Vistaskipti – Samband Íslands og Kanada | Háskóli Íslands Skip to main content
29. júlí 2019

Vistaskipti – Samband Íslands og Kanada

""

Núna í ágústlok verður níunda samstarfsráðstefna Manitóbaháskóla og Háskóla Íslands og í þetta sinn ber hún heitið Vistaskipti. Það fer vel á því enda er þar vísað til þeirra fjölmörgu Íslendinga sem tóku sig upp frá landinu kalda og fluttu til Vesturheims með væntingar um betri tíð í brjósti.

„Líkt og dagskrá ráðstefnunnar ber vitni um, er áherslan lögð á sögu, tungumál, bókmenntir og lífsreynslu íslenskra innflytjenda og afkomenda þeirra í Kanada,“ segir Birna Bjarnadóttir, verkefnisstjóri við Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, en hún hefur stýrt undirbúningi ráðstefnunnar í samstarfi við fjölda annarra. Birna þekkir tengsl okkar við svokallaðar Íslendingabyggðir í Kanada betur en flestir en hún þjónaði lengi sem Chair of Icelandic við Íslenskudeild Manitóbaháskóla.

„Það eru fleiri þættir vistaskipta sem koma við sögu á ráðstefnunni,“ bætir hún við. „Þeir varða innflytjendur, flóttamenn og hælisleitendur beggja vegna hafs, allt frá reynslu tiltekinna hópa af lagasetningu og pólitík til heimspekilegra pælinga um viðhorf fólks til þeirra sem finna sig í vistaskiptum og þar með í stigveldi ríkjandi samfélagskerfa. Einnig er varpað ljósi á stöðu frumbyggja Kanada og þau viðvarandi vistaskipti sem þeir finna sig í, með hliðsjón af tilraunum samtímans til að endurskoða sambúð frumbyggja og afkomenda evrópskra landnema.
Þegar kemur að innflytjendum og öllum þeim sem finna sig í vistaskiptum, er óhætt að fullyrða að tungumál og bókmenntir opni okkur sýn á ríkulegt efnið.“

Birna segir að haldin verði erindi sem byggja á einni umfangsmestu rannsókn síðari tíma á íslensku tungumáli og menningu vestan hafs. „Og fyrir utan erindi um eitt af lykilverkum íslenska nútímabókmennta um líf og örlög íslenskra innflytjenda í Kanada rétt fyrir aldamótin 1900 og brot úr sögu íslenskrar leikritunar í Norður-Ameríku, verða einnig flutt erindi um bókmenntir annarra innflytjenda og frumbyggja Kanada.“ 

Frjór jarðvegur skálda sem ortu á íslensku

Það er mjög áhugvert við samband okkar við Vesturheim hversu mörg íslensk skáld fundu þar farveg sinn til skáldskapar. Þjóðskáldið Stephan G. Stephansson var í þeim góða hópi en hann fæddist hinn 3. október árið 1853 á Kirkjuhóli í Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði og var skírður Stefán Guðmundur Guðmundsson. 

Hartnær tvítugur fluttist hann ásamt foreldrum sínum vestur um haf til að vitja betra lífs í Wisconsin í Bandaríkjunum. Þar vann hann meðal annars við lagningu járnbrautar og í skógarhöggi við erfið kjör.  Árið 1889 flutti hann svo til Alberta-fylkis í Kanada við rætur Klettafjalla og gerðist bóndi og höfuðskáld. Stephan G. átti því mörg vistaskipti á sinni ævi en hann hefur oft verið kallaður Klettafjallaskáldið. Stephan G. orti eins og íslensku skáldin flest um árstíðirnar og veðrið en þetta tvennt mótaði án efa líf fyrstu íslensku landnemana á þessu svæði:  

Vestur í Kletta vorið senn
vetur grettan rekur.
Þá skal réttast úr oss enn
er það sprettinn tekur.

Birna segir að hugmyndin um að koma á formlegu sambandi milli Manitóbaháskóla og Háskóla Íslands hafi fæðst í tengslum við umfangsmikla fjársöfnun beggja vegna hafs til handa íslenskudeild Manitóbaháskóla og íslenska bókasafninu við Manitóbaháskóla seint á síðustu öld. Birna segir að fjöldi fólks hafi unnið hörðum höndum að framvindu málsins og gert hugmyndina um formlegt samband háskólanna tveggja að veruleika. 

