Skip to main content

Fimm nýútkomin fræðirit um íslenskar fornbókmenntir

Fimm nýútkomin fræðirit um íslenskar fornbókmenntir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
10. nóvember 2017 12:00 til 13:00
Hvar 

Árnagarður

Stofa 301

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Samdrykkja í stofu 301 í Árnagarði 10. nóvember kl. 12.00-13.00

Ármann Jakobsson, prófessor í íslensku, Sif Ríkharðsdóttir prófessor í almennri bókmenntafræði, Sverrir Jakobsson prófessor í sagnfræði og Jón Karl Helgason prófessor í íslensku sem öðru máli kynna fimm nýjar bækur á sviði íslenskra miðaldabókmennta í Árnagarði 301  föstudaginn 10. nóvember kl. 12.00-13.00. Fundarstjóri er Torfi H. Tulinius. Gestum er velkomið að hafa með sér nesti og nærast á meðan á samdrykkjunni stendur.

Ármann mun kynna bók sína, The Troll Inside You: Paranormal Activity in  the Medieval North, sem út kom hjá Punctum síðastliðið sumar. Verkið fjallar um galdra og yfirnáttúru á miðöldum og hvernig þessi fyrirbæri voru römmuð inn í hugsuninni. Þar er litið til ýmissa samfélagslegra þátta, s.s. kynslóðamunar, kynferðis og stöðu erlendra manna á Íslandi miðalda. Bókin er byggð upp sem ritgerð en með allsjálfstæðum aftanmálsgreinum aftast fyrir fróðleiksþyrsta.

Sif mun kynna bók sína Emotions in Old Norse Literature. Translations, Voices, Contexts sem út kom hjá Boydell & Brewer nú í október. Verkið fjallar um miðlun tilfinninga í íslenskum fornbókmenntum, sérstaklega hvernig hið ljóðræna form opnar á möguleikann á tilfinningalegri tjáningu. Bókin tekur fyrir ýmsar tegundir fornbókmennta, frá eddukvæðum til Íslendingasagna og leitast við að sýna hvernig fornnorrænar bókmenntir sviðsetja tilfinningar ásamt því að kanna þær hefðir sem tengjast tilfinningalegri tjáningu og hugmyndum um tilfinningar og hegðun á miðöldum. Meðal annars er fjallað um hvernig tilfinningar eru framsettar í Brennu-Njáls sögu og Egils sögu, hvernig tilfinningalegri hegðun var miðlað í fornnorrænum þýðingum á frönsku riddarasagnahefðinni auk þess sem slíkar hefðir eru settar í samhengi við arf eddukvæða.

Sverrir mun kynna tvö nýútkomin greinasöfn, annars vegar The Routledge Research Companion to the Medieval Icelandic Sagas sem hann ritstýrir ásamt Ármanni Jakobssyni og hins vegar Sturla Þórðarson: Skald, Chieftain and Lawman sem hann ritstýrir ásamt Jóni Viðari Sigurðssyni. Fyrrnefnda verkið fjallar um íslenskar miðaldabókmenntir frá sögulegu og bókmenntalegu sjónarhorni. Annars vegar er vikið að því hvernig sögurnar varpa ljósi á íslenskt miðaldasamfélag og margar lykilhugmyndir sem einkenndu það. Hins vegar er fjallað um formleg einkenni sagnanna og vísindalegri umræðu þar um. Seinasta hálfa öldin hefur verið gróskumikil í fræðilegri umræðu um íslenskar miðaldabókmenntir. Í þessu riti fást 27 fræðimenn við rannsóknir á þessu sviði seinustu áratugina, vega og meta og draga fram helstu álitaefnin og einkenni umræðunnar. Höfundar greina eru sérfræðingar á ýmsum sviðum Íslandssögu og bókmennta. Í síðarnefnda verkinu fjallar hópur fræðimanna úr ýmsum greinum um Sturlu Þórðarson sagnaritara. Sturla er einn af fáum nafngreindum sagnariturum á Íslandi á 13. öld og einn sá kunnasti. Hann var einnig áhrifamikill þátttakandi í pólitískum átökum 13. aldar. Helstu verk Sturlu eru Íslendingasaga og Hákonar saga Hákonarsonar, en þau fjalla um pólitísk átök 13. aldar í Noregi og á Íslandi. Auk þessara rita er Sturlu eignuð ein gerð Landnámu og svokallaður Resensannáll var að öllum líkindum verk Sturlu. Þá mun Sturla hafa komið að gerð lögbókarinnar Járnsíðu, sem leidd var í lög hér á landi 1272, á meðan hann dvaldist í Noregi 1263–1271. Í bókinni er ævi Sturlu og ritstörf hans sett í fjölþætt og alþjóðlegt samhengi og hefur rit af þessu tagi ekki áður komið út.

Að síðustu mun Jón Karl kynna bók sína Echoes of Valhalla. The Afterlife of Eddas and Sagas sem út kom hjá Reaktion Books í aprílmánuði. Eins og titillinn gefur til kynna er fjallað hér um framhaldslíf íslenskra miðaldabókmennta en sjónum er einkum beint að teiknimyndasögum, kvikmyndum, ferðabókum, leikritum og tónlist. Meðal þeirra listamanna sem við sögu koma eru teiknararnir Jack Kirby og Peter Madsen, leikskáldin Henrik Ibsen and Gordon Bottomley, ferðabókahöfundarnir Frederick Metcalfe og Poul Vad, tónskáldin Richard Wagner og Edward Elgar, rokkararnir Jimmy Page og Robert Plant og kvikmyndaleikstjórarnir Roy William Neill og Richard Fleischer. Þá er einn kafli bókarinnar helgaður endurritaranum Snorra Sturlusyni.