Skip to main content
27. júní 2020

Ávarp rektors Háskóla Íslands við brautskráningu 27. júní

""

Forsetar fræðasviða, aðstoðarrektor, deildarforsetar, kandídatar, starfsfólk Háskóla Íslands, góðir gestir nær og fjær. 

Kæru kandídatar, brautskáningarathöfn ykkar hér í dag er einstök í 109 ára sögu Háskóla Íslands.  Til skamms tíma leit jafnvel út fyrir að hún gæti alls ekki farið fram.  Heimsfaraldur, sem engan gat órað fyrir, setti ekki aðeins háskólastarfið úr skorðum heldur raskaði meira og minna öllu mannlífi á jarðkringlunni.  

Við brautskráningu er okkur jafnan efst í huga hamingjuóskir til kandídatanna sem hafa sett sér háleit markmið með því að skrá sig til náms við Háskóla Íslands, unnið markvisst að þeim, sigrast á mótlæti, unnið áfangasigra og uppskorið að launum langþráða og verðskuldaða prófgráðu.  Sjaldan hafa slíkar hamingjuóskir verið jafn viðeigandi og nú, kæru kandídatar.  Ykkur tókst að ljúka námi við einhverjar óvenjulegustu og erfiðustu aðstæður sem nemendur skólans hafa nokkurn tíma þurft að glíma við.  Á skömmum tíma vorum við svipt mörgu af því sem við teljum sjálfsagt og höfum getað gengið að sem vísu.  

„Allt er í heiminum hverfult“, orti þjóðskáldið Jónas Hallgrímsson.  Þetta upplifðuð þið öll á eigin skinni í vetur og vor.  Jónas er einhver mesti orðasmiður sem við Íslendingar höfum átt og úr hugskoti hans kemur orðið „seigla“ sem á sannarlega við um ykkur öll sem hér fagnið nýjum áfanga í dag.  Orðið „gangverk“ er líka hugarsmíð Jónasar og í vetur fundum við einmitt gangverk samfélagsins stöðvast þegar við hættum að hittast, heilsast með handabandi og faðmast.  En aðstæður voru ekki bara erfiðar sökum samkomubanns, heldur líka vegna þess að veiran er algerlega ný af nálinni.  Eftir að fyrsta staðfesta tilfellið barst hingað í febrúarlok gat enginn vitað hvernig veiran myndi leika okkur.  Þessi ógnvænlegi vágestur, sem einungis er sýnilegur fyrir mátt vísindanna, hefur nú þegar lagt um hálfa milljón manna að velli og enn sér ekki fyrir endann á framvindunni.  Þetta eru vitaskuld ekki bestu kringumstæður til að einbeita sér að námi eða krefjandi lokaverkefnum.  Þvert á móti eru þetta aðstæður af því tagi sem alla jafna ala á vonleysi og ýta undir brotthvarf úr námi.  Þeim mun ánægjulegra er að vísbendingar sýna að námsframvinda- og árangur nemenda Háskóla Íslands hafi almennt ekki verið lakari nú en á síðasta ári.  

Kæru kandídatar.  Við skulum minnast þess að tímar mikilla umbrota og tæknibyltinga eins og við nú lifum geyma óþrjótandi tækifæri fyrir vel menntað fólk.  Háskólar eru aflvakar framfara í nýsköpun, atvinnu- og þjóðlífi, ekki síst þegar mikið liggur við.  Flestar tækninýjungar og uppgötvanir sem hafa bætt og verndað lífshætti okkar eiga með einum eða öðrum hætti rætur að rekja til háskólanna.  Til þeirra má einnig rekja nýja strauma og hugmyndastefnur sem gerbylt hafa skilningi okkar á sjálfum okkur og heiminum.  Við slíkar aðstæður sem nú eru uppi og einkennast af miklu umróti og umbyltingum á öllum sviðum, er nauðsynlegt að halda á lofti varanlegum verðmætum sem gefa lífinu gildi, réttlæti, vináttu og frelsi.  Við þurfum að verja þessi gildi dag hvern, þau eru ekki sjálfgefin.  Við verðum að rækta með okkur hugarfar sem hefur óbeit á siðspillingu, hvers kyns mismunun og ofbeldi og virðir allt fólk og líf á jörðinni.  Þessi grunngildi sem binda okkur saman þvert á þjóðlönd og heimsálfur verða enn brýnni og augljósari þegar heimurinn allur stendur frammi fyrir sameiginlegri vá, hvort sem hún birtist í formi skæðrar veiru, eða veðurofsa, en við fengum að kenna á hvoru tveggja á þessu viðburðarríka háskólaári. 

Kæru kandídatar, sú lífsreynsla sem þið hafið gengið í gegnum á umliðnu misseri er einstök og þið munið búa að henni um ókomna framtíð.  Hún reyndi sannarlega á þolrifin, en ég er sannfærður um að þegar fram í sækir mun þessi reynsla verða ykkur veganesti og efla með ykkur styrk, þrautseigju og skilning á því sem gefur lífinu raunverulegt gildi. Og þið megið sannarlega vera stolt af árangri ykkar á þessum einstæða brautskráningardegi.  Þið eigið stóran þátt í því hversu vel tókst að umbylta öllu skólastarfinu svo að segja á einni helgi.  Ef þið hefðuð ekki sýnt sveigjanleika og samstöðu hefði okkur ekki auðnast að ljúka skólaárinu á jafn farsælan hátt og raun ber vitni.  Markmið Háskóla Íslands var að halda uppi gæðum náms og kennslu og ljúka prófum á eins eðlilegan hátt og kostur var.  Kennarar Háskólans og starfsfólk í stoðþjónustu lagði líka nótt við dag við að flytja alla kennslu og prófahald yfir á rafrænt form og styðja við ykkur með ráðum og dáð.  Ófrávíkjanlegt leiðarljós okkar er sem fyrr að prófgráður frá Háskóla Íslands standist ströngustu alþjóðlegu kröfur um gæði.  Við höfum því öll ríka ástæðu til að fagna vel unnu verki í dag.  

