Skip to main content

Vatnssamsætur veita upplýsingar um veður

Árný Erla Sveinbjörnsdóttir, vísindamaður við Raunvísindastofnun Háskólans

„Verkefnið er margþætt en í mínu tilfelli má segja að það skiptist í aðalatriðum í tvennt, annars vegar grunnvatns- og jarðhitarannsóknir og hins vegar rannsóknir á fornveðurfari með mælingum á djúpkjörnum úr ís frá Grænlandi,“ segir Árný Erla Sveinbjörnsdóttir, vísindamaður og sérfræðingur í jarðefnafræði, sem vinnur að verkefni sem nefnist „Stöðugar samsætur í vatni“.

Árný Erla Sveinbjörnsdóttir

„Verkefnið er margþætt en í mínu tilfelli má segja að það skiptist í aðalatriðum í tvennt, annars vegar grunnvatns- og jarðhitarannsóknir og hins vegar rannsóknir á fornveðurfari með mælingum á djúpkjörnum úr ís frá Grænlandi“

Árný Erla Sveinbjörnsdóttir

„Samsætur eru misþungar frumeindir sama frumefnis. Rannsóknum á stöðugum samsætum vatns er hægt að beita til að geta svarað margvíslegum rannsóknarspurningum,“ segir Árný og bætir við: „Þannig eru niðurstöður samsætumælinga á íslensku grunnvatni og úrkomu nýttar m.a. til að skýra uppruna jarðhitavatns, meta afstæðan aldur þess og meta kælingarferli í jarðhitageymum. Djúpkjarnar í jökulís frá Grænlandsjökli geyma einstakar upplýsingar um veðurfar og rannsóknir á samsætum íssins síðastliðin 40 ár hafa gerbreytt vitneskju okkar um veðurfar liðinna alda.“

Áhuga Árnýjar á þessu rannsóknasviði má rekja til doktorsnáms hennar fyrir um 30 árum. „Doktorsverkefnið mitt var á sviði jarðhita þar sem ég rannsakaði efnahvörf milli bergs og vatns, m.a. með tilliti til samsætna. Ég hafði því áhuga á að halda áfram samsæturannsóknum á því sviði,“ segir hún.

Árný réð sig árið 1986 til Raunvísindastofnunar sem þá hafði nýverið eignast svokallaðan massagreini þar sem bæði var hægt að mæla súrefnis- og vetnissamsætur. „Það lá einnig beint við, þegar ég kom inn í hið frjóa alþjóðlega rannsóknarumhverfi í kringum Sigfús J. Johnsen, sem stjórnaði uppsetningu hins nýja massagreinis, að taka þátt í borkjarnarannsóknunum á ísnum í Grænlandsjökli við hlið hans,“ rifjar hún upp.

Óhætt er að segja að rannsóknirnar hafi mikla þýðingu nú á tímum loftslagsbreytinga. „Aukin þekking á samsætum í vatnsgufu andrúmsloftsins, en um það fjallar nýjasta verkefnið sem ég vinn að nú, kemur til með að bæta reiknilíkön, sem annars vegar eru notuð til að meta fornveðurfar út frá samsætumælingum á ískjörnum og hins vegar spá fyrir um veðurfar og breytileika þess í framtíðinni. Gögn úr verkefninu munu auka skilning á vatnshringrás andrúmsloftsins og þar með auka þekkingu okkar á mögulegum öfgum í veðurfari,“ segir Árný.