Gæfa að byggja ákvarðanir á vísindum | Háskóli Íslands Skip to main content
27. júní 2020

Gæfa að byggja ákvarðanir á vísindum

Nemendur við brautskráningu

„Við skulum minnast þess að tímar mikilla umbrota og tæknibyltinga eins og við nú lifum geyma óþrjótandi tækifæri fyrir vel menntað fólk. Háskólar eru aflvakar framfara í nýsköpun, atvinnu- og þjóðlífi, ekki síst þegar mikið liggur við.“

Þetta sagði Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands við brautskráningu 2.050 kandídata, bæði úr grunn- og framhaldsnámi, í Laugardalshöll í dag. Áhersla var lögð á að athöfnin væri örugg m.t.t. sóttvarna og var hún því skipulögð í samráði við sóttvarnayfirvöld.

Upptaka frá báðum brautskráningarathöfnum

Myndir frá báðum athöfnunum

Rektor færði stúdentum og starfsliði Háskólans sérstakar þakkir fyrir hversu vel hefði tekist til í starfi skólans við einhverjar flóknustu aðstæður sem nokkurn tíma hefðu verið uppi í sögu hans. COVID-19 hafði verulega hamlandi áhrif á allt starf skólans og stjórnendur og kennarar kappkostuðu að halda uppi gæðum kennslu og prófa. 

„Á skömmum tíma vorum við svipt mörgu af því sem við teljum sjálfsagt og höfum gengið að sem vísu. Þetta eru vitaskuld ekki bestu kringumstæður til að einbeita sér að námi eða krefjandi lokaverkefnum,“ sagði háskólarektor, „þvert á móti eru þetta aðstæður af því tagi sem alla jafna ala á vonleysi og ýta undir brotthvarf úr námi. Þeim mun ánægjulegra er að vísbendingar sýna að námsframvinda og -árangur nemenda Háskóla Íslands hafi almennt ekki verið lakari nú en á síðasta ári.“

Jón Atli sótti í smiðju þjóðskáldsins Jónasar Hallgrímssonar sem fyrstur notaði orðið „seigla“ en rektor lofaði sérstaklega „seiglu“ stúdenta við að takast á við mótlæti á liðnu vormisseri. Hann sagði að stúdentar hefðu átt stóran þátt í því hversu vel hefði tekist að umbylta öllu skólastarfinu svo að segja á einni nóttu. Jón Atli sagðist líka sannfærður um að reynsla stúdentanna frá liðnum vetri og vori yrði þeim öllum mikilvægt veganesti þegar fram í sækti og kæmi til með að efla öllum styrk og skilning á því sem gefi lífinu raunverulegt gildi. 

Mikilvægi menntunar og rannsókna

Í ávarpi sínu til kandídata í dag ræddi rektor einnig mikilvægi háskólanna og menntunar og ekki síst rannsókna og nýsköpunar. Hann sagði að án þrotlausrar viðleitni vísindamanna í aldanna rás hefðum við staðið algerlega berskjölduð gagnvart kórónaveirunni. 

„Flestar tækninýjungar og uppgötvanir sem hafa bætt lífshætti okkar eiga með einum eða öðrum hætti rætur að rekja til háskólanna. Til þeirra má einnig rekja nýja strauma og hugmyndastefnur sem gerbylt hafa skilningi okkar á sjálfum okkur og heiminum. Við slíkar aðstæður sem nú eru uppi og einkennast af miklu umróti og umbyltingum á öllum sviðum er nauðsynlegt að halda á lofti varanlegum verðmætum sem gefa lífinu gildi, réttlæti, vináttu og frelsi. Við þurfum að verja þessi gildi dag hvern, þau eru ekki sjálfgefin.“

Jón Atli vék einnig að áhrifum Háskóla Íslands í íslensku samfélagi, ekki síst á síðustu vikum og mánuðum í baráttunni við vágestinn COVID-19. Hann sagði að vísindamönnum Háskóla Íslands hefði tekist á skömmum tíma að hanna spálíkan sem lýsti af mikilli nákvæmni þróun faraldursins hér á landi og auðveldaði yfirvöldum að bregðast rétt við. „Sökum hás menntunarstigs þjóðarinnar bárum við Íslendingar gæfu til að byggja ákvarðanir okkar og viðbrögð á bestu sannreyndu vísindalegu gögnum. Vísindamenn, einkum hjá Íslenskri erfðagreiningu, Háskóla Íslands og Landspítalanum, voru með þeim fyrstu til að varpa ljósi á þróun og útbreiðslu veirusjúkdómsins og vöktu rannsóknir þeirra heimsathygli. Þegar á reynir er mest um vert að við getum reitt okkur á trausta vísindalega þekkingu.“

Atvinnuleysi – menntun er svarið

Í ávarpi sínu talaði Jón Atli einnig um stóraukið tímabundið atvinnuleysi hér á landi og benti á að því fylgdi mikil sókn í háskólanám. „Umsóknum í grunnnám við Háskóla Íslands fyrir haustið 2020 hefur fjölgað um meira en 20% frá fyrra ári og umsóknum í framhaldsnám um hvorki meira né minna en 50%,“ sagði rektor. „Ég er sannfærður um að þessi stóraukna aðsókn muni færa okkur ný tækifæri til vaxtar og þróunar ef við stöndum saman vörð um gildi og gæði háskólamenntunar á þessum erfiðu tímum.“

Við brautskráninguna í dag flutti söngkonan GDRN tvö lög og vitnaði rektor sérstaklega í ljóð hennar um vorið. „Allar leiðir liggja sama veg, held að samferð okkur fari vel,“ sagði Jón Atli og benti á að samfylgd stúdenta og starfsliðsins hefði verið einkar farsæl í þetta sinn. 

„Seiglan sem þið hafið sýnt mun skila ykkur áfram á grunni þeirrar traustu menntunar sem þið hafið hlotið.“

Rektor óskar nemenum til hamingju með brautskráninguna