Skip to main content

Doktorsvörn í menntavísindum: Kolfinna Jóhannesdóttir

Doktorsvörn í menntavísindum: Kolfinna Jóhannesdóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
12. október 2023 13:00 til 16:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðarsalur Háskóla Íslands

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Kolfinna Jóhannesdóttir ver doktorsritgerð sína í menntavísindum við Deild kennslu- og menntunarfræði við Háskóla Íslands og verður einnig streymt

Hlekkur á streymi hér

Vörnin fer fram fimmtudaginn 12. október kl. 13 í Hátíðarsal Háskóla Íslands.

Heiti ritgerðar: Stefna um sjálfstæði skóla yfir þróun námskrár: Tilviksrannsókn í fjórum framhaldsskólum á Íslandi.

Andmælendur: Dr. Gita Steiner-Khamsi og dr. GunnlaugurMagnússon.

Aðalleiðbeinandi: Dr. Anna Kristín Sigurðardóttir prófessor viðMenntavísindasvið Háskóla Íslands

Meðleiðbeinandi: Dr. AndrewTownsend prófessor við Háskólann í Nottingham.

Doktorsnefnd: Auk þeirra sátu í doktorsnefnd dr. Jón Torfi Jónasson prófessor emeritusvið Menntavísindasvið Háskóla Íslands

Stjórnandi athafnar: Karen Rut Gísladóttir prófessor við Deild kennslu- og menntunarfræði stjórnar athöfn.

Verið öll velkomin.

--

Um  verkefnið:

Í þessari rannsókn er sjónum beint að stefnu um aukið sjálfstæði framhaldsskóla á Íslandi yfir þróun námskrár. Meginrökin fyrir setningu stefnunnar árið 2008 voru aukin þörf fyrir fjölbreytt nám vegna samfélagslegra breytinga og vaxandi fjöldi nemenda sem fer í framhaldsskóla eftir að hafa lokið grunnskóla. Markmið rannsóknarinnar er að auka skilning á því hvernig þessi stefna hefur verið skilin og framkvæmd af hagsmunaðilum skóla og hverju hún er talin hafa áorkað fyrir nemendur. Tilviksrannsókn í fjórum framhaldsskólum var hönnuð til að rannsaka áhrif stefnunnar bæði með hliðsjón af aðstæðum hvers skóla og með samanburði milli skóla. Tvær meginuppsprettur gagna eru notaðar: viðtöl sem frumheimildir og ritaðar heimildir til að lýsa skólum og aðstæðum þeirra og styðja við gögn úr viðtölum. Skólarnir voru heimsóttir árið 2018 og viðtöl tekin við stjórnendur, kennara, foreldra og nemendur.

Rannsóknin sýnir hvernig samspil margvíslegra aðstæðubundinna þátta hafði áhrif á hvernig skólarnir skynjuðu svigrúm sitt og getu til að nýta stefnuna til að gera breytingar. Í þessu samhengi höfðu einkum áhrif skiptar faglegar skoðanir, fjárhagslegar áskoranir og hindranir og val nemenda. Niðurstöður sýna misræmi milli væntinga stjórnenda og kennara til stefnunnar og þess sem þeir upplifðu þegar kom að framkvæmd stefnunnar í staðbundnu samhengi. Þetta tengdist að miklu leyti áhrifum frá öðrum stefnuáherslum sem voru í gangi á sama tíma, einkum styttingu á námstíma til stúdentsprófs, auknu skrifræði og flóknari stjórnsýslu. Framkvæmd stefnunnar framkallaði áskoranir í starfi leiðtoga skóla sem stjórnendur breytinga, sérstaklega í tengslum við áhrif stefnunnar á starfsöryggi kennara. Með hliðsjón af yfirlýstum markmiðum stefnunnar og hverju hún hefur áorkað fyrir nemendur þá eru vísbendingar um að fjölbreytni náms hafi aukist en að áhrifin séu mismunandi milli skóla og milli námsgreina, sem dregur fram mikilvægi þess að skilja áhrifin í tengslum við sérstakar aðstæður hvers skóla. Þrátt fyrir að nemendur hafi greint frá því að aukinn sveigjanleiki og áhersla á símat í stað lokaprófa hafi leitt til þess að námið henti þörfum þeirra betur, þá finnast enn hindranir fyrir jöfnu aðgengi að námi sem tengjast árangri í bóknámi og landfræðilegum og lýðfræðilegum takmörkunum. Í tengslum við niðurstöður rannsóknar eru lagðar fram tillögur er varða þróun á stefnunni. Jafnframt er dregin sú ályktun að frekari aðgerða sé þörf ef stefnan um sjálfstæði skóla og skólaval eigi að geta virkað saman á árangursríkan hátt með hliðsjón af staðbundnum aðstæðum á Íslandi.

Um doktorsefnið

Kolfinna Jóhannesdóttir er með B.S.- gráðu í viðskiptafræði og M.A.- gráðu í hagnýtum hagvísindum frá Háskólanum á Bifröst. Hún er með kennsluréttindi á framhaldsskólastigi frá Háskólanum í Reykjavík og lauk framhaldsnámi í menntaforystu og stjórnun frá Háskólanum í Nottingham árið 2014. Kolfinna var aðjúnkt við Landbúnaðarháskóla Íslands 2010-2011, skólameistari Menntaskóla Borgarfjarðar 2011-2014 og sveitarstjóri Borgarbyggðar 2014-2016. Hún hóf störf hjá Menntamálastofnun árið 2016 og starfaði þar fyrst sem sérfræðingur og teymisstjóri framhaldsskólamála og síðan sem sviðstjóri greiningarsviðs frá 2018-2022. Hún var skipuð skólameistari Kvennaskólans í Reykjavík haustið 2022. Kolfinna hóf doktorsnám í menntavísindum haustið 2016 við Háskólann í Nottingham en færði síðan námið til Háskóla Íslands vorið 2020.

.

Doktorsvörn í menntavísindum: Kolfinna Jóhannesdóttir