Nærri tíu þúsund umsóknir um nám við Háskóla Íslands | Háskóli Íslands Skip to main content
8. júní 2021

Nærri tíu þúsund umsóknir um nám við Háskóla Íslands

Nærri tíu þúsund umsóknir um nám við Háskóla Íslands - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskóla Íslands bárust nærri tíu þúsund umsóknir um grunn- og framhaldsnám fyrir komandi skólaár, sem er næstmesti fjöldi umsókna að námi við skólann frá upphafi. Umsóknir eru um 15% færri en síðasta vor sem var algjört metár. Umsóknir eru þó 12% fleiri í ár en vorið 2019.  Kórónuveirufaraldurinn virðist ekki hafa áhrif á vilja erlendra nemenda til að stunda nám við skólann því umsóknum þeirra fjölgar um rúm 15% milli ára og eru þær um 1.500 talsins.

Áhrifa kórónuveirufaraldursins gætti sannarlega í fjölda umsókna í fyrra en þá ákváðu háskólar landsins í samstarfi við menntamálayfirvöld að bregðast við auknu atvinnuleysi með því að opna dyr sínar og mennta fólk til nýrra áskorana. Metfjöldi umsókna barst þá bæði í grunn- og framhaldsnám. Sömu sögu var að segja af umsóknum um nám á vormisseri 2021 en þeim fjölgaði um 60% milli ára. Hins vegar var ljóst að þessi fjölgun yrði einungis tímabundin tækist þjóðum heims að vinna bug á faraldrinum.

Sú hefur orðið raunin en umsóknir um nám við Háskóla Íslands næsta haust eru engu að síður mjög margar og umtalsvert fleiri en í meðalári. Alls bárust skólanum nærri 5.750 umsóknir um grunnnám í ár sem er tæplega 15% fækkun milli ára. Sé hins vegar horft aftur til ársins 2019, fyrir faraldurinn, reynist fjölgun umsókna um grunnnám 3%. Enn fremur bárust tæplega 4.070 umsóknir um meistaranám og viðbótarnám á meistarastigi í ár sem er 15% fækkun milli ára en rúmlega fimmtungs fjölgun ef miðað er við árið 2019. 

Umsóknir um grunnnám

Þegar horft er á einstök fræðasvið innan skólans þá bárust Félagsvísindasviði nærri 1.035 umsóknir að þessu sinni. Rétt um þriðjungur, eða 360, eru um nám í viðskiptafræði sem er sem fyrr vinsælasta námsleið sviðsins. Þá sækjast tæplega 220 eftir inngöngu í lögfræði, 190 í félagsráðgjöf, hátt í 90 í hagfræði og rúmlega 70 í félagsfræði.

Á Heilbrigðisvísindasviði reyndust umsóknirnar rúmlega 1.750 en þar á meðal eru 415 umsækjendur sem hyggjast þreyta inntökupróf í læknisfræði og sjúkraþjálfunarfræði síðar í þessari viku. Sextíu nemendur verða teknir inn í læknisfræði og 35 í sjúkraþjálfun í ár og þeir sem ekki fá inngöngu í námgsreinarnar tvær geta skráð sig í aðrar deildir Háskóla Íslands fram til 20. júlí nk. Svipaður fjöldi, eða rúmlega 410, sækist eftir inngöngu í sálfræði sem hefur lengi verið meðal vinsælustu námsleiða skólans. Þá eru umsóknir um nám í hjúkrunarfræði tæplega 330,  þar af um 280 í BS-nám í hjúkrunarfræði, en deildin nýtir samkeppnispróf til inntöku 120 nemenda að loknu fyrsta misseri í desember nk. Fjörutíu og fimm sækjast enn fremur eftir að hefja nám á námsleið í hjúkrunarfræði fyrir fólk sem hefur lokið háskólanámi af öðru fræðasviði. Athygli vekur að umsóknum um nám í bæði tannlæknisfræði og tannsmíði fjölgar frá metárinu í fyrra, en nærri 120 vilja hefja nám í fyrrnefndu greininni og rúmlega 40 í þeirri síðarnefndu. Rúmlega 80 sækja um nám í lífeindafræði og rúmlega 70 í næringarfræði.

Hugvísindasviði bárust 1280 umsóknir. Af þeim voru tæplega 480 um nám í íslensku sem öðru máli, ýmist til BA-prófs eða styttra hagnýts náms. Þá vilja 380 hefja nám í einhverju af þeim fjölmörgu tungumálum sem í boði eru við Mála- og menningardeild skólans. Þar er enska vinsælust tungumála með um 110 umsóknir en nærri 50 vilja stunda nám í japönsku, ýmist til BA-prófs eða styttra hagnýts náms. Þá fjölgar þeim sem vilja leggja stund á sagnfræði milli ára, en þar eru umsóknirnar tæplega 80, og fjölgun er einnig í umsóknum um nám í kvikmyndafræði og almennri bókmenntafræði, en tæplega 50 umsóknir bárust um hvora námsleið.