„Fyrir utan kennara- og nemendaskipti og útgáfur tengdar forlögum háskólanna, byggir samningurinn ekki síst á samstarfsráðstefnunni. Hún er í raun hornsteinn samstarfsins og henni er meðal annars ætlað að varpa ljósi á samband Kanada og Íslands í sögu og samtíð,“ segir Birna. 

Miðaldabókmenntir leggja línurnar

„Sé hugað að heildarmynd samstarfsráðstefnunnar eru það íslenskar miðaldabókmenntir sem leggja á vissan hátt línurnar varðandi landnema allra tíma –innflytjendur og flóttamenn – og það stigveldi sem þeir finna sig í. Ef eitthvað er má tala um vissa hringferð í dagskránni sem hefst á umfjöllun um landnema Ísland á 10. öld, þökk sé heimildum íslenskra miðaldabókmennta, og sem lýkur á umfjöllun um kringumstæður flóttamanna og hælisleitenda á Íslandi samtímans,“ segir Birna. 

„Hvernig sem vindar blása í vistaskiptum fólks beggja vegna hafs má ætla að ráðstefnan veki fólk til umhugsunar um þá staðreynd að Ísland samtímans ber svip þeirrar Norður-Ameríku sem íslenskir innflytjendur sigldu til á síðari hluta nítjándu aldar. Þar beið þeirra fjölmenningarlegt samfélag með öllum sínum áskorunum.“
 
Birna segir að íslenskar miðaldabókmenntir leggi einnig á vissan hátt línurnar hvað varðar sköpunarkraft vistaskipta í menningu Kanada og Íslands og um leið Norður-Ameríku og Evrópu. Á sama hátt og íslenskar miðaldabókmennta hafi auðgað menningu heimsins, hafi skáld og rithöfundar í röðum íslenskra innflytjenda Norður-Ameríku auðgað nútímabókmenntir beggja vegna hafs og þar með vitund okkar á gamla landinu um reynslu og hlutskipti innflytjendanna. 

Sköpunarkraftur vistaskipta

„Talandi um sköpunarkraft vistaskipta,“ segir Birna og víkur talinu að sjálfri dagskránni. „Dagskráin geymir tvo hliðarviðburði sem tengjast efninu í myndlist og bókmenntum. Fyrri viðburðurinn á sér stað kl. 17:00, fimmtudaginn 29. ágúst, en þá mun rektor Háskóla Íslands opna sýningu á verkum fimm íslenskra listamanna sem hafa dvalið í Banff Centre í Klettafjöllum Kanada. Síðari hliðarviðburðurinn á sér stað í ráðstefnulok, föstudaginn 30. ágúst kl. 18:00 í Safnahúsinu við Hverfisgötu, með kynningu á útgáfustarfsemi sem tengist íslenskum bókmenntarfi vestan hafs og austan.“ 

 „Þótt við getum aldrei vitað með vissu hvers konar tilfinning það var að yfirgefa bændasamfélag við útmörk Evrópu á síðari hluta nítjándu aldar og nema land í svimandi nútíma Norður-Ameríku, getum við skilið að menningararfur íslenskra innflytjenda og afkomenda þeirra í Vesturheimi átti eftir að kallast á við tilvistarskilyrði og lífsreynslu þeirra í Vesturheimi,“ segir Birna. 

„Þetta þýðir að fyrir utan að sinna íslensku tungumáli og bókmenntum, má kalla það höfuðskyldu íslenskudeildarinnar í Winnipeg að standa vörð um ríkidæmið í menningarsögu íslenskra innflytjenda og afkomenda þeirra í Vesturheimi. Slík eru víðernin sem henni er treyst fyrir. Og þessi víðerni koma einnig við sögu í rannsóknum og kennslu fræðimanna Háskóla Íslands og verða að stórum hluta á dagskrá á níundu samstarfsráðstefnu Manitóbaháskóla og Háskóla Íslands dagana 29. – 30. ágúst í Veröld – húsi Vigdísar,” segir Birna að lokum.   

