Skip to main content
2. desember 2021

Verðlaunuð fyrir lofsvert framlag í starfi við HÍ

Verðlaunuð fyrir lofsvert framlag í starfi við HÍ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Fjórar viðurkenningar voru í dag veittar fyrir lofsvert framlag í starfi við Háskóla Íslands, á sviði kennslu, rannsókna, jafnréttismála og annarra starfa. Verðlaunahafar eru Matthew James Whelpton, Guðmundur Hrafn Guðmundsson, kennarar og nemendur í starfstengdu diplómanámi við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda, og Kristín Magnúsdóttir. Viðurkenningarnar voru afhentar á upplýsingafundi rektors fyrir starfsfólk. 

Viðurkenningar fyrir lofsverðan árangur í starfi hafa verið veittar við Háskóla Íslands í rúma tvo áratugi. Í upphafi var þremur starfsmönnum veitt viðurkenning á svið kennslu, rannsókna og almennra starfa en fyrir tveimur árum var tekin upp sú nýbreytni að bætt var við fjórðu viðurkenningunni fyrir lofsvert framlag til jafnréttismála. Er þetta í samræmi við þá áherslu sem lögð er á jafnréttismál í stefnu Háskóla Íslands. Allir verðlaunahafar hljóta viðurkenningarskjal, greinargerð valnefndar, blómvendi og peningaverðlaun að fjárhæð 500 þúsund krónur.

Matthew

Matthew James Whelpton, prófessor við Mála- og menningardeild og kennsluþróunarstjóri Hugvísindasviðs, hlýtur viðurkenninguna fyrir lofsvert framlag til kennslu. Hann lauk doktorsprófi í enskum málvísindum frá Oxford-háskóla árið 1995 og var ráðinn sama ár í starf lektors í ensku við Hugvísindadeild Háskóla Íslands. Síðan þá hefur hann kennt við Háskólann og gegnir nú starfi prófessors í ensku. 

„Matthew hefur kennt námskeið á ýmsum sviðum enskra og almennra málvísinda, bæði inngangsnámskeið og sértækari námskeið í málvísindum. Hann hefur frá upphafi verið afar farsæll kennari og hefur lagt sig fram við að tileinka sér nýjungar, kynna sér tækni og laga kennsluna að nýjum þörfum og kröfum. Nemendur hrósa honum í kennslukönnunum fyrir smitandi áhuga í kennslu, framúrskarandi undirbúning og leikni við að útskýra flókna hluti á einfaldan hátt fyrir nemendum. 

Haustið 2019 var Matthew ráðinn í hálft starf kennsluþróunarstjóra Hugvísindasviðs. Í því starfi hefur Matthew byggt á áralangri reynslu sinni sem kennari og unnið markvisst að því að auka gæði kennslu og náms á sviðinu. Á meðan heimsfaraldur geisaði vann hann þrekvirki við að leiðbeina kennurum í öllum deildum Hugvísindasviðs við að nýta sér hin ýmsu rafrænu kerfi við kennsluna. Það er ljóst að frumkvæði Matthews skipti sköpum á erfiðum tímum í starfi sviðsins og skólans alls. Matthew var tekinn inn í Kennsluakademíu opinberu háskólanna haustið 2021 og er þar með einn af stofnfélögum hennar,“ segir í umsögn valnefndar vegna viðurkenningarinnar.

Guðmundur  
Guðmundur Hrafn Guðmundsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild á Verkfræði- og náttúruvísindasviði, hlýtur viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til rannsókna. Guðmundur Hrafn lauk BS-prófi í líffræði við Háskóla Íslands 1983 og lagði stund á framhaldsnám í sömu grein við sama skóla 1983-1984. Að því búnu stundaði hann doktorsnám við Houston-háskóla í Texas í Bandaríkjunum og við Stokkhólmsháskóla og lauk þaðan doktorsprófi árið 1992. Að námi loknu starfaði hann við rannsóknir í Svíþjóð til ársins 1999 er hann var ráðinn dósent í ónæmisfræði við Karólínsku stofnunina og starfaði þar til ársins 2000. Guðmundur Hrafn var ráðinn prófessor í frumulíffræði við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands árið 2001 og hefur gegnt því starfi síðan.

