Skip to main content

Doktorsvörn Láru Jóhannsdóttur

Doktorsvörn Láru Jóhannsdóttur - á vefsíðu Háskóla Íslands

Viðskiptafræðideild útskrifar fyrsta kvendoktorinn

Lára Jóhannsdóttir varði doktorsritgerð sína frá Viðskiptafræðideild 14. desember 2012 og er hún fyrsta konan til að ljúka doktorsprófi frá deildinni.
Þess má geta að árið 2004 varði Helga Kristjánsdóttir doktorsritgerð frá þáverandi Viðskipta- og hagfræðideild.
 
Doktorsvörn Láru fór fram í Öskju, Náttúrufræðahúsi Háskóla og Dr. Ingjaldur Hannibalsson, prófessor og deildarforseti Viðskiptafræðideildar, stjórnaði athöfninni. Andmælendur voru Dr. James P. Walsh, prófessor við University of Michigan og Dr. Mette Morsing, prófessor við Copenhagen Business School.
 
Doktorsritgerð Dr. Láru Jóhannsdóttur nefnist „Áhugi og framlag norrænna skaðatryggingafélag til lausna umhverfislegra vandamála“ og var aðalleiðbeinandi Dr. Snjólfur Ólafsson, prófessor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Meðleiðbeinandi var Dr. Brynhildur Davíðsdóttir, dósent í Umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands og með þeim í doktorsnefnd var Dr. Michael E. Goodsite, prófessor við Aarhus University.
 
Umhverfismál hafa í vaxandi mæli áhrif á rekstrarumhverfi fyrirtækja, bæði sem ógn og tækifæri. Vátryggingafélög hafa ekki farið varhluta af þessari þróun. Meðal þeirra vandamála sem þau glíma við eru afleiðingar veðurfarstjóna hvers konar, mengunarmál og ábyrgðartjón þeim tengt. Tækifærin eru t.d. á sviði vöruþróunar, tjóna- og forvarna og fjárfestinga.  Í þessari tilviksrannsókn (e. case study) var rætt við stjórnendur og sérfræðinga í stærstu vátryggingafélögunum á Álandseyjum, Færeyjum, Íslandi, Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð um aðgerðir félaganna á þessu sviði. Rannsóknin leiðir í ljós umtalsverðan mun á milli tilvikshópa, þ.e. vátryggingafélaga í eyjasamfélögunum og í meginlandsfélögunum sé horft til aðgerða/aðgerðaleysis, afstöðu til umhverfismála og þátta sem gerir þeim kleift eða hindrar þau í að takast á við umhverfisleg málefni.