Skip to main content
3. desember 2021

Árangur Háskólans byggist á mannauðnum

Árangur Háskólans byggist á mannauðnum - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á starfsfólk og stúdenta í dag (3. desember):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk.

Í fjárlagafrumvarpinu sem nú hefur verið lagt fram á Alþingi er að finna heimild fyrir fjármálaráðherra vegna mögulegra áforma um að ganga til samninga um kaup á Hótel Sögu. Háskóli Íslands hefur um nokkurt skeið leitað leiða til að fá þessa miklu byggingu sem er í hjarta háskólasvæðisins. Ef þetta verður samþykkt á Alþingi og gengið verður frá kaupum er hugmyndin að Saga hýsi starfsemi Menntavísindasviðs ásamt fjölbreyttum þáttum í starfi okkar, auk stúdentaíbúða á vegum FS. Allt frá sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands hefur Menntavísindasvið haft höfuðstöðvar í Stakkahlíð. Frá þeim tíma hefur legið fyrir að samþætting menntavísinda og annarrar starfsemi HÍ verði fyrst í höfn þegar starfsemin verður öll á einum og sama staðnum. Vonandi nær það nú fram að ganga.

Og meira af húsnæðismálum. Mörg ykkar undrast eðlilega þær tafir sem hafa orðið á að framkvæmdir hefjist á Háskólatorgi og í Gimli eftir vatnstjónið mikla sem þar varð í ársbyrjun. Ég vil allra fyrst þakka ykkur fyrir ótrúlega þolinmæði og að sinna af krafti starfi og námi í allt of langan tíma við margfalt erfiðari aðstæður en við eigum að venjast. Ástæður tafa í þessu máli liggja m.a. í þessu:

  • Við erum enn að bíða eftir sérfræðilegri álitsgerð matsmanna sem verður sönnunargagn í dómsmáli sem er óhjákvæmilegt að heyja.
  • Stefán Geir Þórisson hrl., lögfræðingur Háskólans í þessu máli, hefur ráðið HÍ frá því að fara í framkvæmdir þar til matsgerðin liggur fyrir svo skólinn spilli ekki sönnunargögnum og veiki með því stöðu sína.
  • Það er mikið verk að meta svo gífurlegt tjón og sækist það því miður hægar en við viljum.
  • Til eru tvær skýrslur sem lúta að umfangi tjónsins en matsgerðin sem við bíðum enn eftir lýtur að fjárhagslegu umfangi tjónsins.
  • Því miður er ómögulegt að segja nákvæmlega til um hvenær matsgerðarinnar er að vænta en vinnan við hana ætti að vera á lokastigi.
  • Drög að stefnu, sem unnin eru í samvinnu við lögfræðinga skólans, eru komin vel á veg. Þegar matsgerðin liggur fyrir verður Háskólanum ekkert að vanbúnaði að höfða dómsmál og fara í beinu framhaldi í mjög brýnar framkvæmdir.

Á dögunum urðu þau tíðindi að tilkynnt var um nýja ríkisstjórn Íslands. Við endurskipun stjórnarráðsins er m.a. stofnað nýtt ráðuneyti vísinda, iðnaðar og nýsköpunar. Fyrir hinu nýja ráðuneyti fer Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og bjóðum við hana velkomna til starfa og við hlökkum til samstarfsins.

Í nýrri stefnu HÍ er markvisst stuðlað að hvetjandi starfsumhverfi með vellíðan allra að leiðarljósi. HÍ mun kappkosta að laða áfram til sín metnaðarfullt fólk með fjölbreyttan bakgrunn sem styrkir stöðu skólans jafnt innanlands sem í alþjóðlegri samkeppni. Við segjum stundum að það sé hlutverk Háskólans að takast á við áskoranir, leiða upplýsta umræðu og vinna af krafti að rannsóknum og nýsköpun. Í meginatriðum byggist árangur skólans á mannvitinu, mannauðnum, okkur sjálfum.

Við höfum því láni að fagna að eiga ótrúlegan mannauð í Háskóla Íslands, en hugvitið, helgunin og ástríðan eru þeir kraftar sem drífa skólann fyrst og síðast áfram. Í gær voru veittar fjórar viðurkenningar fyrir lofsvert framlag í starfi við Háskóla Íslands, á sviði kennslu, rannsókna, jafnréttismála og annarra starfa í þágu skólans. Viðurkenningarhafar voru þau Matthew James Whelpton, Guðmundur Hrafn Guðmundsson, Kristín Magnúsdóttir og kennarar og nemendur í starfstengdu diplómanámi við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda. Ég óska þeim öllum innilega til hamingju með verðskuldaða viðurkenningu.

Kæru nemendur og samstarfsfólk. Því miður berast enn tíðindi af útbreiðslu COVID-19 sem eru á annan veg en við vonuðumst eftir. Það er því afar brýnt að missa ekki þolinmæðina heldur huga vandlega að eigin sóttvörnum og hvika hvergi frá sóttvarnarreglum. Þiggjum án tafar bóluefni þegar það býðst. Munum grímuna, þvoum hendur vandlega og sprittum. Á næstu dögum verður settur upp tækjabúnaður fyrir COVID-19 hraðprófsstöð á Háskólatorgi. Áformað er að opna stöðina á þriðjudag og hvet ég ykkur til að nýta þjónustuna sem verður að sjálfsögðu ókeypis og eykur öryggi okkar allra.

Nú er sá tími hafinn sem reynir hvað mest á ykkur, kæru nemendur, en lokapróf haustmisseris eru í fullum gangi. Góður undirbúningur hefur afar mikið að segja um árangur í prófum en það hefur líka veruleg áhrif á niðurstöðuna að ná að hvílast og lyfta huganum annað slagið frá lestri og verkefnum. Gangi ykkur allt að óskum, kæru nemendur, og ég sendi jafnframt kennurum skólans baráttukveðjur á þessum lokametrum misserisins.

Hugum hvert að öðru og gleymum ekki að gæta að eigin líðan í amstri daganna.

Góða helgi.

Jón Atli Benediktsson, rektor"

hótel saga