„Óhætt er að segja að Guðmundur Hrafn hafi sýnt mikinn metnað og elju við uppbyggingu rannsókna og aðstöðu við Háskóla Íslands. Hann leiðir öflugan rannsóknarhóp og hefur gefið nemendum tækifæri til að taka þátt í sameindalíffræðilegum rannsóknum á heimsmælikvarða. Guðmundur Hrafn er vinsæll leiðbeinandi og hefur reynst nemendum mikil fyrirmynd. Hann er víðsýnn og hugmyndaríkur vísindamaður og nýtu mikillar virðingar á sínu fagsviði.

Guðmundur Hrafn er brautryðjandi í rannsóknum á bakteríudrepandi peptíðum og einn af fremstu fræðimönnum heims á sviði innbyggða ónæmiskerfisins. Þannig rannsakar hann fyrstu varnir manna og dýra við sýkingum og samspil hýsils og sýkils. Í því sambandi hefur hann m.a. sýnt fram á að margir sýklar draga úr tjáningu bakteríudrepandi peptíða í þekjum sem auðveldar þeim innrás í líkamann. Guðmundur Hrafn er höfundur tæplega eitthundrað vísindagreina á sviði tilraunavísinda og margar þeirra hafa birst í tímaritum með háan áhrifastuðul og eru skráðar um níu þúsund tilvitnanir í verk hans.

Guðmundur Hrafn er gestaprófessor við Karólínsku stofnunina og annar stofnandi sprotafyrirtækisins Akthelia sem sérhæfir sig í að koma efnum er örva framleiðslu bakteríudrepandi peptíða á markað, sem nýrri tegund lyfja með breiðvirk áhrif á sýkla,“ segir í umsögn valnefndar.

diplomanam

Þau Ragnar Smárason, starfsmaður diplómanámsleiðarinnar og útskrifaður diplómanemi, og Helena Gunnarsdóttir, verkefnastjóri námsleiðarinnar, tóku við verðlaununum fyrir hönd nemenda og kennara.

Kennarar og nemendur í starfstengdu diplómanámi við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda á Menntavísindasviði, hljóta viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til jafnréttismála. Starfstengt diplómanám fyrir fólk með þroskahömlun er tveggja ára fullt nám. Tilgangur þess er að veita fólki með þroskahömlun möguleika til fullgildrar samfélagsþátttöku. Markmið námsins er að undirbúa nemendur til starfa, m.a. í skólum, leikskólum, félagsmiðstöðvum og á öðrum vettvangi þar sem fatlað fólk sækir þjónustu. Námið byggir á hugmyndafræði um menntun fyrir alla og er skipulagt í samræmi við yfirlýsta alþjóðlega stefnu hagsmunasamtaka fólks með þroskahömlun, mannréttindasáttmála og stefnu Háskóla Íslands.

„Námið hófst í Kennaraháskóla Íslands árið 2007 og hefur haldið áfram í Háskóla Íslands eftir sameiningu þessara tveggja menntastofnana 2008. Námið er án aðgreiningar og stunda diplómanemendur það með öðrum háskólanemum. Það er þverfaglegt og samanstendur af námskeiðum frá mismunandi deildum. Námið er sniðið og skipulagt út frá þörfum og áhuga hvers nemanda til undirbúnings fyrir störf á sviði menntavísinda og störf er snúa að valdeflingu, hagsmunabaráttu og þátttöku fatlaðs fólks. Sérstök áhersla er lögð á tengingu nemenda við almennan vinnumarkað.

Nemendur í diplómanáminu, í samstarfi við kennara, hafa verið mjög virkir og sýnilegir í jafnréttisstarfi Háskóla Íslands, m.a. á árlegum Jafnréttisdögum. Þau hafa staðið fyrir fjölbreyttum viðburðum, s.s. sýningum, málþingum og myndböndum sem vakið hafa athygli fjölmiðla. Með þessu hafa nemendur virkjað þekkingu og reynslu sína til að vekja athygli á málefnum fatlaðs fólks. Með baráttu sinni hafa nemendur veitt Háskóla Íslands og samfélaginu öllu uppbyggilegt aðhald, oft með hugmyndaauðgi og kímnigáfu að vopni eins og þekkt er í mannréttindabaráttu um víða veröld.

