Háskóli Íslands er aðili að Pan-European Seal áætlun Evrópsku einkaleyfastofunnar (EPO) og Hugverkastofu Evrópusambandsins (EUIPO). Markmið áætlunarinnar er að auka þekkingu á hugverkaréttindum meðal nemenda og starfsfólks háskóla í Evrópu og brúa þannig bilið á milli háskóla og atvinnulífsins þegar kemur að hagnýtingu og verndun hugverka. Háskólar sem eru hluti af áætluninni fá aðgang að kennsluefni og annars konar stuðning við kennslu og skipulagningu viðburða tengdum hugverkaréttindum. Með þátttöku fá nemendur Háskóla Íslands einnig tækifæri til að fara í launaða starfsþjálfun hjá EPO og EUIPO. Þar geta nemendur öðlast einstaka starfsreynslu hjá alþjóðastofnunum og alhliða fræðslu á hugverkaréttindum en auk þess fylgja starfsþjálfuninni ýmis konar fríðindi eins og tungumálanám. Nemendur á viðeigandi fræðisviðum geta sótt um starfsþjálfun til Háskólans sem útnefnir ákveðinn fjölda nemenda á hverju ári til EPO og EUIPO. EPO er önnur stærsta stofnun Evrópu með rúmlega 7 þúsund starfsmenn frá fleiri en 30 löndum. Höfuðstöðvar EPO eru í München en stofnunin er einnig með skrifstofur í Haag, Berlín, Vínarborg og Brussel. EUIPO er stærsta sjálfstæða undirstofnun Evrópusambandsins með um 1.200 starfsmenn og aðsetur í Alicante. Hugverkastofan á í miklu samstarfi við EPO og EUIPO fyrir Íslands hönd og átti milligöngu um samstarfa stofnananna við Háskóla Íslands við þátttöku í Pan-European Seal áætluninni. Umsókn um starfsþjálfun 2021 Hefur þú áhuga á að fara í launaða starfsþjálfun hjá alþjóðastofnun og fá alhliða fræðslu um hugverkaréttindi? Háskóli Íslands í samstarfi við Evrópsku einkaleyfastofuna (EPO) og Hugverkastofu Evrópusambandsins (EUIPO) auglýsir eftir umsóknum frá nemendum skólans í launaða starfsþjálfun. Starfsþjálfunin er í 12 mánuði frá miðjum september ár hvert og eru heildarlaunin 2000 Evrur á mánuði (að frádregnum 20% sem eru skattar og önnur gjöld). Til að sækja um starfsþjáfun þurfa nemendur að hafa: a) Lokið grunn- eða meistaranámi innan tveggja ára frá dagsetningu umsóknar, eða vera skráðir í doktorsnám. b) Lokið eftirfarandi rafrænum námskeiðum áður en starfsnám hjá EPO hefst: · Introduction to the European patent system (skilyrði fyrir alla) · Using CPC (skilyrði fyrir nemendur í verkfræði og raunvísindum) · The EPO as PCT authority (skilyrði fyrir alla) . Lokið rafrænu námskeiði fyrir innlögn umsóknar til EUIPO: · EUTM in a Nutshell, og/eða · RCD in a Nutshell . c) Þekkingu á einu af fimm vinnutungumálum EUIPO (enska, þýska, franska, ítalska eða spænska) eða einu af þremur vinnutungumálum EPO (enska, þýska eða franska) - að lágmarki stigi B1 samkvæmt sameiginlegum evrópskum viðmiðunarramma fyrir tungumál (Common European Framework of Reference for languages) d) Þegar um er að ræða umsókn um starfsþjálfun hjá EUIPO, má nemandi ekki hafa notið góðs af eða vera njóta góðs af hvers konar starfsnámi (launuðu eða ólaunuðu) og ekki hafa verið eða vera aðstoðarmaður þingmanns, samningsráðgjafa eða intra-muros rannsakanda, eða