Skip to main content

Reglur nr. 183/2024

Reglur um Rannsóknastofnun Háskóla Íslands á sviði lífeyrismála

PDF-útgáfa

1. gr. Almennt

Rannsóknastofnun á sviði lífeyrismála (e. Pension Research Institute Iceland (PRICE) er vísindaleg rannsóknastofnun sem starfrækt er á Félagsvísindasviði Háskóla Íslands. Stofnunin er sett á laggirnar á grundvelli samnings á milli Háskóla Íslands, Landssamtaka lífeyrissjóða, Seðlabanka Íslands og fjármála- og efnahagsráðuneytis 20. desember 2023.

Rannsóknastofnunin er vettvangur rannsókna- og þróunarstarfs á sviði lífeyrismála og skyldra greina og er fræðasamfélag og samstarfsvettvangur innlendra og erlendra fræðimanna sem nýst getur við rannsóknir og greiningar á sviði lífeyrismála og stutt við framtíðarþróun íslenska lífeyriskerfisins.

Rannsóknastofnun á sviði lífeyrismála  er faglega sjálfstæð og mun starfa í nánu samstarfi við PeRCent (The Pensions Research Centre) við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn (CBS).

2. gr. Hlutverk

Stofnuninni er ætlað að styðja við og halda utan um rannsóknir þess hóps sérfræðinga sem þekkingu hafa á lífeyrismálum og verða þeir „félagar“ (e. members) í stofnuninni.

Hlutverk Rannsóknastofnunar á sviði lífeyrismála er:

a.   að afla þekkingar og skilnings á lífeyrismálum,

b.   að efna til samstarfs við innlenda og erlenda fræðimenn um lífeyrismál,

c.   að afla upplýsinga og hugmynda um skipan lífeyrismála í öðrum ríkjum og benda stjórnvöldum á mögulegar lausnir og úrbætur við þeim áskorunum sem lífeyrissjóðir á Íslandi standa frammi fyrir með rannsóknum, vinnustofum og ráðstefnuhaldi,

d.   að efla tengsl rannsókna og kennslu og samhæfa rannsóknir á sviði lífeyrismála sem unnið er að á Íslandi,

e.   að styðja kennslu og þjálfun í vísindalegum vinnubrögðum og veita nemendum í framhaldsnámi aðstöðu og búnað til rannsóknarstarfa eftir því sem kostur er,

f.    að annast útgáfu og aðra kynningu á niðurstöðum rannsókna og halda úti vefsíðu um starfsemi stofnunarinnar, þar sem fram kemur hverjir eru félagar og hvaða viðburðir eru skipulagðir. Þar verður jafnframt aðgangur að skýrslum, ritgerðum og eftir atvikum öðru efni sem ritað hefur verið með stuðningi stofnunarinnar og upptökum af ráðstefnum sem haldnar verða á hennar vegum,

g.   Að skipuleggja árlega ráðstefnu í samvinnu við Landssamtök lífeyrissjóða þar sem niðurstöður rannsókna eru kynntar og þá einkum fyrir stjórnendum lífeyrissjóða,

h.   Stofnunin kemur að árlegri styrkveitingu til eins doktorsnema og eins starfsmanns sem ætlað er að vinna við rannsóknir er nýst geta íslenska lífeyriskerfinu.

Rannsóknastofnunin mun ekki hafa milligöngu um útselda þjónustu sem veitt er í samkeppni við einkaaðila. Hins vegar geta lífeyrissjóðir og aðrir aðilar samið beint við félaga í stofnuninni um slíka vinnu.

3. gr. Aðstaða

Félagsvísindasvið lætur stofnuninni í té starfsaðstöðu, húsnæði og búnað, svo sem kostur er.

4. gr. Ráðgjafaráð og framkvæmdastjórn

Rannsóknastofnun á sviði lífeyrismála hefur sérstakt ráðgjafaráð sem skipað er fulltrúum háskólasamfélagsins, fjármála- og efnahagsráðuneytis, Seðlabanka Íslands og Landssamtaka lífeyrissjóða. Hlutverk þess er að vera þeim sem aðild eiga að stofnuninni til ráðgjafar um rannsóknir og greiningar sem nýst geta sem grundvöllur ákvarðana til mótunar íslenska lífeyriskerfisins.

Í ráðgjafaráði sitja sex fulltrúar, einn tilnefndur af rektor Háskóla Íslands sem fer með formennsku ráðsins og skal sá vera alþjóðlega viðurkenndur fræðimaður á sviði lífeyrismála, einn tilnefndur af forseta Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands, tveir fulltrúar tilnefndir af Landssamtökum lífeyrissjóða, einn af fjármála- og efnahagsráðuneyti og einn af Seðlabanka Íslands. Ráðgjafaráðið gerir tillögu um einstaklinga í stjórn rannsóknastofnunarinnar.