Við höfum líka ástæðu til að þakka fyrir framlag vísinda og fræða og halda á lofti gildi háskólmenntunar.  Án þrotlausrar viðleitni vísindamanna í aldanna rás hefðum við staðið algerlega berskjölduð og lítið getað gert til að verjast.  Nægir í því sambandi að bera saman afleiðingarnar af veirufaraldrinum nú og spænsku veikinni sem herjaði á Íslendinga veturinn 1918-1919, sjö árum eftir stofnun Háskóla Íslands, og dró tæplega fimm hundruð manns til dauða á Íslandi.  Það jafngildir því að tæplega tvö þúsund manns hefðu látist vegna COVID-19 hér á landi.  Ævintýralegar framfarir hafa orðið í flestum greinum vísinda á síðastliðinni öld.  Stofnun Háskóla Íslands tryggði að Íslendingar gátu notið góðs af framförum á alþjóðlegum vettvangi vísindanna og þar hefur skólinn sjálfur lagt sífellt meira af mörkum á undanförnum árum.  Vísindamönnum Háskóla Íslands tókst t.d. á skömmum tíma að hanna spálíkan sem lýsti af mikilli nákvæmni þróun faraldursins hér á landi og auðveldaði yfirvöldum að bregaðst rétt við.  Sökum hás menntunarstigs þjóðarinnar báru Íslendingar gæfu til að byggja ákvarðanir sínar og viðbrögð á bestu sannreyndu vísindalegu gögnum hverju sinni.  Vísindamenn, einkum hjá Íslenskri erfðagreiningu, Háskóla Íslands og Landspítalanum, voru með þeim fyrstu til að varpa ljósi á þróun og útbreiðslu veirusjúkdómsins og vöktu rannsóknir þeirra heimsathygli.  Þegar á reynir er mest um vert að við getum reitt okkur á trausta vísindalega þekkingu.  

En Íslendingar og íslensk stjórnvöld líta einnig til háskólanna þegar kemur að viðbrögðum við efnahagslegum afleiðingum mikilla áfalla.  Stórauknu tímabundnu atvinnuleysi hér á landi fylgir mikil eftirsókn í háskólanám.  Umsóknum í grunnnám við Háskóla Íslands fyrir haustið 2020 hefur fjölgað um meira en 20% frá fyrra ári og umsóknum í framhaldsnám um hvorki meira né minna en 50%.  Ég er sannfærður um að þessi stóraukna aðsókn muni færa okkur ný tækifæri til vaxtar og þróunar ef við stöndum saman vörð um gildi og gæði háskólamenntunar á þessum erfiðu tímum.  Háskóli Íslands á allt sitt undir því að íslensk þjóð skynji mikilvægi háskólastarfs og að löggjafinn sýni þann skilning í verki.  Atburðir síðustu mánaða hafa líka minnt okkur rækilega á mikilvægi þess að hugsa út fyrir rammann, sýna sveigjanleika og vera óhrædd við breytingar, en þetta eru allt forsendur öflugrar liðsheildar sem skilað hefur skólanum í flokk fremstu háskóla á alþjóðavettvangi.  

Góðir kandídatar, prófskírteinið sem þið veitið viðtöku hér á eftir er lykill ykkar að bjartari framtíð.  Við vitum að háskólagráða er ein besta fjárfesting einstaklings á lífsleiðinni, en gildi hennar birtist ekki síður í því að þeir sem lokið hafa háskólanámi telja sig almennt búa við meiri starfsánægju, betri heilsu, meiri hamingju og eru líklegri til að vera virkir borgarar í lýðræðissamfélagi en almennt gengur og gerist.  Háskólamenntun gagnast vitaskuld ekki bara einstaklingnum heldur samfélaginu öllu.  Sé horft til áskorana samtímans, sem krefjast nýrra og þverfræðilegra lausna, blasa við óþrjótandi brýn verkefni fyrir fólk með fjölbreytta háskólamenntun.  

Kæru kandídatar, fjölskyldur og vinir.  Gestur okkar á þessari háskólahátíð er listakonan GDRN.  Það er við hæfi á þessum fallega sumardegi að ég ljúki máli mínu á að vitna í texta hennar við lagið „Vorið“ sem hún flytur hér síðar í athöfninni. 

Eftir langa bið, þá veit ég núna,
að ég þarf ekki að missa trúna.
Allar leiðir liggja sama veg,
held að samferð okkur fari vel.

Fyrir hönd alls starfsfólks Háskóla Íslands þakka ég ykkur samferðina.  Hún hefur sannarlega farið vel.  Um leið og ég óska ykkur enn og aftur til hamingju með árangurinn vil ég hvetja ykkur til góðra verka hvar sem þið munið hasla ykkur völl.  Seiglan sem þið hafið sýnt mun skila ykkur áfram á grunni þeirrar traustu menntunar sem þið hafið hlotið.  En ferð ykkar er rétt að hefjast; megi gæfan ávallt brosa við ykkur hvert sem leiðin liggur.  Göngum glöð út í daginn, fögnum með fjölskyldum okkar og vinum og látum gott af okkur leiða.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, ávarpar kandídata við brautskráningu í dag.