Dagskráin er fjölbreytt

Dagskráin verður mjög fjölbreytt og fer hún fram á ensku. Vistaskipti - Níunda Samstarfsráðstefnan. Manitóbaháskóli og Háskóli Íslands. Veröld – hús Vigdísar, Háskóli Íslands, 29.‒30. ágúst 2019.

DAGSKRÁ 
Fimmtudagur, 29. ágúst

Veröld – hús Vigdísar, 023

9:00–9:35: Opnun

 • Ávarp: Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra
 • Ávarp: Anne-Tamara Lorre, sendiherra Kanada á Íslandi
 • Ávarp: Dr. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands
 • Ávarp: Dr. Jeffery Taylor, forseti Hugvísindasviðs Manitóbaháskóla

Fundarstjóri: Dr. Guðmundur Hálfdánarson, forseti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands og Jón Sigurðssonar prófessor í sagnfræði

9:35–9:45: Kaffihlé

9:45–10.30:  Aðalfyrirlestur: „Umbreytingarkraftur vistaskipta: Sjálfsmynd, samastaður og reynsla íslenskra innflytjenda og afkomenda þeirra í Kanada“

 • Dr. Richard Sigurdson, forseti Hugvísindasviðs og prófessor í stjórnmálafræði við Calgaryháskóla, og fyrrum forseti Hugvísindasviðs Manitóbaháskóla

Kynning: Dr. Birna Bjarnadóttir, verkefnisstjóri við Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, Háskóla Íslands, og fyrrum Chair of Icelandic við Manitóbaháskóla 

10:30–12:00: Pallborð 1 – Landnám, vistaskipti og nýtt landnám íslenskra hefða: Frá elleftu öld til þeirrar tuttugustu og fyrstu

 • Dr. Ármann Jakobsson, prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda, Háskóla Íslands: „Landnámsmaður eða galdramaður: Landnám og völd á Íslandi á elleftu öld“
 • Bergur Þorgeirsson, forstöðumaður Snorrastofu í Reykholti: „Vesturnorskar ‚krossferðir uppfræðslu’ og fornritin“
 • Dr. Dustin Geeraert, kennari við Íslenskudeild Manitóbaháskóla: „Frá Vínlandi til Valinor: Ferðir norrænnar goðafræði vestur á bóginn“

Málstofustjóri: Ásdís Egilsdóttir, prófessor emeritus í íslenskum bókmenntum fyrri alda við Háskóla Íslands

12:00–1:30: Hádegishlé

1:30–3:00: Pallborð 2 – Landnám tungumáls: Þróun og arfur íslenskunnar í Vesturheimi

 • Dr. Birna Arnbjörnsdóttir, prófessor í annarsmálsfræðum við Háskóla Íslands og forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum: „Íslenska sem erfðamál í Vesturheimi“
 •  Alda Bryndís Möller, doktor í matvælafræðum og M.A. nemi í íslensku við Háskóla Íslands: „Saga þriggja bræðra: Bréf úr sveitum Nebraska 1873‒1915“
 • Dr. Höskuldur Þráinsson, prófessor emeritus í málsvísindum við Háskóla Íslands og  Dr. Sigríður Magnúsdóttir, dósent emeritus í talmeinafræðum við Háskóla Íslands og fyrrum yfirtalmeinafræðingur á Landsspítala Háskólasjúkrahúsi: „Íslenska í Vesturheimi –  nýleg dæmi um breytingar“

Málstofustjóri: Dr. Helga Hilmisdóttir, rannsóknardósent á orðfræðasviði við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

3:00–3:15: Kaffihlé

3:15–4:45: Pallborð 3 – Þjóðflutningar vestur um haf um aldamótin nítjánhundruð

 • Dr. Sigríður Matthíasdóttir, sagnfræðingur og Dr. Þorgerður Einarsdóttir, prófessor í kynjafræði við Háskóla Íslands: „Gleymdir gerendur? Ógiftar konur í hópi Vesturfara 1870-1914“ 
 • Dr. Vilhelm Vilhelmsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra og meðritstjóri Sögu, tímarits Sögufélags: „Athvörf róttækra íslenskra innflytjenda í Manitoba um aldamótin 1900“
 • Dr. Pam Perkins, prófessor í enskum bókmenntum við Manitóbaháskóla: „Frásagnir vistaskipta: Farandverkakonur í sjávarútvegi á Nýfundalandi á nítjándu öld“

Málstofustjóri: Dr. Hrefna Róbertsdóttir, þjóðskjalavörður. 