Diplómanámið er liður í því að Háskóli Íslands sé opinn sem breiðustum hópi nemenda og standi þannig undir því að vera háskóli allrar þjóðarinnar,“ segir í umsögn valnefndar. 

Kristín

Kristín Magnúsdóttir, deildarstjóri Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði við Læknadeild á Heilbrigðisvísindasviði, hlýtur viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til stjórnsýslu og stoðþjónusu. Hún lauk prófi í lyfjafræði frá Háskóla Íslands árið 1974 og hóf störf á Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði (RLE) árið eftir.

„Kristín er einn af frumkvöðlum í réttarefnafræðilegum rannsóknum á Íslandi og hefur verið virkur þátttakandi í starfi og uppbyggingu stofnunarinnar frá upphafi, en þar fara fram greiningar á ávana- og fíkniefnum, lyfjum og eiturefnum sem þurfa m.a. að standast strangar kröfur um áreiðanleika fyrir dómstólum.  

Innan RLE hefur byggst upp mikil reynsla og þekking á réttarefnafræði fyrir lögreglu og dómsyfirvöld og þar hefur Kristín verið lykilstarfsmaður áratugum saman. 

Kristín er jafnframt helsti starfandi sérfræðingur Íslands í rannsóknum á ölvunarakstri, bæði hvað varðar uppsetningu og þróun rannsóknaraðferða, úrvinnslu gagna og túlkun niðurstaðna. Hún er okkar helsti sérfræðingur um áhrif lyfja og fíkniefna á ökumenn og hefur þannig verið kölluð sem vitni margsinnis ár hvert til að gefa sérfræðiálit í óteljandi dómsmálum. Í gegnum árin hefur hún verið meðhöfundur að nokkrum rannsóknagreinum og hefur kynnt rannsóknir sínar bæði hér heima og erlendis.  

Síðustu ár hefur Kristín verið ein af þremur yfirstjórnendum RLE og tekið á sig ábyrgð á rekstri rannsóknastofunnar. Þá hefur hún tekið þátt í ráðningum starfsfólks til fjölda ára og stuðlað að frábæru vinnuumhverfi sem best sést á löngum starfsaldri flestra sem vinna á RLE.

Undanfarin ár hefur farið fram mikil vinna við að afla RLE vottunar samkvæmt viðeigandi ISO-staðli. Tókst það ferli afskaplega vel og er það ekki síst því að þakka hversu vel hefur verið staðið að öllu verklagi og öguðum vinnubrögðum innan RLE og á Kristín þar stóran hlut að máli. 
Kristín lauk störfum fyrir aldurs sakir í lok október síðastliðins og er hún í hópi þeirra sem hafa átt hvað lengstan og farsælastan starfsferil hjá Háskóla Íslands,“ segir í umsögn valnefndar. 

Háskóli Íslands óskar þessu framúrskarandi starfsfólki innilega til hamingju með verðskuldaða viðurkenningu. 

Um viðurkenningar fyrir lofsverðan árangur í starfi

Viðurkenningar til starfsmanna fyrir lofsverðan árangur í starfi hafa verið veittar allt frá árinu 1999. Samtals hafa 65 starfsmenn Háskóla Íslands verið heiðraðir með þessum hætti fram að þessu.

Staðið er þannig að viðurkenningunum að öllu starfsfólki og nemendum gefst kostur á að senda inn tilnefningar í gegnum rafræna gátt auk þess sem þrjár af starfsnefndum háskólaráðs, kennslumálanefnd, vísindanefnd og jafnréttisnefnd, senda inn tilnefningar. 

Þriggja manna valnefnd fer síðan yfir tilnefningarnar og velur einn úr hverjum hópi. Valnefndin er skipuð til þriggja ára í senn og eru nú í henni Ingileif Jónsdóttir, prófessor sem er formaður, Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus og fyrrverandi varaforseti háskólaráðs, sem er fulltrúi fyrrverandi starfsmanna í nefndinni, og Ásthildur Margrét Otharsdóttir, stjórnarformaður Frumtaks Ventures, fulltrúi í háskólaráði, en Ásthildur er jafnframt fulltrúi fyrrverandi nemenda í valnefndinni.

Handhafar viðurkenninganna ásamt rektors Háskóla Íslands. MYND/Kristinn Ingvarsson