Lifandi miðlun rannsókna og vísinda á Vísindavöku | Háskóli Íslands Skip to main content
25. september 2018

Lifandi miðlun rannsókna og vísinda á Vísindavöku

Drykkjarvatn úr dropum í andrúmslofti, víkingaminjar úr Mývatnssveit, bragðlaukaþjálfun, náttúrumeðferð í félagsráðgjöf, smokkanoktun unglingspilta og mengunarefni í kræklingi og krabba er aðeins lítið brot af þeim viðfangsefnum sem vísindamenn og nemendur Háskóla Íslands kynna á Vísindavöku Rannís í Laugardalshöll föstudaginn 28. september kl. 16.30-22. Vakan er opin öllum áhugasömum.

Vísindavaka er haldin samtímis í helstu borgum Evrópu síðasta föstudag í september undir heitinu European Researchers' Night og nýtur verkefnið stuðnings Evrópusambandsins. Markmiðið með Vísindavöku er að færa vísindin nær almenningi, kynna manneskjurnar á bak við vísindin og vekja fólk til umhugsunar um mikilvægi rannsókna- og vísindastarfs í nútímasamfélagi. 

Vísindavaka var síðast haldin hér á landi fyrir fjórum árum en starfsmenn og stúdentar Háskóla Íslands hafa frá upphafi vökunnar hér á landi látið mikið að sér kveða við miðlun á 
rannsóknum sínum og verkefnum á lifandi og gagnvirkan hátt.
Engin breyting verður á því í ár og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi á básum og stöðvum Háskólans í Laugardalshöll. Þar verður m.a. hægt að spreyta sig á sjónvarpsviðtölum, forvitnast um tölvuleikinn Lokbrá sem undirbýr börn fyrir svæfingu á sjúkrahúsum, kynnast augnheilsu með súrefnismælingum og hvernig sebrafiskar nýtast í rannsóknum á erfðasjúkdómum. Þá verður hægt að kynna sér nýja rannsókn á stöðu íslensku og ensku í samfélaginu á tímum tæknibreytinga, hvernig efla má stafrænt læsi og skapandi færni barna á aldrinum 3-8 ára í sköpunarsmiðjum og prófa af eigin raun hvaða áhrif gott og slæmt aðgengi getur haft á daglegt líf. Enn fremur verður hægt að kynna sér hulduefni og hulduorku, hvaða áhrif sterkir jarðskjálftar hafa á húsin okkar, skoða áburð framtíðarinnar, skoða hvaða áhrif Kötlugos hefði á samfélagið í dag, hlýða á vetrarsöng hnúfubaka og komast að þýðingu æðarfugls og hreindýra fyrir íslenskt samfélag.
Þá verður hægt að setjast undir stýri á TS18, kappakstursbíl verkfræðinemanna í Team Spark, glíma við þrautir og gátur á vegum Vísindavefsins og leika sér í ótal tækjum og tólum úr Vísindasmiðju Háskóla Íslands.

Vísindamenn Háskóla Íslands láta ekki sitt eftir liggja í örfyrirlestrum á Vísindavökunni en meðal viðfangsefna þeirra eru matur í fornum klaustrum á Íslandi, risastóra rannsóknarverkefnið Áfallasaga kvenna, bragðlaukaþjálfun, rannsóknir í Surtsey og stjörnur sem leiðarkerfi hafsins í siglingum á miðöldum. 

Auk þess taka fræðimenn skólans þátt í Vísindakaffi sem fram fer í aðdraganda Vísindavökunnar bæði í höfuðborginni og úti á landi. Þar kynna fræðimenn viðfangsefni sín á óformlegan hátt í kósý kaffispjalli. Nánar má fræðast um Vísindakaffið á heimasíðu Vísindavöku.

Á heimasíðu Háskólans er að finna yfirlit yfir kynningar vísindamanna og nemenda skólans á Vísindavöku.

Aðgangur að Vísindavöku er ókeypis og allir velkomnir!

frá fyrri Vísindavöku