Skip to main content

Um Hauk Erlendsson og hlut hans í ritun Hauksbókar

Um Hauk Erlendsson og hlut hans í ritun Hauksbókar - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
24. nóvember 2022 16:30 til 17:30
Hvar 

Lögberg

Stofa 101

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Guðvarður Már Gunnlaugsson, rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, flytur fyrirlestur á vegum Miðaldastofu sem nefnist „En þessa bók ritaði herra Haukur Erlendsson.“ Um Hauk Erlendsson og hlut hans í ritun Hauksbókar.

Fyrirlesturinn verður haldinn í stofu 101 í Lögbergi, fimmtudaginn 24. nóvember kl. 16:30. Fyrirlesturinn verður fluttur á íslensku og er öllum opinn. 

Um fyrirlesturinn

Handritin AM 371 4to, AM 544 4to og AM 675 4to voru sennilega skrifuð í upphafi 14du aldar og eru samtals 141 blað. Þau hafa verið kölluð einu nafni Hauksbók og eru kennd við Hauk Erlendsson riddara og lögmann. Ástæða er til að ætla að handritin hafi verið bundin í eina bók á fyrri öldum þótt bandið hafi líklega verið ónýtt á síðari hluta 17du aldar en þá hafa blöð úr henni tvístrast um landið — talið er að að minnsta kosti um 70 þeirra hafi glatast. Árni Magnússon taldi að hér væri um eina bók að ræða, en þegar Jón Ólafsson úr Grunnavík tók saman skrá yfir Árnasafn eftir lát hans hafði henni verið deilt á þrjá staði í safninu og fékk hver hlutur því sitt safnmark. Alls eru 15 rithendur á Hauksbók en ljóst er að einn skrifari hefur skrifað sýnu mest eða rúmlega 60%.

Hauksbók kom fram á sjónarsviðið á fyrri hluta 17du aldar og var þá þegar kennd við Hauk Erlendsson — sennilega vegna þess að nafn hans kom fram í henni. Líklegt er að menn á 17du og 18du öld hafi talið að aðalrithöndin væri Hauks. Um miðja 19du öld sýndi Peter Andreas Munch fram á að svo væri og að hann hefði skrifað tvö bréf að auki og hefur það verið haft fyrir satt síðan. Sama rithönd hefur einnig fundist á norsku landslagahandriti.

Í fyrirlestrinum verður fjallað um þessa rannsókn Munchs og niðurstaða hans véfengd. Í fyrsta lagi verður litið á rök hans og í öðru lagi verður reynt að meta hversu líklegt það er að riddari og lögmaður hafi setið löngum stundum við þá líkamlega iðju sem handritaskrif voru á miðöldum. Í þriðja lagi verður einnig athugað hversu ósennilegt það er að Haukur hafi haft sama skrifarann í þjónustu sinni í heilan áratug sem hafi skrifað fyrir hann bréf og handrit. Í Noregi voru líklega aðeins tíu lögmenn um aldamótin 1300 svo að lögmannsembætti hlýtur að hafa verið eftirsótt og að því leyti má bera stöðu þeirra saman við biskupa; líklegt er að aðeins örfáir menn í ríkinu hafi verið taldir lögmönnum æðri. Einnig verður litið á rannsóknir á bréfarithöndum í Noregi og á Íslandi. Í fyrirlestrinum verður ekki efast um að Haukur Erlendsson hafi látið gera Hauksbók og safnað eða látið safna efni til hennar, þótt það vafi gæti leikið á því að hann hafi sjálfur staðið langdvölum við skrifpúlt. 

Um fyrirlesarann 

Guðvarður Már Gunnlaugsson er rannsóknarprófessor á handritasviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Rannsóknir hans hafa einkum beinst að þróun skriftar á Íslandi, skrifurum, handritum og handritagerð en einnig íslenskri málsögu.

Guðvarður Már Gunnlaugsson

Um Hauk Erlendsson og hlut hans í ritun Hauksbókar