Skip to main content
30. ágúst 2019

Líf og fjör á Nýnemadögum Háskóla Íslands

""

Það verður líf og fjör á Háskólasvæðinu dagana 2.-6. september þegar Nýnemadagar standa yfir í Háskóla Íslands. Boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá alla vikuna þar sem fræðsla, fjör og skemmtun ræður ríkjum.

Mánudaginn 2. september kl. 11.30-13.00 verður glæsileg kynning á þeirri þjónustu sem nemendum stendur til boða á Háskólatorgi. Þarna er kjörið tækifæri til að fá hinar ýmsu upplýsingar beint frá rétta fólkinu. Nemendur geta til að mynda hitt starfsfólk frá Náms- og starfsráðgjöf, Skrifstofu alþjóðasamskipta, Nemendaskrá, Tungumálamiðstöð, Landsbókasafni og sérfræðing í Smáuglunni – appi Háskóla Íslands. Á staðnum verða líka fulltrúar frá Stúdentaráði, Háskólahlaupinu, Sjálfbærni- og umhverfismálum og Háskólakórnum. Þarna má einnig ná tali af Jafnréttisfulltrúum og tengdum aðilum.

Stúdentaráð býður nýnemum í gönguferð um háskólasvæðið kl. 12.30 og einnig verður opið upplýsingaborð fyrir nýnema alla vikuna frá kl. 10-14 á Háskólatorgi.

Þriðjudaginn 3. september kl. 12 syngur Háskólakórinn fyrir gesti og gangandi á Háskólatorgi ásamt því að kynna kórstarfið. Stúdentaráð verður aftur með gönguferð um háskólasvæðið kl. 12.30 og það er um að gera að slást í för og láta leiða sig um háskólasvæðið og kynnast í leiðinni öðrum nemendum. Fulltrúar frá Skrifstofu alþjóðasamskipta kynna spennandi tækifæri á skiptinámi, starfsþjálfun og sumarnámi kl. 12.00-12.30 í stofu HT-300. Kynntir verða þeir styrkir sem í boði eru og hvernig umsóknarferli er háttað. Það er um að gera að mæta enda námskeiðið opið öllum sem vilja meðan húsrúm leyfir.

Miðvikudaginn 4. september kl. 12 stígur tónlistarmaðurinn og læknaneminn Skauti á stokk á Háskólatorgi og heldur tónleika fyrir gesti og gangandi. Enginn ætti að láta þessa ljúfu tóna fram hjá sér fara.

Nýnemadögum lýkur með Nýnemamóti Stúdentaráðs Háskóla Íslands þar sem nemendafélög skólans eigast við í fótbolta á grasinu fyrir framan Aðalbyggingu. MYND/Kristinn Ingvarsson.

Fimmtudaginn 5. september kl. 12 taka meðlimir Háskóladansins sporið á Háskólatorgi og kynna í leiðinni þau dansnámskeið sem eru í boði á vegum félagsins.

Föstudag 6. september lýkur Nýnemadögum með árlegu Nýnemamóti SHÍ þar sem keppt verður í fótbolta á túninu fyrir framan Aðalbygginguna. Keppnin hefst kl.11.30, er á milli nemendafélaga en allir nemendur skólans geta tekið þátt. Hvert nemendafélag má vera með nokkur lið en skylda er að það séu a.m.k. tveir nýnemar í hverju liði. Skráning fer fram í gegnum nemendafélög.

Upplýsingaborð á Háskólatorgi verður sem fyrr segir opið kl. 10-14 alla vikuna en þar geta nýnemar og aðrir fengið svör við ýmsum spurningum sem brenna á þeim í upphafi skólaárs.

Í tengslum við Nýnemadaga verður efnt til spurningarleiks á Uglunni en hægt er að taka þátt í honum fram til kl. 13 föstudaginn 6. september. Glæsilegir vinningar eru í boði og dregið verður úr réttum svörum kl. 14 þann dag.

Allir nýnemar og aðrir stúdentar eru hvattir til að taka þátt í dagskrá Nýnemadaga og kynna sér sérstaka vefsíðu fyrir nýnema sem er stútfull af upplýsingum um þjónustu og fyrstu skrefin í HÍ. Þá má fylgist með Háskóla Íslands á samfélagsmiðlunum Facebook, Twitter, Instagram, YouTube og Snapchat undir „haskolasnappid“. Nemendur Háskóla Íslands taka af og til að sér Instagram og Snapchat yfir skólaárið, ekki missa af því.

Nánari upplýsingar um dagskrá Nýnemadaga.

Háskóladansinn á Háskólatorgi