Rektor skipar Rannsóknastofnun á sviði lífeyrismála tveggja manna framkvæmdastjórn að tillögu ráðgjafaráðs og að höfðu samráði við forseta Félagsvísindasviðs, til tveggja ára í senn og ákveður rektor hvor þeirra gegnir formannsstörfum. Fulltrúar í stjórn skulu vera starfsmenn háskólans  og annar þeirra skal vera akademískur starfsmaður við Hagfræðideild. Tekjur stofnunarinnar skulu standa undir öllum kostnaði sem til fellur vegna stjórnunar og reksturs stofnunarinnar.

Formaður stjórnar er forstöðumaður stofnunar, sbr. 7. gr., er talsmaður hennar og annast daglegan rekstur.

5. gr. Fundir framkvæmdastjórnar

Framkvæmdastjórn heldur reglulega fundi svo oft sem þurfa þykir með fyrir fram ákveðinni dagskrá sem send er með fundarboði. Falli atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns.

Halda skal gerðabók stjórnar og skulu staðfestar fundargerðir færðar í hana. Afrit fundargerða skulu send forseta Félagsvísindasviðs innan við mánuði frá fundi.

6. gr. Verkefni framkvæmdastjórnar

Framkvæmdastjórn tekur stefnumarkandi ákvarðanir fyrir stofnunina og setur henni rannsóknarstefnu. Framkvæmdastjórnin sker úr í vafaatriðum sem upp kunna að koma og varða innri starfsemi stofnunarinnar.

Framkvæmdastjórn ber ábyrgð á rekstri og fjármálum stofnunarinnar gagnvart forseta Félagsvísindasviðs. Hún ákveður viðburði, kynningu rannsókna, og ráðstöfun fjár í samræmi við þau markmið sem stofnuninni eru sett.

Framkvæmdastjórnin fundar reglulega, árlega hið minnsta, með fulltrúum ráðgjafaráðs þar sem farið er yfir áherslur rannsókna og þær afurðir sem í vinnslu eru hverju sinni, helstu viðfangsefni og áskoranir sem lífeyriskerfið stendur frammi fyrir og vert er talið að greina og rannsaka nánar.

Rannsóknaráherslur skulu falla sem best að þörfum lífeyriskerfisins. Jafnframt skal rætt um kynningar á fyrirliggjandi rannsóknum og þeim viðburðum sem stefnt er á að halda á vegum stofnunarinnar.

Við val á rannsóknarverkefnum sem fá fjárhagslegan stuðning stofnunarinnar skal litið til þarfa lífeyriskerfisins en framkvæmdastjórn fer með endanlegt ákvörðunarvald um val á rannsóknarverkefnum, birtingu rannsóknarniðurstaðna og ráðstöfun fjármuna.

Í lok hvers árs gerir framkvæmdastjórnin ráðgjafaráði og forseta Félagsvísindasviðs grein fyrir rekstrartekjum og gjöldum stofnunarinnar og leggur fram skriflega skýrslu um starfsemina á liðnu ári og kynnir helstu niðurstöður skýrslunnar.

7. gr. Forstöðumaður og starfsmenn

Forstöðumaður annast daglegan rekstur stofnunar og kemur fram fyrir hennar hönd, sbr. 4. gr.

Um ráðningu annars starfsfólks fer eftir ákvæðum reglna fyrir Háskóla Íslands. Ef um er að ræða ráðningu í starf og ekki er gert ráð fyrir því starfsheiti í reglunum, fer forseti Félagsvísindasviðs eða forstöðumaður í umboði hans með ráðningarmálið

8. gr. Fjármál

Tekjur Rannsóknastofnunar á sviði lífeyrismála eru eftirfarandi:

a.   framlag eftir samkomulagi frá Landssamtökum lífeyrissjóða,

b.   framlag frá öðrum samstarfsaðilum sem fulltrúa eiga í ráðgjafaráði,

c.   rannsóknastyrkir frá innlendum og erlendum aðilum,

d.   styrkir til einstakra verkefna,

e.   aðrar tekjur, t.d. gjafir.

Reikningshald stofnunarinnar skal vera hluti af reikningshaldi háskólans. Framkvæmdastjórn leggur fjárhagsáætlun næsta árs fyrir forseta Félagsvísindasviðs til staðfestingar fyrir lok nóvember hvers árs og þess gætt að ráðstöfun fjár sé í samræmi við samning Háskóla Íslands, Landssamtaka lífeyrissjóða, Seðlabanka Íslands og fjármála- og efnahagsráðuneytis, sbr. 1. gr.

Rannsóknastofnunin nýtur aðstoðar stoðþjónustu Félagsvísindasviðs um bókhald og daglegan rekstur.

Um stjórnunar- og aðstöðugjald af sértekjum fer eftir ákvæðum 73. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands.

9. gr. Gildistaka

Reglur þessar, sem háskólaráð hefur sett á grundvelli heimildar í 3. mgr. 11. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla, öðlast þegar gildi. 

Háskóla Íslands, 2. febrúar 2024.