tímabundinn eða ráðinn fulltrúi, aðstoðarmaður eða starfsmaður hjá evrópskri stofnun. Umsókn til Háskóla Íslands Háskóli Íslands mun útnefna allt að fimm nemendur sem lokið hafa grunn- eða meistaranámi, eða eru í doktorsnámi í verkfræði, raunvísindum, lyfjafræði eða líftækni og fimm nemendur í viðskiptafræði, lögfræði, hagfræði, fjármálum, alþjóðatengslum eða samskiptum, sem fá tækifæri til að senda inn umsókn um starfsþjálfun til EPO. Hér má finna ítarlegar upplýsingar um ferlið hjá EPO, og þau tæknisvið sem þeir eru að leita eftir. Háskólinn mun einnig útnefna fimm nemendur sem lokið hafa námi í lögfræði, hugverkarétti, þekkingarstjórnun, stjórnmálafræði, alþjóðatengslum, málvísindum, hagfræði, viðskiptafræði, frumkvöðlafræði, upplýsingatækni (gagnagreining, upplýsingaöryggi, viðskiptagreining, hugbúnaðarverkfræði, þjónustulausnir), samskiptum, aðstöðustjórnun (t.d. verkfræði), og mannauðsstjórnun, sem fá tækifæri til að senda inn umsókn um starfsþjálfun til EUIPO. Hér má finna ítarlegar upplýsingar um ferlið hjá EUIPO. EPO og EUIPO taka ákvörðun um hvaða nemendum verður boðin starfsþjálfun. Í umsókn til Háskóla Íslands skal koma fram, auk almennra upplýsinga um umsækjanda: • hvort óskað sé eftir starfsþjálfun hjá EPO eða EUIPO og á hvaða sviði (ekki er heimilt að sækja um hjá báðum stofnunum), • námsferilsyfirlit á ensku, • stutt greinargerð um ástæður þess að nemandi sækir um starfsþjálfunina, og • staðfesting á að nemandi hafi lokið að lágmarki stigi B1, samkvæmt sameiginlegum evrópskum viðmiðunarramma fyrir tungumál (Common European Framework of Reference for languages), í viðeigandi tungumáli á stúdentsprófi (staðfesting frá þeim skóla sem nemandi lauk stúdentsprófi). Með umsókn þurfa að fylgja: • afrit af prófskírteini og • meðmælabréf Frestur til að sækja um starfsþjálfun til Háskóla Íslands er til 1. mars nk. Fyrir 8. mars sendir Háskóli Íslands EPO og EUIPO lista yfir útnefnda nemendur sem fá tækifæri til að sækja um starfsþjálfun til stofnananna. Þeir nemendur sem hljóta útnefningu Háskóla Íslands þurfa að sækja um til EPO eða EUIPO fyrir 31. mars nk. EPO og EUIPO fara yfir umsóknir og tilkynna um miðjan maí þeim nemendum sem boðið verður starfsþjálfun. Starfsþjálfunin er auglýst á Tengslatorgi. Frekari upplýsingar veitir Ólöf Vigdís Ragnarsdóttir; ovr@hi.is. Kynningarmyndbönd um starfsþjálfunina má finna á heimasíðum EPO og EUIPO. E Nemendur eru hvattir til að kynna sér möguleika á að sækja um Erasmus+ styrk vegna ferðakostnaðar og uppihalds. emailfacebooklinkedintwitter
Þarfnast þessi síða lagfæringar? Var efnið hjálplegt? Var efnið hjálplegt? * Já Nei Endilega láttu okkur vita hvað má betur fara * Viltu fá svar frá okkur? Viltu fá svar frá okkur? Netfang * Svo hægt sé að hafa samband við þig. Skjáskot Settu inn skjáskot hér ef þú telur þörf á.Skrár verða að vera minni en 2 MB.Leyfðar skráartegundir: gif jpg jpeg png. CAPTCHASía fyrir ruslpóst Hvaða stafir eru á myndinni? * Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.