Skip to main content

Eintal, samtal og óheilindi

Eintal, samtal og óheilindi - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
26. apríl 2019 16:30 til 17:30
Hvar 

Gimli

Stofa 102

Nánar 
Aðgangur ókeypis

(Athugið að fyrirlestrinum hefur verið frestað til kl. 16:30)

Í ár eru 130 ár liðin frá fæðingu Ludwig Wittgensteins. Af því tilefni mun Elmar Geir Unnsteinsson halda fyrirlestur á vegum Heimspekistofnunar föstudaginn 26. apríl, kl. 16.30 í Gimli 102.

Elmar Geir Unnsteinsson er sérfræðingur á Heimspekistofnun. Hann lauk doktorsprófi í heimspeki árið 2015 frá City University of New York í Bandaríkjunum. Rannsóknir hans snúast einkum um mál og merkingu og um þessar mundir stýrir hann þriggja ára Rannís verkefni á því sviði. Hann hefur m.a. birt tvær greinar um Wittgenstein í British Journal for the History of Philosophy: „Wittgenstein as a Gricean Intentionalist“ (2015) og „Wittgenstein’s influence on Austin’s philosophy of language“ (ásamt Daniel W. Harris, 2018).

Titill erindisins er Eintal, samtal og óheilindi. 

Ágrip

Að mínum dómi hafa flestar eða allar áhrifamestu kenningar heimspekinga um merkingu orðið fyrir einhverjum áhrifum frá heimspeki Ludwigs Wittgenstein. Þetta gildir jafnt um það sem ég kalla eintalskenningar og samtalskenningar. Eintalskenningar leggja áherslu á sterk tengsl máls og hugsunar. Samkvæmt þeim er tungumál beinlínis tæki til að hugsa og notkun setninga birtir því inntak hugsana okkar með beinum hætti. Samtalskenningar útskýra merkingu hins vegar með því að greina hlutverk tungumálsins í samskiptum fólks og þá verða tengsl máls og hugsunar óbein og talsvert flóknari. Í þessu erindi útskýri ég muninn á kenningunum tveimur og færi rök fyrir einni tegund af samtalskenningu. Í fyrsta lagi held ég því fram að margar tegundir eintals séu, í bókstaflegum skilningi, samtal sem mælandinn á við sjálfan sig. Í öðru lagi leiði ég að því rök að samtalskenningar varpi betur ljósi á óheilindi í máli en eintalskenningar.

  

Elmar Geir Unnsteinsson

Eintal, samtal og óheilindi