Skip to main content

Á sögustöðum: Söguskoðun og dýrlingar

Á sögustöðum: Söguskoðun og dýrlingar - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
8. desember 2022 16:30 til 17:30
Hvar 

Lögberg

Stofa 101

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Miðaldastofa Háskóla Íslands — The University of Iceland Centre for Medieval Studies

Helgi Þorláksson
Á sögustöðum: Söguskoðun og dýrlingar

Fimmtudaginn 8. desember 2022 kl. 16.30
Lögbergi 101

Fyrirlesari gaf á dögunum út bókina Á sögustöðum og meginstefið þar er hin gamla „söguskoðun sjálfstæðisbaráttunnar“, sem svo hefur verið nefnd, og  fyrirlesari telur að móti skilning landsmanna almennt á hinum merku og þekktu sögustöðum sem einkum er fjallað um í bókinni; þeir eru sex,  Bessastaðir, Skálholt, Oddi, Reykholt, Hólar og Þingvellir. Bókin er tilraun til að koma að gagnrýni á hina gömlu söguskoðun með því að tiltaka einstök þekkt dæmi um hvernig hún mótar skilning á sögu staðanna sex. Í bókinni eru gagnrýnd atriði sem túlkuð hafa verið  í anda hins gamla skilnings og eru skýrð í ljósi breyttra hugmynda.  Í fyrirlestrinum verður hin svonefnda „söguskoðun sjálfstæðisbaráttunnar“ í fyrstu skýrð og síðan rakin nokkur dæmi um hvernig hún hefur mótað skilning landsmanna og gerir enn.  Fyrirlesari telur að kaþólsk kirkja og kaþólsk trú á miðöldum séu sérstaklega vanækt eða mistúlkuð í sögu fjögurra af stöðunum sex og rekur það til hinnar gömlu söguskoðunar. Hann ræðir einkum um Þorlák helga og Skálholt og Odda, biskupinn og dýrlinginn Guðmund góða og Hóla og Ólaf helga og Þingvelli. Fyrirlesari telur að dýrlingarnir Þorlákur og Guðmundur séu ekki aðeins að miklu leyti vanæktir í umfjöllun um tilgreinda staði heldur njóti þeir lítt sannmælis. Um verndardýrling Þingvalla, Ólaf helga, hefur ríkt þögn. Fyrirlesari grefst fyrir um það af hverju umfjöllun um dýrlingana Guðmund og Þorlák er eins og nefnt var og þögn ríkir um Ólaf og tengir við „söguskoðun sjálfstæðisbaráttunnar“.

Helgi Þorláksson er prófessor emeritus í sagnfræði við Háskóla Íslands. Helgi hefur í rannsóknum sínum einkum fengist við hagsögu, stjórnmálasögu og menningarsögu tímabilsins 900 til 1700. Meðal nýlegra rita eftir hann er bókarhluti um tímabilið 900 til 1600 í verkinu Líftaug landsins, um sögu íslenskrar utanlandsverslunar, útgefið 2017, og kaflar í verkinu Snorri Sturluson and Reykholt frá árinu 2018 um Reykholtsverkefnið svonefnt. Fyrirlesari tekur um þessar mundir þátt í Oddarannsókninni sem svo er nefnd.

Fyrirlesturinn verður fluttur á íslensku og er öllum opinn.

Helgi Þorláksson

Á sögustöðum: Söguskoðun og dýrlingar