 
Yfirlit yfir önnur námskeið skólans innan edX má finna á vef samstarfsnetsins

""