Doktorsvörn í læknavísindum - Helgi Kristinn Björnsson | Háskóli Íslands Skip to main content

Doktorsvörn í læknavísindum - Helgi Kristinn Björnsson

Doktorsvörn í læknavísindum - Helgi Kristinn Björnsson - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
16. apríl 2021 13:00 til 16:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Föstudaginn 16. apríl ver Helgi Kristinn Björnsson doktorsritgerð sína í læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Lifrarskaði af völdum lyfja: Faraldsfræði, áhætta af völdum tiltekinna lyfja og gagnsemi sterameðferðar við lyfjaorsakaðri lifrarbólgu. Drug-induced liver injury: Epidemiology, studies of quantitative risk and the role of corticosteroid treatment in drug-induced autoimmune hepatitis.

Andmælendur eru dr. Fernando Bessone, prófessor við Háskólann í Rosario í Argentínu, og Helga Eyjólfsdóttir, öldrunarlæknir við Landspítala-háskólasjúkrahús.

Umsjónarkennari og leiðbeinandi var dr. Einar Stefán Björnsson. Auk hans sátu í doktorsnefnd dr. Ásgerður Sverrisdóttir, sérfræðingur, dr. Gerður Gröndal, sérfræðingur, og dr. Raul J. Andrade.

Engilbert Sigurðsson, prófessor og deildarforseti Læknadeildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 13.00.

Fjöldatakmörkun: Einungis 30 manns geta verið í salnum á meðan á doktorsvörninni stendur. Vörninni verður streymt: 

https://livestream.com/hi/doktorsvornhelgikristinnbjornsson

Ágrip

Lifrarskaði af völdum lyfja (e. drug-induced liver injury: DILI) er sjaldgæf aukaverkun fjölmargra lyfja og getur valdið allt frá einkennalausum hækkunum lifrarprófa til lifrarbilunar og dauða. Í doktorsverkefninu er leitast við að meta nýgengi DILI í almennu þýði á Íslandi, finna helstu orsakavalda og reikna út hlutfall þeirra sjúklinga sem fá lifrarskaða af tilteknum lyfjum. Einnig er kannað mikilvægi DILI sem orsakavalds hjá sjúklingum með verulegar hækkanir á lifrarprófum auk þess sem áhætta á DILI er könnuð í sjúklingum á blóðþynningarlyfjum og krabbameinslyfjum. Enn fremur er rannsakaður lifrarskaði af völdum líftæknilyfsins infliximab og ávinningur af sterameðferð í þeim sjúklingahópi metinn. Nýgengi DILI á Íslandi var 19.1 á hver 100.000 persónuár. Lyf voru orsök lifrarskaða í 84% tilfella en náttúru- og fæðubótarefni í 16% tilfella. Algengustu orsakavaldar DILI voru amoxicillín-klavúlansýra (21 af 96; 22%), díklófenak (6%), azathioprine (4%), infliximab (4%) og nitrofurantoin (4%). DILI greindist hjá 1/133 sjúklingum á azathioprine, 1/148 á infliximab og 1/2350 á amoxicillin-klavúlansýru. DILI reyndist 4. algengasta orsök ALT yfir 500 U/L. Eingöngu 3 tilfelli af lifrarskaða af völdum blóðþynningarlyfja fundust á árunum 2008-2017. Af 4956 sjúklingum sem greindust með algeng krabbamein á árunum 2007-2018 fundust eingöngu 10 tilfelli af mögulegum lifrarskaða af völdum krabbameinslyfja, en þar var algengasti orsakavaldurinn pazopanib sem olli lifrarskaða í 11% af sjúklingum sem meðhöndlaðir voru með lyfinu. Um helmingur sjúklinga með lifrarskaða af völdum infliximab fengu sterameðferð og voru vísbendingar um að sú meðferð flýtti fyrir bata.

Verkefnið undirstrikar að lyf eru mikilvæg orsök lifrarskaða í almennu þýði. Áhættan af lifrarskaða af völdum blóðþynningarlyfja og krabbameinslyfja reyndist vera lág. Sterameðferð virtist hraða bata í sjúklingum með lifrarskaða af völdum infliximab, en frekari rannsóknir þarf til að staðfesta orsakasamhengi.

English abstract

Idiosyncratic drug-induced liver injury (DILI) is a rare adverse event of most drugs, which can lead to acute liver failure and death. The project focused on the epidemiology of DILI in Iceland, the risk of liver injury in users of oral anticoagulants and cancer medications, in addition to the effect of corticosteroid treatment in infliximab-induced liver injury. Incidence of DILI in Iceland was 19.1 per 100,000 person years. The most common causative agents were amoxicillin-clavulanate (21 of 96; 22%), diclofenac (6%), azathioprine (4%), infliximab (4%) and nitrofurantoin (4%). DILI was diagnosed in 1 in 133 patients treated with azathioprine, 1 in 148 on infliximab and 1 in 2350 patients taking amoxicillin-clavulanate. DILI was the fourth most common cause of severe elevations of liver enzymes. DILI was rare in users of oral anticoagulants and patients diagnosed with common types of cancer. Corticosteroid treatment appeared to hasten the recovery of liver injury in patients with infliximab-DILI.

Um doktorsefnið

Helgi Kristinn Björnsson er fæddur í Reykjavík þann 27. janúar 1989. Hann lauk stúdentsprófi af Náttúru- og Félagsfræðibrautum Menntaskólans við Hamrahlíð árið 2009. Hann lauk BS-gráðu í læknisfræði frá Háskóla Íslands 2012 og embættisprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands 2015. Að loknu kandídatsári hóf hann sérnám í almennum lyflækningum á Landspítala og lauk þar þriggja ára námi með MRCP-gráðu 2020. Samhliða námi og starfi sem læknir hefur Helgi stundað rannsóknarvinnu frá árinu 2012. Foreldrar Helga eru Berglind Helgadóttir og Björn Hermannsson. Maki Helga er Kristín Sigurðardóttir, geislafræðingur og vöruhönnuður. 

Helgi Kristinn Björnsson ver doktorsritgerð sína í læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands föstudaginn 16. apríl 2021

Doktorsvörn í læknavísindum - Helgi Kristinn Björnsson