Skip to main content

Smáríki leita skjóls

Baldur Þórhallsson, prófessor við Stjórnmálafræðideild

Við höfum verið að þróa kenningu sem fjallar um stöðu og hegðun smáríkja eins og norrænu ríkjanna í alþjóðasamfélaginu. Kenningar um samskipti ríkja eru oftast settar fram á grundvelli hagsmuna stórra ríkja. Þess vegna er mikilvægt að skoða sérstaklega stöðu smáríkja og smíða nýja kenningu sem er betur til þess fallin að skýra utanríkissamskipti þeirra. Þessi nýja kenning okkar gengur lengra en hefðbundnar kenningar og kveður á um að smáríki leiti sér skjóls hjá stærri ríkjum og alþjóðastofnunum.“

Þetta segir Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, um nýja kenningu sem tekst á við bandalagsmyndun smáríkja. Baldur er mörgum að góðu kunnur en hann er einn vinsælasti viðmælandi á fréttastofum landsins þegar kemur að því að túlka stjórnmál álfunnar og pólitíska landslagið hér heima. Baldur hefur sérhæft sig í Evrópufræðum og í tækifærum og áskorunum smáríkja í alþjóðasamfélaginu.
 

Baldur Þórhallsson

Smáríki eru eðli málsins samkvæmt berskjaldaðri fyrir utanaðkomandi ógnum og alþjóðlegum efnahagssveiflum.

Baldur Þórhallsson

Baldur segir afar mikilvægt fyrir smáríki að gera sér grein fyrir innbyggðum veikleikum sínum. Þannig geti þau gripið til ráðstafana til að draga úr þeim og blómstrað efnahagslega, pólitískt og menningarlega í samvinnu við stærri nágrannaríki og alþjóðastofnanir. Smáríkin hafa að sögn Baldurs fjölþætta sérstöðu og veikleika sem þrýsti á þau að leita sér skjóls.

„Smáríkin leita sér skjóls vegna innbyggðs vanmáttar og óstöðugleika alþjóðasamfélagsins. Þau græða enda hlutfallslega meira á alþjóðasamvinnu og þátttöku í alþjóðastofnunum en stór ríki þar sem reglur alþjóðastofnana binda hendur þeirra stærri. Smáríki eru eðli málsins samkvæmt berskjaldaðri fyrir utanaðkomandi ógnum og alþjóðlegum efnahagssveiflum. Þetta helgast m.a. af litlum heimamarkaði sem gerir smáríkin háð inn- og útflutningi. Þau þarfnast sérhæfingar til að verða samkeppnisfær á alþjóðamörkuðum og þau hafa þar að auki litla stjórnsýslu. Efnahagslegt skjól smáríkjanna getur þannig verið fólgið í aðgangi að stærra markaðssvæði, hagstæðum lánum eða fjárhagsaðstoð.“

Baldur segir að hernaðarlegt og diplómatískt skjól hjá stærri ríkjum og alþjóðastofnunum sé smáríkjunum mikilvægt auk þess sem þau leggi áherslu á að tryggja sér öflug félags- og menningarleg skjól. „Stór ríki veita smáríkjum t.d. menningar- og félagslegt skjól í formi frjáls flæðis fólks og hugmynda og með aðgangi að menntastofnunum og menningarstyrkjum.“ Baldur segir að leitin að skjólinu hafi ekki bara jákvæðar hliðar því hún geti falið í sér mikinn kostnað fyrir smáríkin. „Þess vegna er mikilvægt fyrir smáríkin að vega og meta kosti og galla þess að leita sér skjóls hjá stærri ríkjum og alþjóðastofnunum.“