Skip to main content

Algengi líkamsskynjunarröskunar meðal almennings – forspárþættir og fylgiraskanir

Algengi líkamsskynjunarröskunar meðal almennings – forspárþættir og fylgiraskanir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
23. janúar 2018 10:00 til 12:00
Hvar 

Gimli

Stofa 102

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Hrefna Harðardóttir ver meistaraverkefni í lýðheilsuvísindum frá Læknadeild.

Prófdómari er Jóhann Pálmar Harðarson, sálfræðingur.

Leiðbeinandi Hrefnu er Andri Steinþór Björnsson, prófessor við Sálfræðideild, umsjónarkennari er Arna Hauksdóttir, prófessor við Læknadeild. Einnig í meistaranefnd er Heiðrún Hlöðversdóttir, rannsóknarsérfræðingur við Miðstöð í lýðheilsuvísindum, HÍ.

Ágrip

Líkamsskynjunarröskun  (LSR; e. body dysmorphic disorder) er geðröskun sem einkennist af miklum áhyggjum af sýnilegum útlitsgalla sem er ekki til staðar. Þeir sem þjást af LSR eyða oft mörgum tímum á dag í að hugsa um útlit sitt og eru þessir „útlitsgallar” oft í andliti eða hári. Áhyggjunum fylgir næstum alltaf áráttukennd hegðun, á borð við að líta endurtekið í spegil eða bera útlit sitt saman við útlit annarra, og getur reynst erfitt að stjórna hegðuninni. Röskunin kemur að jafnaði fram á unglingsárum og er kynjahlutfall nokkuð jafnt. Lítið er vitað um orsakir LSR og hvaða þættir spá fyrir um framvindu hennar. Algengi röskunarinnar í almennu þýði er á bilinu 0,7-3,2% en er talsvert hærra í klínísku samhengi og á stofum húð- og lýtalækna. Einstaklingar með LSR eru líklegri til að vera einhleypir, atvinnulausir eða öryrkjar, vera með lægri tekjur og vera í sjálfsvígshættu en fólk almennt. Hugræn atferlismeðferð og lyfjameðferð með SRI lyfjum hefur mest verið rannsakað sem meðferð við LSR og bera góðan árangur. Einnig hefur verið sýnt fram á að fegrunaraðgerðir bera lítinn sem engan árangur og geta jafnvel verið skaðlegar fyrir þessa einstaklinga. Heilbrigðisstarfsmenn þurfa að þekkja helstu einkenni röskunarinnar því algengt er að þeir sem þjást af röskuninni fái ekki rétta greiningu, eins er þörf á að auka þekkingu meðal almennings, þar sem fáir vita að LSR er raunveruleg geðröskun. Þörf er á fleiri faraldsfræðilegum rannsóknum á LSR til þess að auka þekkingu á forspárþáttum og fylgikvillum og til þess að þróa frekari meðferðarmöguleika.