Kynningar á rannsóknarverkefnum þriggja doktorsnema í landfræði | Háskóli Íslands Skip to main content

Kynningar á rannsóknarverkefnum þriggja doktorsnema í landfræði

Kynningar á rannsóknarverkefnum þriggja doktorsnema í landfræði - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
19. maí 2021 14:00 til 16:00
Hvar 

Askja

N-132 og á Zoom

Nánar 
Fer fram á ensku
Öll velkomin

Land- og ferðamálafræðistofa býður til opins viðburðar þar sem þrír doktorsnemar í landfræði kynna rannsóknir sínar.

Kynningarnar fara fram miðvikudaginn 19. maí n.k. Kl. 14:00  í stofu N-132 í Öskju en verður einnig streymt á Zoom

Smellið hér til að opna streymi á Zoom

Dagskrá:

14:00 - 14:30 - Susanne Claudia Möckel
14:30 - 15:00 - Scott John Riddell
15:00 - 15:30 - Hlé
15:30 - 16:00 - Birna Lárusdóttir

Viðburður á Facebook

 

Nánar:

14:00 - 14:30 - Susanne Claudia Möckel

Titill: Áhrif eldfjalleinkenna jarðvegs á kolefni í mómýrum

Ágrip: Á Íslandi eru eldgos tíð og hér á sér stað umfangsmikið jarðvegsrof sem jókst verulega í kjölfar landnáms. Af þessum sökum berst mikið af vindbornum steinefnum í formi gjósku og þurrlendisjarðvegs inn í íslenskar mýrar. Afleiðingin er sú að mójörð (e. histosol, jarðvegur mómýra) ber nokkur einkenni eldfallajarðar (e. andosol). Lítið er vitað um hvaða áhrif vindborin steinefni hafa á eiginleika mómýra, sér í lagi hvað varðar kolefnisbúskap mýranna. Hér eru kynntar niðurstöður rannsóknar sem kannar áhrif gjóskufalls á mójörð, sérstaklega áhrif eldfjallaeinkenna jarðvegs á efnasamsetningu og stöðugleika kolefnis. Niðurbrot lífræns efnis í mójörð er minna þar sem  eldfjallaeinkenna gætir en í mójörð sem er án slíkra einkenna. Eldfjallaeinkenni jarðvegs virðast stuðla að myndun efnasambanda milli lífrænna efna og steinefna sem hamla niðurbroti á óstöðugu kolefni. Þá geta þykk gjóskulög í mýrum hamlað niðurbroti á kolefni í þeim jarðvegi sem þau liggja yfir. Eldfjallaeinkenni jarðvegs og þykk gjóskulög geta því stuðlað að auknum stöðugleika kolefnis og langtímauppsöfnun þess í lítt röskuðum mómýrum.

 

14:30 - 15:00 - Scott John Riddell

Titill: Klaustur og landnotkun á Íslandi á miðöldum: Umhverfisrannsóknir á Þingeyrum og tveimur klausturjörðum

Ágrip: Að frátöldum rannsóknum á handritum og ritmenningu miðalda, hafa áhrif klausturhalds á samfélag og náttúru á Íslandi á miðöldum notið lítillar athygli, þar til nýlega. Fornleifarannsóknir á s.l. 20 árum hafa leitt í ljós að klaustrin voru áhrifamikil í íslensku samfélagi og endurspegluðu evrópskar klausturhefðir hvað varðar byggingastíl og starfsemi (t.d. lækningar). Klaustrin voru einnig umsvifamiklir landeigendur, sér í lagi frá 14. öld. Í ljósi þess má færa rök að því að áhrif þeirra kunni að hafa náð til landnýtingar og umhverfis þeirra jarða sem þau eignuðust. Með fornvistfræðilegum aðferðum hefur þessi rannsókn sýnt fram á að stofnun Þingeyraklausturs birtist í nærumhverfi staðarins á þann hátt að kjarr vék fyrir mó- og graslendi. Rannsóknir nærri bæjarstæðum á tveimur jörðum (Ásbjarnarnesi og Helgadal) sem urðu klaustureignir sýna hins vegar litlar sem engar breytingar á umhverfi um þann tíma sem klaustrin eignuðust jarðirnar. Svo virðist sem eðli landnýtingar á bæjunum hafi verið fullmótað talsvert fyrr og að breytt eignarhald hafi ekki haft áhrif þar á. Ein ástæða þessa kann að vera að möguleikum til breyttrar landnotkunar á Íslandi eru settar þröngar skorður af loftslagi og í öðru lagi, í tilfelli Ásbjarnarness, hafi verið lögð áhersla á sjósókn umfram landbúnað.

 

15:30 - 16:00 - Birna Lárusdóttir

Titill: Örnefni og landslag í mótun: Saga örnefnarannsókna og Surtsey 

Ágrip: Helsta markmið rannsóknarinnar er að auka skilning á því hvernig örnefni verða til, hvernig þau endurspegla og hafa áhrif á heimsmynd okkar og varpa ljósi á menningarlegt vald yfir landfræðilegu rými og stöðum.

Verkefnið er tvískipt. Annars vegar er fjallað um sögu örnefnarannsókna og -söfnunar á Íslandi og kannað hvernig viðhorf til fyrirbærisins hafa þróast í samræmi við strauma og stefnur í fræðum og þjóðlífi. Hins vegar er gerð tilviksrannsókn á örnefnum í Surtsey, en hún varð til í eldgosi haustið 1963. Þar gefst fágætt tækifæri til að rannsaka örnefnamyndun í nýju landi frá upphafi í samhengi við samfélag og umhverfi. Í verkefninu er beitt aðferðum etnógrafíu og fyrirbærafræði ásamt heimspekilegum kenningum um mótun rýmisins og skoðað hvernig maðurinn setur mark sitt á landslagið, m.a. með nöfnum. 

Birna Lárusdóttir (t.v.), Scott John Riddell og Susanne Claudia Möckel

Kynningar á rannsóknarverkefnum doktorsnema í landfræði