Skip to main content

Þroskaþjálfafræði - Viðbótardiplóma

Þroskaþjálfafræði - Viðbótardiplóma

Menntavísindasvið

Þroskaþjálfafræði

Viðbótardiplóma – 30 einingar

Viðbótardiplóman er 30 eininga fræðilegt og starfstengt nám og er ætlað þeim sem lokið hafa BA-prófi í þroskaþjálfafræði og vilja styrkja sig í starfi. Þau sem ljúka viðbótardiplómunni með fyrstu einkunn geta fengið námið metið til MA-prófs í faginu.

Skipulag náms

X

Þroskaþjálfar í menntakerfinu (ÞRS103F)

Á námskeiðinu er fjallað um hlutverk þroskaþjálfa á ólíkum stigum og sviðum menntakerfis. Hugmyndafræðin um inngildandi menntun verður sett í samhengi við hugmyndir, lykilhugtök og faglegar áherslur  þroskaþjálfafræða. Sjónum er beint að  leiðtoga- og ráðgjafahlutverk þroskaþjálfa í íslensku menntakerfi, með áherslu á stuðning við virka og fulla þátttöku, teymisvinnu og þverfaglegt samstarf.

Fjallað verður um þróun og framkvæmd stoðþjónustu innan menntakerfis á Íslandi og stuðningshugtakið skoðað frá víðu sjónarhorni með því að líta til allra leiða og aðgerða sem auka hæfni menntastofna og samfélags til að mæta fjölbreytileikanum. Horft verður til þess hvernig hægt sé að virkja umhverfið til stuðnings og gera stuðninginn sjálfbæran.

X

Mannréttindi í heimi margbreytileikans (ÞRS101F)

Í þessu námskeiði verður fjallað um mannréttindi í víðu samhengi, með áherslu á margbreytileika mannlífsins og þróun inngildandi samfélaga. Mannréttindahugtakið verður skoðað í sögulegu samhengi og athygli vakin á stöðu mannréttinda í dag og þeim áskorunum sem við blasa. Þá verður kenninga- og siðfræðileg nálgun að baki mannréttindasáttmálum skoðuð og innbyrðis tenging þeirra. Sérstök áhersla verður lögð á Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Jafnframt verða kynntir og ræddir Mannréttindasáttmáli Sameinuðu þjóðanna, Barnasáttmálinn, Kvennasáttmálinn og Mannréttindasáttmáli Evrópu. Nemendur þjálfast í beitingu mannréttindasjónarhorns til að greina stöðu ólíkra minnihlutahópa, svo sem fatlaðs fólks og innflytjenda. Þá verður sjónum beint að aðgengi að réttindum fyrir jaðarhópa, einkum fatlaðs fólks, með tilliti til íslensks lagaramma.

X

Sjálfræði og kynverund (ÞRS102F)

Í námskeiðinu er fjallað um kenningar um aðstæðubundið sjálfræði og með hvaða hætti megi nota þær til að stuðla að auknu sjálfræði þeirra sem þurfa mikinn stuðning í daglegu lífi. Einnig er fjallað um hugtökin kyngervi og kynverund í samhengi við líf og reynslu fatlaðs fólks. Leitast verður við að fjalla um hugtakið sjálfræði út frá siðfræðilegum skilningi og í því skyni verður fjallað um kenningar femínista um hugtakið aðstæðubundið sjálfræði. Skoðaðar verða ýmsar hliðar sjálfræðis eins og til dæmis hvernig megi auka virðingu fyrir persónueinkennum, sjálfstæði, kynhlutverkum og kynverund. Sjónum er beint að því hvernig litið hefur verið á fatlað fólk sem eilíf börn, kynlaus eða með hömlulausa kynhvöt. Þessar mótsagnakenndu staðalmyndir hafa orðið til þess að fatlað fólk hefur takmarkað aðgengi að fullorðinshlutverkum. Í námskeiðinu er sjálfræðishugtakið tengt við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

X

Fjölskyldumiðaður snemmtækur stuðningur (ÞRS005M)

Í námskeiðinu er fjallað um þau fræðilegu sjónarhorn og kenningar sem fjölskyldumiðuð snemmtæk íhlutun byggist á. Áhersla námskeiðsins er á fötluð börn og fjölskyldur þeirra en hugmyndafræðin og aðferðafræðin sem kynnt er á þó við um við fleiri hópa. Nýjustu rannsóknir um snemmtæka fjölskyldumiðaða íhlutun verða kynntar og með áherslu á þverfaglega samvinnu. Horft er á börn og fjölskyldur á heildrænan hátt og áhersla lögð á hvernig unnið er út frá einstaklingsbundnum þörfum barnsins og fjölskyldu þess. Gerð einstaklings- og þjónustuáætlana, þverfagleg teymisvinna, tengilshlutverkið og eflandi samstarf við foreldra er í brennidepli.   