4:45–6:00: Móttaka og opnun sýningar á verkum fimm íslenskra listmanna sem dvalið hafa í Banff Centre í Alberta  

***
Föstudagur, 30. ágúst 2019

*Athugið að pallborð 4/5 og 6/7 eru samtímís á dagskrá í Veröld–húsi Vigdísar:

 • a) salur 023 (pallborð 4 og 6) 
 • b) stofa 007 (pallborð 5 og 7)

Veröld – hús Vigdísar, 023
9:00–9:45: Aðalfyrirlestur: „Einar H. Kvaran (1859-1938) og áskorun vona“

 • Dr. Guðrún Guðsteinsdóttir, prófessor í enskum bókmenntum við Háskóla Íslands

Kynning: Dr. Pam Perkins, prófessor í enskum bókmenntum við Manitóbaháskóla

Veröld – hús Vigdísar, 023
9:45–10:45: Pallborð 4 – Sjálfsmynd og minningar innflytjenda Norður Ameríku 

 • Dr. Laurie K. Bertram, prófessor í sagnfræði við Torontóháskóla: „„Ekki biðja Íslendinga um uppskriftina að jólakökunni þeirra“: Vínarterta og minningar íslenskra innflytjenda í Vesturheimi“ (Peter John Buchan, forstöðumaður og tungumálakennari Íslenskudeildar Manitóbaháskóla, les erindið) 
 • Dr. Alison Calder, prófessor í enskum bókmenntum við Manitóbaháskóla: „„Steiktar núðlur, það er málið á Nýfundnalandi“: Vistaskipti, sjálfsmynd og núðlur í Chop Suey Nation, ferðasögu Ann Hui“

Málstofustjóri: Dr. Birna Arnbjörnsdóttir, prófessor í annarsmálsfræðum við Háskóla Íslands, og forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum 

Veröld – hús Vigdísar, 007
9:45–10:45: Pallborð 5 – Íslenskir rithöfundar í Vesturheimi 

 • Jay Lalonde, M.A. nemi í enskum bókmenntum við Háskóla Íslands: „Áfangastaður okkar var Nova Scotia í landi sem heitir Kanada“: Svipmyndir úr Íslendingabyggðum Nova Scotia í fáeinum verkum Jóhanns Magnúsar Bjarnasonar“ 
 • Dr. Magnús Þór Þorbergsson, nýdoktor við Bókmennta‒ og listfræðistofnun Háskóla Íslands: „Leikrit á ferð og flugi“

Málstofustjóri: Dr. Dagný Kristjánsdóttir, prófessor í íslenskum nútímabókmenntum við Háskóla Íslands

10:45–11:00: Kaffihlé

Veröld – hús Vigdísar, 023
11:00–12:00: Pallborð 6 ‒ Staðgöngumæðralög og kynjapólitík vistaskipta í Kanada og Íslandi nútímans

 • Dr. Karen Busby, prófessor í lögfræði við Manitóbaháskóla, (Pamela White, prófessor við Kent Law School, er meðhöfundur erindis): „Kanada sem alþjóðlegur áfangastaður staðgöngumæðrunar“
 • Dr. Thomas Brorsen Smidt, verkefnisstjóri rannsókna við Jafnréttisskóla HSþ á Íslandi, Háskóla Íslands: „Kynferðir og hinseginferðir“

Málstofustjóri: Björg Thorarensen, prófessor í lögfræði við Háskóla Íslands

Veröld – hús Vigdísar, 007
11:00–12:00: Pallborð 7 ‒ Vistaskipti menningarverðmæta  

 • Dr. