Háskóladagurinn 2019 | Háskóli Íslands Skip to main content

Háskóladagurinn 2019

Hvenær 
2. mars 2019 12:00 til 16:00
Hvar 
Nánar 
Aðgangur ókeypis

Háskóli Íslands býður landsmönnum öllum í heimsókn á Háskóladaginn laugardaginn 2. mars milli klukkan 12 og 16. Í boði verða ótal viðburðir, kynningar og uppákomur sem sýna vísindi og nýsköpun í litríku og lifandi ljósi. Kjörið tækifæri til að koma og fræðast, upplifa og skemmta sér. Ekki missa af því þegar Háskólinn opnar dyr sínar upp á gátt.

400 námsleiðir í boði

Allir geta kynnt sér fjölbreytt námsframboð Háskóla Íslands en yfir 400 námsleiðir í grunn- og framhaldsnámi eru í boði við skólann. Komið og kynnið ykkur spennandi nám sem opnar leiðina út í atvinnulífið. Einnig fer fram kynning á margþættri og öflugri starfsemi og þjónustu Háskólans. Gestir geta skoðað rannsóknastofur, tæki, búnað og húsakynni.

Á staðnum verða vísindamenn, kennarar og nemendur úr öllum deildum Háskólans sem svara spurningum um allt milli himins og jarðar – eða því sem næst.

Allar námsleiðir kynntar á háskólasvæðinu Hér má sjá hvar allar námsleiðir eru kynntar á Háskóladaginn

Námskynningar á vegum einstakra fræðasviða Háskóla Íslands verða á eftirtöldum stöðum:

Fjör og fræði í einum fremsta háskóla heims

Dagskráin í Háskóla Íslands er mjög fjölskrúðug eins og alltaf.  Þú getur prófað handstyrkinn, reynt þig í stærðfræði með Legó, hlustað á marimbu tónlist, horft á risadreka liðast um Háskólasvæðið, upplifað jarðskjálfta í hermi, horft á Sprengjugengið, gætt þér á grillaðri pylsu sem eldfjallafræðingur snarar í brauðið fyrir þig, skapað með forritun, sest í kappaksturbíl Team Spark sem ekur fyrir endurnýjanlegri orku, tekið létt spor í japönskum dansi og þá er fátt eitt talið. 

Sprengjugengið með magnaða sýningu kl. 14 í Háskólabíói

Í Háskólabíói leiðir Sprengju-Kata hið landsfræga Sprengjugengi á svið þar sem lósagangurinn á sér enga hliðstæðu. Kata og félagar tæla fram undarlega liti í glösum og varpa furðulegum logum í loftið. Sprengjugengið stendur að sjálfsögðu undir nafni og endar herlegheitin með risa-bombu á heimsmælikvarða.  Sýningin er klukkan 14 og verður aðeins ein sýning. 

Vísindabíó verður á undan Sprengjugenginu en verðlaunaþátturinn Fjársjóður framtíðarverður sýndur í ofurskerpu þar sem fylgst er með jarðvísindamönnum Háskólans að störfum í funheitu Holuhrauni.  Háskóladansinn tekur líka létt spor. Ekki missa af vísindafjöri og fræðum á Háskóladeginum í Háskólabíói.  

Vísindasmiðjan í Háskólabíói opin milli kl. 13 og 15

Háskóli Íslands leggur áherslu á að glæða áhuga ungs fólks á vísindum og fræðum og leikur Vísindasmiðja Háskóla Íslands þar lykilhlutverk. Markmið smiðjunnar er að efla áhuga ungmenna á vísindum og fræðum með gagnvirkum og lifandi hætti og styðja þannig við kennslu. Hún mun svo sannarlega standa undir nafni á Háskóladaginn þar sem opið verður í öll undur og tæki sem smiðjan býður upp á. Stjörnu-Sævar mætir með alvöru "geimsteina" frá tunglinu og mars. 

Aðgangur er ókeypis á alla viðburði í opnu húsi Háskóla Íslands.