X

Valdeflandi leiðir í þjónustu (ÞRS207F)

Viðfangsefni námskeiðs eru valdeflandi leiðir og aðferðir í þjónustu við fólk með fjölþættar stuðningsþarfir. Fjallað er um hugmyndafræði og hagnýtingu leiðanna með áherslu á persónumiðaða starfshætti, sjálfræði, notendasamráð og fulla þátttöku í samfélagi og eigin lífi.

Námskeiðið undirbýr nemendur undir það hlutverk að vera ráðgjafi og samstarfsaðili notenda í velferðarkerfinu. Í því samhengi er sjónum beint að gerð einstaklingsbundinna þjónustuáætlana samkvæmt lögum nr. 38/2018 og hvernig hægt er að nýta valdeflandi samskiptaleiðir til að tryggja samráð við notanda um stuðningsþörf hans sem og markmið og útfærslu þjónustunnar.

Nemendur sækja námskeiðið samhliða námskeiðinu ÞRS205F Vettvangsnám: tengsl fags og fræða. Verkefni námskeiðsins eru vettvangstengd og felast annars vegar í því að halda fræðslu á vettvangsstað um valda leið eða aðferð og hins vegar að útfæra og nýta leið eða aðferð í samráði við notendur þjónustu og leiðbeinendur á vettvangsstað. Starfandi þroskaþjálfar sem eru skráð í 30e viðbótardiplómu eða meistaranám í þroskaþjálfafræðum geta unnið verkefnin á eigin vinnustað.

X

Árangursríkur stuðningur og hagnýting matstækja (ÞRS206F)

Í þessu námskeiði er fjallað um árangursríkan stuðning við félags- og tilfinningafærni (e. social-emotional learning) nemenda á ýmsum aldri, bæði í hópum og á einstaklingsgrundvelli, með áherslu á hlutverk þroskaþjálfa, inngildandi samfélag og mannréttindi. Fjallað verður á gagnrýninn hátt um styrk- og veikleika ýmissa aðferða í stuðningi við félags- og tilfinningafærni, með hliðsjón af stöðu rannsókna á þessu sviði. Einnig er fjallað um undirstöðuatriði matstækja, styrkleika og takmarkanir matstækja sem nýtt eru hérlendis, túlkun matsniðurstaðna og hagnýtingu þeirra í störfum þroskaþjálfa á vettvangi.

Nemendur sækja námskeiðið samhliða námskeiðinu ÞRS205F Vettvangsnám: tengsl fags og fræða. Áhersla á er að verkefni námskeiðsins séu vettvangstengd og hagnýt. Starfandi þroskaþjálfar sem eru skráðir í 30e viðbótardiplómu eða meistaranám í þroskaþjálfafræðum geta unnið verkefnin á eigin vinnustað.

X

Starfstengd leiðsögn og handleiðsla (ÞRS004M)

Námskeiðið skiptist í þrjá meginefnisþætti. Í fyrsta lagi umfjöllun um starfstengda leiðsögn í vettvangsnámi og við nýliða í starfi. Í öðru lagi umfjöllun um lykilþætti sem nýtast nemendum og fagfólki við að njóta leiðsagnar og handleiðslu við eigin fagþróun. Í þriðja lagi er fjallað um eðli og framkvæmd handleiðslu og þau líkön sem þar er gagnlegt að þekkja.   

Meginmarkmið námskeiðsins er að efla skilning nemenda á gildi þess að nýta og njóta lærdómssamfélags og stuðnings við eigin fagþróun undir leiðsögn á námsárum og sérhæfðri faghandleiðslu á öllum stigum starfsferils. Einnig öðlist nemendur dýpri skilning á tengslum streitu, starfsþreytu og starfsþrots og verndandi hlutverki starfstengdrar leiðsagnar og handleiðslu þar að lútandi. Á námskeiðinu fá nemendur í hendur verkfæri til aukinnar sjálfsþekkingar, verndar og viðbragðsfærni í starfi.  