Vaxandi áhugi hefur verið á námi á Menntavísindasviði undanfarin ár og þar reyndust umsóknir í ár nærri 860. Ríflega fjórðungur, eða um 240, eru um nám í grunnskólakennslu og þá sækjast tæplega 100 eftir því að hefja nám í leikskólakennarafræði, ýmist til B.Ed.-náms eða styttra hagnýts náms. Mikil gróska hefur verið í leikskólakennaranámi við Háskóla Íslands síðustu ár og stunda nú tæplega 500 manns nám í greininni. Þá vilja rúmlega 110 hefja nám í þroskaþjálfafræði og svipaður fjöldi í íþrótta- og heilsufræði.Á Verkfræði- og náttúruvísindasviði voru umsóknir um grunnnám tæplega 820 og þar reynist tölvunarfræði vinsælasta greinin með um 200 umsóknir. Alls eru umsóknir um nám í  verkfræði- og tæknifræðigreinum innan sviðsins tæplega 360, þar af 75 í vélaverkfræði og tæplega 70 í umhverfis- og byggingarverkfræði. Enn fremur vilja 55 hefja nám í líffræði og svipaður fjöldi í stærðfræðinámsleiðum skólans.

Alls bárust skólanum nærri 5.750 umsóknir um grunnnám  í ár sem er tæplega 15% fækkun milli ára. Sé hins vegar horft aftur til ársins 2019, fyrir faraldurinn, reynist fjölgun umsókna um grunnnám 3%. Enn fremur bárust tæplega 4.070 umsóknir um meistaranám og viðbótarnám á meistarastigi í ár sem er 15% fækkun milli ára en rúmlega fimmtungs fjölgun ef miðað er við árið 2019. MYND/Kristinn Ingvarsson

Umsóknir um meistaranám

Umsóknir um meistaranám og viðbótarnám á meistarastigi reyndust nærri 4.070 eða tæplega 15% færri en á sama tíma í fyrra. Þær eru hins vegar 28% fleiri en árið 2019. Líkt og undanfarin ár eru flestar þeirra á Félagsvísindasviði eða tæplega 1.350. Næstflestar bárust Menntavísindasviði, eða rúmlega 900 en það er um 28% fleiri umsóknir en árið 2019. 575 umsóknir um framhaldsnám bárust Heilbrigðisvísindasviði í ár en þar verður vart fjölgunar umsókna í nær öllum sex deildum sviðsins milli ára. Enn fremur eru umsóknir á Hugvísindasviði tæplega 450 og um 270 á Verkfræði- og náttúruvísindasviði. 

Auk þess sækjast um 530 eftir inngöngu í eina af fjölmörgum þverfræðilegum námsleiðum við skólann, flest í meistaranám í menntun framhaldsskólakennara, eða rúmlega 140, en svipaður fjöldi sækir um nám til meistaraprófs eða viðbótarprófs í umhverfis- og auðlindafræði. Þá vilja nærri 80 hefja nám í lýðheilsuvísindum og það er gaman að geta þess að átta vilja hefja nám í líftölfræði í haust samanborið við fjóra fyrir tveimur árum, en sú fræðigrein hefur hlotið aukna athygli í kórónuveirufaraldrinum.

Þessu til viðbótar hafa 115 manns sótt um doktorsnám við Háskólann árið 2021.

Áfram mikill nemendafjöldi í Háskólanum

Við þetta má bæta að erlendum umsóknum við skólann fjölgar um 15% á milli ára og eru rúmlega 1.500 í ár. Áhugi erlenda nemenda á skólanum hefur farið stigvaxandi á undanförnum árum og til marks um það voru umsóknirnar tæplega 1.200 árið 2019 og rúmlega 1.000 árið 2016. Þetta hefur gerst samhliða auknu erlendu samstarfi skólans og aukinni athygli sem vísindastarf skólans hefur fengið á erlendum vettvangi.

Tæplega 16 þúsund manns stunduðu nám við Háskóla Íslands á liðnum vetri sem er metfjöldi. Miðað við fjölda umsókna nú og að teknu tilliti til brautskráninga í vor má reikna með að svipaður fjöldi verði við nám í skólanum næsta vetur.

frá Háskólatorgi