Spennandi dagskrá  

KL:    HÁSKÓLABÍÓ
13-15    Vísindasmiðjan opin
12:40    Vísindabíó - Verðlaunaþátturinn Fjársjóður framtíðar sýnir jarðvísindamenn í eldlínunni. 
13:45    Háskóladansinn 
14:00    Sprengjugengið 

KL:  HÁSKÓLATORG
12:00 Setning Háskóladagsins. Mennta- og menningarmálaráðherra, rektor Háskóla Íslands og Háskólakórinn
12-12.30  Handstyrksmælingar
13-13.30  Útileikir
13-14  Stærðfræðikennsla með Legó
14-15  Rými til sköpunar með forritun
Kynning frá 12-16 á öllu námi Félagsvísindasviðs, Menntavísindasviðs og Heilbrigðisvísindasviðs 

​KL:       ASKJA
12:00    Grillaðar pylsur 
12-14    Jarðskálftahermir 
12-16    Rafknúinn kappakstursbíll Team Spark
12-16    Framkallaðu þinn eigin jarðskjálfta
12-16    Framtíðarstarfið í myndakassanum
14:00    Hönnunarkeppni byggingarverkfræðinema 
Kynning frá kl. 12-16 á öllu námi Verkfræði- og náttúruvísindasviðs    

KL:    AÐALBYGGING
13:00    Háskólakórinn
13:15    Japanskur dans
13:30    Kínverskur dreki
13:45    Tai Chi 
14:30    Lindy Hop 
Kynning frá 12-16 á öllu námi Hugvísindasviðs    

Stúdentakjallarinn opinn frá 11 til 01

Brot af því besta

Í hinni glæsilegu Aðalbyggingu verður smekkfull dagskrá allan daginn þar sem meðal annars verður hægt að sjá kínverska drekann ógurlega og hlýða á marimbu tónlist. Þar verður einnig boðið upp á kínverska tai chi bardagalist, japanskan dans og lindy hop. Ómar Háskólakórsins munu njóta sín í Aðalbyggingu enda er hljómurinn undir silfurbergshvelfingunni í anddyri byggingarinnar einstakur.

Í Öskju verður jarðskjálftaborðið magnaða sem mun bæði hrista turna sem nemendur hafa smíðað og íbúð sem hver og einn getur innréttað að vild.  Svo er bara að sjá hvaða áhrif skjálftinn hefur á turna, íbúð og innanstokksmuni. Eldjfallafræðingar grilla pylsur eins og alltaf og rafknúinn kappakstursbíll Team Spark verður til sýnis og sumir af yngstu kynslóðinni gætu jafnvel laumað sér í ökumannssætið. Hægt verður að máta sig við framtíðarstarfið í myndakassanum og fylgjast með hönnunarkeppni byggingarverkfræðinema. 

Sprengjugengi Háskóla Íslands með sjálfa  Sprengju-Kötu í fararbroddi verður með kraftmikla og litríka sýningu í sal 1 í Háskólabíói kl. 14.  Háskóladansinn sýnir enn fremur listir sínar og boðið verður upp á Vísindabíó sem var verðlaunað í haust sem besta vísindamiðlun ársins 2018.  Auk þess er Vísindasmiðjan sívinsæla opin frá 13-15 í Háskólabíói. Þar getur öll fjölskyldan kynnt sér undur vísindanna með lifandi hætti enda er þar fléttað saman leik og ljóma vísindanna.

Á Háskólatorgi verður ýmislegt í boði s.s handstyrksmælingar íþrótta- og heilsufræðinema og útileikir með tómstunda-og félagsmálafræðinemum. Hægt verður að læra stærðfræði með Legó og prófa rými til sköpunar með forritun. 

Þá eru Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Hólum og Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri með námskynningu á 1. hæð Háskólatorgs. Endurmenntun Háskóla Íslands, Háskólinn á Bifröst og Listaháskóli Íslands verða þar einnig ásamt Keili sem kynnir sína landsþekktu háskólabrú. 

Á 2. hæð á Háskólatorgi eru einnig fulltrúar frá Náms- og starfsráðgjöf, Skrifstofu alþjóðasamskipta og Nemendaskrá. Á staðnum verða fulltrúar frá jafnréttisnefnd Háskóla Íslands, ráði um málefni fatlaðs fólks, Q – félagi hinsegin stúdenta, Femínistafélagi HÍ og jafnréttisnefnd Stúdentaráðs. Þá veita fulltrúar Félagsstofnunar stúdenta upplýsingar um Stúdentagarða, Leikskóla stúdenta og aðra þjónustu fyrir stúdenta.

Háskólinn í Reykjavík er með námskynningu í eigin húsakynnum við Öskjuhlíð og auk þess að vera á Háskóaltorgi kynnir Listaháskóli Íslands allar sínar námsleiðir í eigin húsakynnum á Laugarnesvegi.

Boðið er upp á ókeypis strætóferðir á milli skóla.

Frekari upplýsingar um Háskóladaginn eru á vef Háskóladagsins

Háskóladagurinn 2019 Fjölbreytt námsframboð Háskóla Íslands kynnt á háskólasvæðinu 2. mars 2019.

Háskóladagurinn 2019