Skip to main content

Doktorsvörn í menntavísindum: Sigríður Margrét Sigurðardóttir

Doktorsvörn í menntavísindum: Sigríður Margrét Sigurðardóttir  - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
8. júní 2023 13:00 til 16:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðarsalur Háskóla Íslands

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Sigríður Margrét Sigurðardóttir ver doktorsritgerð sína í menntavísindum við Deild kennslu- og menntunarfræði við Háskóla Íslands:

Vörnin fer fram fimmtudaginn 8. júní kl. 13.00 í Hátíðarsal Háskóla Íslands og verður einnig streymt hér

Heiti ritgerðar: Menntaforysta á sveitarstjórnarstigi á Íslandi:

Hvað mótar hana, hvað einkennir hana og hvaða gildi hún hefur fyrir skólastarf

Andmælendur: Dr. Karen Seashore Louis regents professor emerita við University of Minnesota í Bandaríkjunum og dr. Pia Skott senior lecturer við Stockholm University í Svíþjóð.

Aðalleiðbeinandi: Dr. Anna Kristín Sigurðardóttir prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og meðleiðbeinandi dr. Börkur Hansen, prófessor við prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Auk þeirra sat í doktorsnefnd dr. Rúnar Sigþórsson, prófessor emeritus við Háskólann á Akureyri.

 Dr. Kristín Jónsdóttir forseti Deildar kennslu- og menntunarfræða stjórnar athöfninni.

Um verkefnið

Viðfangsefni doktorsrannsóknarinnar er menntaforysta á sveitarstjórnarstigi á Íslandi. Í fyrsta lagi miðar rannsóknin að því að varpa ljósi á hvernig menntaforysta mótast af stefnu og stjórnsýslu ríkis, sveitarfélaga, skóla og alþjóðlegu samhengi. Í öðru lagi að því að skilja hvað einkennir menntaforystu á sveitarstjórnunarstigi; hvernig aðstæður í sveitarfélaginu hafa áhrif og hvernig hún samræmist lagalegum skyldum þeirra. Í þriðja lagi hvernig forysta sveitarfélaga hefur áhrif á skólastarf, sér í lagi á getu þeirra til að eflast sem faglegar stofnanir. Sérstaklega er rýnt í forystu sveitarfélaga út frá því hvernig þau standa að rekstri skólaþjónustu.

Litið var á menntaforystu á sveitarstjórnunarstigi sem tilvik. Blönduðum aðferðum var beitt við öflun gagna og úrvinnslu. Gögn voru meðal annars löggjöf, stefnuskjöl, vefsíður sveitarfélaga um skólaþjónustu, spurningakönnun og viðtöl. Tilviksrannsókninni var skipt í fjórar rannsóknareiningar. Mismunandi rannsóknaraðferðum var beitt í hverri einingu: skjalagreiningu, innihaldsgreiningu, spurningakönnun og tilviksrannsókn með þverskurði. Í hverri einingu fyrir sig var leitað svara við spurningum sem tengjast markmiðum rannsóknarinnar. Afraksturinn liggur fyrir í bókarkafla, tveimur tímaritsgreinum og drögum að grein.

Rannsóknin er fræðilegt og hagnýtt innlegg í áframhaldandi umræðu um skólamál á Íslandi og hvernig sveitarstjórnunarstigið – og ríkið – leggja sitt af mörkum hvað varðar samfellu í stefnumótun, stjórnsýslu og menntaforystu. Helstu niðurstöður sýna að alþjóðleg áhrif hafa sett mark sitt á forystu ríkis og sveitarfélaga. Pólitískur óstöðugleiki, skortur á samræmi í stefnumótun og stjórnsýslu og skortur á stuðningi og forystuhæfni ríkis hafa haft áhrif á mótun menntaforystu á sveitarstjórnarstigi á Íslandi. Sveitarfélögum virðist almennt ekki hafa tekist að þróa menntaforystu sína á skilvirkan hátt og hún stjórnast fremur af því fólki sem ræðst til starfa en af stefnumörkun um menntamál. Sérstaklega þarf að huga að því að efla mannauð á sveitarstjórnarstigi, því meira sem sveitarfélögin eru fjær höfuðborgarsvæðinu. Svo virðist sem takmörkuð forystuhæfni bæði á landsvísu og á sveitarstjórnunarstigi grafi undan getu skóla til að þróast sem faglegar stofnanir og veita sem besta menntun. Niðurstöður benda  til þess að bæði ríki og sveitarfélög þurfi að axla meiri ábyrgð á stjórnsýslu menntamála og menntaforystu og vinna betur saman í þeim efnum.

 Um doktorsefnið:

Sigríður Margrét Sigurðardóttir fæddist á Akureyri árið 1973. Hún lauk kennaraprófi frá Det Nødvendige Seminarium í Danmörku 1998 og MEd. gráðu í menntavísundum með áherslu á stjórnun og forystu frá Háskólanum á Akureyri 2010. Sigríður Margrét er lektor við Kennaradeild Háskólans á Akureyri og hefur starfað þar síðan 2009. Áður var hún grunnskólakennari og skólastjóri. Foreldrar Sigríðar Margrétar eru Guðrún Jónína Eiríksdóttir og Sigurður Hólmgrímsson (d. 2013). Sambýlismaður Sigríðar Margrétar er Steven Allard Bos. Börn þeirra eru Lara, Roman Darri, Rafael, Elías og Sunna og barnabarn er Ibrahim Elí.

 Öll velkomin

Sigríður Margrét Sigurðardóttir ver doktorsritgerð sína í menntavísindum við Deild kennslu- og menntunarfræði við Háskóla Íslands: Educational leadership at the municipal level in Iceland: What shapes it, its characteristics and what it means for school practices  Menntaforysta á sveitarstjórnarstigi á Íslandi: Hvað mótar hana, hvað einkennir hana og hvaða gildi hún hefur fyrir skólastarf  Vörnin fer fram fimmtudaginn 8. júní kl. 13:00 í Hátíðarsal Háskóla Íslands.

Doktorsvörn í menntavísindum: Sigríður Margrét Sigurðardóttir