Frá árinu 2015 hafa kennara- og starfsmannaskipti til og frá löndum utan Evrópu verið hluti af menntaáætlun Evrópusambandsins. Þessi hluti áætlunarinnar, sem er kölluð „alþjóðavídd“ í háskólastarfi innan Erasmus+, er nokkuð frábrugðin hefðbundnu Erasmus+ áætluninni innan Evrópu.Hægt er að sækja um styrki fyrir starfsmanna- og stúdentaskipti. Nemendur geta ekki sótt um styrkina sjálfir heldur þurfa kennarar að sækja um styrki fyrir skiptinám eða starfsþjálfun stúdenta. Allir háskólar á Íslandi geta sótt um þetta fjármagn og er samkeppni þeirra á milli um upphæðirnar sem eru til ráðstöfunar. Alþjóðasvið HÍ hefur umsjón með öllum umsóknum og sendir inn eina heildarumsókn. Nánari upplýsingar veitir Nanna Teitsdóttir á Alþjóðasviði, erasmus.international@hi.is Kynningarskyggnur Lönd og upphæðir styrkja Löndum heims utan Evrópu er skipt niður í svæði eftir heimshlutum og er ákveðinni upphæð úthlutað fyrir hvert svæði fyrir sig. Upphæðir sem eru til ráðstöfunar innan hvers svæðis eru mjög mismunandi. Upplýsingar um skiptingu eftir landsvæðum og styrkupphæðir 2022 Umsókn Árlega er tekið við umsóknum. Áhugasamir hafa samband við Alþjóðasvið og fá leiðbeiningar um umsókn og umsóknarferli. Gott er að lesa yfir handbók Erasmus+ International Credit Mobility Öllum umsóknum er skilað til Alþjóðasviðs sem sér síðan um að skila einni heildarumsókn um alla styrki fyrir öll svæðin. Úthlutun Ein heildarumsókn er send frá Alþjóðasviði til Landskrifstofu Erasmus+. Umsókn um hvert land er metin, gefin einkunn og í kjölfarið ákveðið hvort hún hljóti styrk. Þannig geta sumar umsóknir hlotið styrk en aðrar ekki. Alþjóðasvið tilkynnir umsækjendum um niðurstöðu úthlutunarinnar þegar hún liggur fyrir. Gátlisti fyrir styrkhafa Samstarfssamningur Eftir að styrk hefur verið úthlutað þarf að huga að því að búa til Erasmus+ samning við samstarfsaðila erlendis. Samningur þessi er forsenda þess að hægt sé að greiða út styrki. Athugið að margar stofnanir utan Evrópu taka góðan tíma í að fara yfir og undirrita slíkan samning. Alþjóðasvið sér um að ganga frá Erasmus+ samstarfssamningnum (Erasmus+ Inter-Institutional Agreement) en umsækjendur þurfa að tilgreina tengiliði við tilvonandi samstarfsskóla erlendis í umsókn. Áætlun dvalar erlendis og flugmiðar Styrkhafi sendir inn afrit af flugfarseðli. Bent er á að ferðastyrkur er föst upphæð sem fer eftir áfangastað og því getur verið hagstætt að panta flug með góðum fyrirvara. Áður en styrkur er endanlega reiknaður út, skal styrkhafi senda inn fullundirritaða kennslu-, starfsþjálfunar- eða námsáætlun eftir því sem við á. Ef einhverjar breytingar hafa orðið á fyrirhugaðri dvöl gæti verið nauðsynlegt að útbúa nýja áætlun og fá undirskriftir á hana. Í áætlun frá starfsmönnum þarf að koma skýrt fram hversu margir dagar (án ferðadaga) eru fyrirhugaðir við gestastofnun og dagskrá dvalar. Dagpeningar eru reiknaðir út frá fjölda daga við gestastofnun + einn til tveir ferðadagar, eftir því sem við á. Lágmarksdvöl eru 5 dagar í heimsókn við gestastofnun. Nemendur þurfa að skila inn námssamningi sem undirritaður er af deild eða sviði viðkomandi og móttökustofnun. Uppihaldsstyrkur er reiknaður upp á dag en miðast þó við mánaðarlega upphæð. Lágmarksdvöl í skiptinámi eru 3 mánuðir en fyrir starfsþjálfun 2 mánuðir. Hámarksdvöl eru 12 mánuðir. Undirrituð áætlun má vera skönnuð. Eyðublað fyrir starfsmenn vegna kennslu Eyðublað fyrir starfsmenn vegna heimsókna/starfsþjálfunar Eyðublað fyrir starfsþjálfun nemenda Eyðublað fyrir skiptinám nemenda Erasmus+ styrksamingur Styrksamningur er undirbúinn þegar styrkhafi hefur skilað fullundirritaðri kennslu-, starfsþjálfunar- eða námsáætlun ásamt afriti af flugfarseðlum. Styrksamningur er gerður í tveimur eintökum og er undirritaður af styrkþega og verkefnisstjóra á Alþjóðasviði. Í samningnum þarf að koma fram kennitala, heimilisfang, símanúmer og bankaupplýsingar sem styrkurinn á að leggjast inn á. Samningurinn tilgreinir einnig styrkupphæð og dagsetningar á dvöl erlendis. Geymið samninginn, gott að hafa hann við höndina þegar lokaskýrsla er gerð og einnig þegar styrkurinn er talinn fram til skatts. Staðfesting á dvöl Styrkþegi tekur með sér eyðublaðið Staðfesting á dvöl. Skjalinu er síðan skilað inn til Alþjóðasviðs að dvöl lokinni. Í eyðublaðinu þarf að tilgreina nafn styrkhafa, dagsetningu heimsóknar eða námstímabils og fá það undirritað og stimplað af móttökuaðila gestaskólans. Eyðublað fyrir staðfestingu á dvöl fyrir starfsmenn Eyðublað fyrir staðfestingu á dvöl fyrir nemendur í skiptinámi Lokaskýrsla Um það leyti sem heimsókn eða námstíma erlendis lýkur, fær styrkþegi tölvupóst um að færa lokaskýrslu inn í gagnabanka. Lokaskýrslunni skal skila ekki seinna en viku eftir heimsókn. Skattframtal Styrkurinn er framtalsskyldur, en telja skal fram kostnað á móti og er þá ekki greiddur skattur af styrknum. Mælt er með að geyma allar kvittanir. Aðrir styrkir utan Evrópu Ísland-Minnesota, ferðasjóður Carol Pazandak facebooklinkedintwitter