Skip to main content

Doktorsvörn í læknavísindum - Þórir Einarsson Long

Doktorsvörn í læknavísindum - Þórir Einarsson Long - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
20. desember 2019 13:00 til 16:00
Hvar 
Nánar 
Aðgangur ókeypis

Föstudaginn 20. desember ver Þórir Einarsson Long doktorsritgerð sína í læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Bráður nýrnaskaði – Nýgengi, áhættuþættir, endurheimt nýrnastarfsemi og lifun. Acute Kidney Injury – Incidence, risk factors, renal recovery and outcome.

Andmælendur eru Kenneth Christopher, lektor við Brigham and Women´s Hospital, Harvard-háskóla, og dr. Gunnar Tómasson, lektor við Læknadeild Háskóla Íslands.

Umsjónarkennari var Gísli H. Sigurðsson, prófessor, og leiðbeinandi Ólafur Skúli Indriðason, sérfræðingur. Meðleiðbeinandi var Martin Ingi Sigurðsson, prófessor. Aðrir í doktorsnefnd voru Runólfur Pálsson, prófessor, og Tómas Guðbjartsson, prófessor.

Engilbert Sigurðsson, prófessor og forseti Læknadeildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 13:00.

Ágrip af rannsókn

Bráður nýrnaskaði (BNS) er algengt vandamál bæði innan og utan sjúkrahúsa og tengist hærri tíðni fylgikvilla og dánartíðni. Langvinnur nýrnasjúkdómur (LNS) er áhættuþáttur fyrir BNS sem jafnframt er áhættuþáttur fyrir þróun á LNS og versnun á sjúkdómnum. Endurheimt fyrri nýrnastarfsemi eftir BNS er talinn sjálfstæður áhrifaþáttur fyrir horfur sjúklingsins en ekki hefur náðst samstaða um skilgreiningu á endurheimt fyrri nýrnastarfsemi eftir BNS. Í dag er væg hækkun á kreatíníni í sermi (SKr) um 26,5 μmól/L innan 48 klukkustunda hluti af greiningarskilmerkjum BNS en hins vegar er lítið vitað um einkenni og afdrif þess hóps sem greinist með BNS einungis vegna þessa hluta skilmerkjanna.

Verkefnið skiptist í fjóra hluta. Í fyrsta hlutanum var markmiðið að kanna nýgengi BNS á sjúkrahúsi á 20 ára tímabili, meta endurheimt nýrnastarfsemi í kjölfar BNS og tengsl hans við langtímalifun. Nýgengi BNS á sjúkrahúsi var að meðaltali 25,8 per 1000 innlagnir/ári og jókst marktækt á rannsóknartímabilinu. BNS á sjúkrahúsi tengdist verri eins árs lifun sem var í öfugu sambandi við alvarleikastig BNS. Lifun sjúklinga með BNS batnaði á tímabilinu. Annar hluti verkefnisins sneri að því að kanna nýgengi og áhættuþætti fyrir BNS í kjölfar kviðarholsskurðaðgerða og meta tengsl við skammtímalifun. Tíðni BNS var 6,8% í kjölfar kviðarholsskurðagerða. Sjálfstæðir áhættuþættir voru hækkandi aldur, karlkyn, undirliggjandi LNS, há ASA-flokkun og ef aðgerðin var enduraðgerð. BNS tengdist lengri legutíma, hærri tíðni skammtímafylgikvilla og verri 30 daga lifun. Þriðji hluti verkefnisins bar saman mismunandi skilgreiningar á endurheimt fyrri nýrnastarfsemi í kjölfar BNS eftir skurðaðgerð með tilliti til tengsla við langtímalifun, þróunar og framgangs á LNS. Þegar endurheimt á fyrri nýrnastarfsemi <1,5 x grunngildi SKr innan 30 daga náðist ekki var eins árs lifun síðri og að ná ekki endurheimt fyrri nýrnastarfsemi <1,25 x grunngildi SKr var tengt þróun og versnun á undirliggjandi LNS. Fjórði hlutinn skoðaði einkenni þess hóps sem fær vægan BNS á stigi 1 og kannaði hvort tengsl séu við langtímalifun, þróun eða framgang LNS. Þriðjungur allra sjúklinga sem fengu BNS í kjölfar skurðaðgerðar fengu vægan BNS af stigi 1, en hann tengdist bæði þróun á LNS og versnun á undirliggjandi LNS en engin tengsl voru við eins árs lifun.

Verkefnið undirstrikar að BNS er algengt vandamál, bæði í almennu sjúkrahúsþýði og í kjölfar skurðaðgerða. Það eru sjálfstæðir áhættuþættir fyrir BNS í kjölfar kviðarholsaðgerða sem auðveldlega er hægt að meta fyrir aðgerð og nýta við áhættumat sjúklinga. BNS tengist verri skammtíma- og langtímalifun og þróun á LNS og versnun á undirliggjandi LNS. Að ná ekki endurheimt á fyrri nýrnastarfsemi er tengt verri eins árs lifun, þróun og versnun á LNS.

 

Um doktorsefnið

Þórir Einarsson Long er fæddur árið 1989 í Reykjavík. Hann lauk stúdentsprófi af Náttúrufræðabraut frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 2009. Hann lauk bakkalárgráðu í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 2012 og embættisprófi í læknisfræði frá sama skóla þremur árum síðar. Að loknu kandídatsári hóf hann sérnám í almennum lyflækningum við Landspítala þar sem hann starfar nú. Þórir hefur stundað rannsóknarvinnu samhliða námi og starfi sem læknir frá 2012 og hlotið ýmsa styrki og viðurkenningar, var meðal annars valinn ungur vísindamaður Landspítala 2019. Foreldrar Þóris eru Salína Helgadóttir og Einar Long. Maki Þóris er Lilja Björk Runólfsdóttir, grafískur hönnuður.

Þórir Einarsson Long ver doktorsritgerð sína í læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands föstudaginn 20. desember kl. 13:00.

Doktorsvörn í læknavísindum - Þórir Einarsson Long