Skip to main content

Dr. John Lindow sæmdur heiðursdoktorsnafnbót í þjóðfræði

Dr. John Lindow sæmdur heiðursdoktorsnafnbót í þjóðfræði - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
14. maí 2018 14:00 til 15:30
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðarsalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands sæmir dr. John Lindow heiðursdoktorsnafnbót í þjóðfræði við hátíðlega athöfn í Hátíðarsal Háskóla Íslands mánudaginn 14. maí kl. 14.

Athöfnin fer fram á ensku. 

Léttar veitingar verða fram bornar að dagskrá lokinni.

John Lindow er prófessor emerítus við University of California, Berkeley, forseti Western States Folklore Society (fagfélags þjóðfræðinga á vesturströnd Bandaríkjanna) og fyrrverandi Fulbright prófessor í þjóðfræði við Háskóla Íslands (2000). Rannsóknir hans eru á sviði þjóðfræði og norrænna fræða, en hann lauk doktorsprófi á báðum sviðum frá Harvard háskóla árið 1972. Á nærri hálfrar aldar ferli hefur hann komið víða við í rannsóknum og fjöldi mikilvægra rita liggur eftir hann sem kennd eru í háskólum víða um heim. 

Á meðal bóka sem John Lindow hefur skrifað og ritstýrt má nefna: Trolls: An Unnatural History (2014), Norse Mythology: A Guide to the Gods, Heroes, Rituals, and Beliefs (2002), Medieval Folklore: A Guide to Myths, Legends, Tales, Beliefs, and Customs (með fleiri höfundum, 2000), Handbook of Norse Mythology (2001), Murder and Vengeance among the Gods: Baldr in Scandinavian Mythology (2007), Scandinavian Mythology: An Annotated Bibliography (1998), Structure and Meaning in Old Norse Literature: New Approaches to Textual Analysis and Literary Criticism (1986), Old Norse-Icelandic Literature: A Critical Guide (með fleiri höfundum, 1985, 2005) og Swedish Legends and Folktales (1978). Þarna á meðal er að finna nokkrar helstu handbækur á sviði norrænna goðsagna, þjóðsagna og fornnorrænna fræða. Þá hefur hann birt hátt á annað hundrað vísindagreinar um rannsóknir sínar í fagtímaritum og bókum hjá virtustu akademísku forlögum í heimi.

Síðar á þessu ári er væntanlegt fjögurra binda verk sem John Lindow ritstýrir og skrifar (ásamt fleirum) sem væntingar standa til að verði helsta yfirlitsritið um norræna trú næstu ár og áratugi: Pre-Christian Religions of the North: History and Structures. Þá er einnig væntanleg á næsta ári kennslubók hans fyrir háskóla um norrænar goðsögur, sem verður önnur bókin í nýrri ritröð Oxford University Press um goðsögur mannkyns.

Auk þess sem hann hefur kennt þjóðfræði og fornnorræn fræði við Kaliforníuháskólann í Berkeley til margra áratuga hefur John Lindow verið lengi í virku samstarfi við kennara við Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands, nánar tiltekið í námsbraut í þjóðfræði og safnafræði. Hann kenndi tvö námskeið við Félagsvísindadeild sem Fulbright prófessor árið 2000 við miklar vinsældir og hefur síðan reglulega tekið að sér prófdæmingu MA ritgerða við námsbrautina. Þá kom hann á nemendaskiptasamningi milli Háskóla Íslands og Kaliforníuháskólans í Berkeley árið 2002, sem fjölmargir íslenskir háskólanemar hafa notið góðs af. Hann hefur með verkum sínum og kennslu í meira en 40 ár við einn virtasta háskóla heims kynnt íslenska menningu og mál fyrir gríðarlegum fjölda bandarískra háskólanema.

Að öllu þessu töldu er því sérstakur heiður að því fyrir Háskóla Íslands að veita John Lindow heiðurdoktorsnafnbót í þjóðfræði.

Dr. John Lindow

Dr. John Lindow sæmdur heiðursdoktorsnafnbót í þjóðfræði