X

Algild hönnun (ÞRS002M)

Námskeiðið er bæði fræðilegt og hagnýtt. Hugmyndafræði algildrar hönnunar verður rædd út frá sjónarhornum jafnréttis, fötlunarfræða og hönnunar. Skoðuð verða tengsl við aðstæðubundið sjálfræði, inngildandi menntun og heilsu. Sjónum verður beint að ólíkum leiðum til að ná markmiðum algildrar hönnunar og það skoðað í samhengi við hugtökin viðeigandi aðlögun og viðeigandi stuðningur.

Nemendur kynnast útfærslum og lausnum í anda algildrar hönnunar á ólíkum sviðum og fá tækifæri til að hanna umhverfi og móta algildar leiðir til þátttöku á völdu sviði.

Námskeiðið er skipulagt út frá hugmyndum algildrar hönnunar í námi. Lagt er upp með að nemendur öðlist þannig hagnýta þekkingu og færni í því að skipuleggja námsumhverfi, kennslu, fræðslu og upplýsingamiðlun á algildan hátt ásamt reynslu af því að læra í slíku námsumhverfi. 

X

Kynjajafnrétti í skólastarfi (KME101F)

Í námskeiðinu verður fjallað um kynjafræði og hvernig helstu hugtök þeirra, svo sem kyn, jafnrétti, kyngervi, kynhlutverk, samtvinnun, hinsegin fræði, kynímynd, staðalmyndir, kynbundið ofbeldi, kynfræðsla, karlmennska og kvenleiki, nýtast til að skilja og skipuleggja skólastarf. Þá verður kynnt löggjöf um kynjajafnrétti og kynjajafnréttisfræðslu og fjallað um tengsl kynjajafnréttis og annars jafnréttis, sbr. aðalnámskrá leik-, grunn- og framhaldsskóla. Sérstök áhersla er lögð á að nemendur í námskeiðinu geti greint námsumhverfi, aðferðir og námsefni frá kynjasjónarhorni. Einnig að þeir geti greint val leikja í leikskóla og í frímínútum og skólaíþróttum.

Nemendur þurfa að mæta í lok nóvember til að kynna lokaverkefni sitt í námskeiðinu.

Í námskeiðinu verður gengið verður út frá því grundvallarsjónarmiði sem kemur fram í aðalnámskrá leik-, grunn- og framhaldsskóla að menntun um jafnrétti kynjanna feli í sér gagnrýna skoðun á viðteknum hugmyndum í samfélaginu í því augnamiði að kennarar geti kennt börnum og ungmennum að greina þær aðstæður sem leiða til mismununar sumra og forréttinda annarra á forsendum kyns.

Námsmat mun felast í lestrardagbókum, hugtakakönnun og hagnýtum verkefnum tengdum skólastarfi á viðkomandi skólastigi. Skyldumæting er í kynningu lokaverkefnis. 

X

Innbyrðing kúgunar (ÞRS003M)

Kúgun minnihlutahópa er málefni sem félagsvísindi hafa skoðað töluvert síðustu áratugina en styttra er síðan farið var að rannsaka sálfræðileg áhrif kúgunar sem birtist oft í innbyrðingu kúgunarinnar. Í þessu námskeiði verða nemendum kynntar gagnrýnar kenningar sprottnar upp úr síð-nýlendu sálfræði. Farið verður bæði í það hvernig kúgun er innbyrt en einnig verður varpað ljósi á innbyrðingu kúgunar ákveðinna hópa, t.d. fatlaðra, innflytjenda og hinsegin fólks. Þekking samfélagsins á sálrænum áhrifum innbyrðingar þessara hópa er mikilvæg og þegar fagfólk starfar á vettvangi er þýðingarmikið bregðast rétt við birtingarmyndum innbyrðingar og reyna að draga úr neikvæðum áhrifum hennar eins og hægt er. 

Öll fög eru skyldufög nemaVValfagBBundið val er háð skilyrðum ENámskeiðið er ekki kennt á misserinuNámsleiðin í Kennsluskrá

Hafðu samband

Kennsluskrifstofa Menntavísindasviðs

1. hæð, Stakkahlíð – Enni
s. 525 5950 mvs@hi.is

Opið kl. 8.15 – 15.00 alla virka daga

Fylgstu með Menntavísindasviði

 Instagram   Youtube 
 Facebook

Stakkahlíð

Hjálplegt efni

Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.