Um námið | Háskóli Íslands Skip to main content

Um námið

Leikskólakennaranám er fimm ára nám, sem samanstendur af bakkalárgráðu og meistaragráðu. B.Ed.-nám er þriggja ára fræðilegt og starfstengt 180 eininga grunnnám. Að því loknu getur leikskólakennaranemi sótt um tveggja ára fjölbreytt og spennandi 120 eininga meistaranám sem veitir réttindi til að sækja um leyfisbréf leikskólakennara. Með sérstöku vali námskeiða geta leikskólakennaranemar fengið heimild til kennslu á yngra stigi grunnskóla.

Meginmarkmið leikskólakennaranámsins er að nemar öðlist yfirsýn og skilning á menningar- og menntahlutverki leikskóla, starfsemi þeirra, kenningum um uppeldi og menntun ungra barna og fagmennsku leikskólakennara.

Í náminu öðlast nemar víðtæka þekkingu á kenningum um nám, þroska og félagslegan veruleika ungra barna og færni í samvinnu við leikskólabörn, samstarfsfólk og foreldra. Einnig öðlast þeir þekkingu á stjórnun, forystu og skipulagningu uppeldis- og menntastarfs sem tekur mið af virkni barna og leik sem megin náms- og þroskaleið. Í náminu er sérstök áhersla lögð á tengsl leikskólastarfs og nýrra rannsókna á sviði uppeldis og menntunar þar sem eftirfarandi þættir eru í brennidepli:

 • Leikskólinn sem menntastofnun
 • Leikur barna
 • Fjölmenning og nám án aðgreiningar
 • Listir og barnamenning
 • Málþroski og bernskulæsi
 • Umhverfismennt
 • Námskrá, fagmennska og jafnrétti
 • Samskipti, samstarf og stjórnun

Vettvangsnám

Vettvangsnám og vettvangstengd verkefni eru um það bil 20% af heildarnáminu. Í vettvangsnámi er gert ráð fyrir að nemar vinni með tengsl fræða og starfs og efli eigin uppeldissýn sem lið í þróun fagmennsku sinnar. Í grunnnámi er nemendum úthlutað leikskóla þar sem þeir stunda vettvangsnám í þrjár til fjórar vikur í senn undir leiðsögn leikskólakennara. Auk þess er gert ráð fyrir að nemar vinni að verkefnum námskeiða í leikskólum utan vettvangstímabila.

Í meistaranámi er lögð áhersla á að nemar ígrundi eigið starf og þrói leiðtoga- og forystuhæfni sína á vettvangi. Þeir öðlast þekkingu á gildi starfendarannsókna og framkvæmd þeirra. Einnig hvernig þær aðferðir geta nýst kennurum við að rýna í og greina eigin starfshætti með það að markmiði að þróa starfskenningu sína og faglegt starf.

Meistaranám

Miðað er við að nemendur sem hefja meistaranám hafi lokið grunnnámi með fyrstu einkunn. Í meistaranáminu dýpka nemendur þekkingu sína í menntunarfræðum ungra barna, efla hæfni sína til rannsókna, styrkja eigin starfskenningu og geta sérhæft sig í:

 • Forystu, skólaþróun og mati á skólastarfi
 • Grunnþáttum og gildum: Sjálfbærni, jafnrétti og lífsleikni
 • Menntunarfræði og leikskólastarfi
 • Máli og læsi
 • Námi, listum og sköpun
 • Námi og kennslu í skóla án aðgreiningar í fjölmenningarsamfélagi
 • Upplýsingatækni í skólastarfi

Fyrirkomulag náms og kennslu

Leikskólakennaranámið er skipulagt sem staðbundið nám og/eða fjarnám með ákveðinni mætingaskyldu og vettvangsnámi. Kennsla fer fram með fyrirlestrum og í umræðu- og verkefnatímum. List- og verkgreinar eru kenndar í staðbundnum lotum. 

Tengt efni

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

CAPTCHA
Sía fyrir ruslpóst
Image CAPTCHA
Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.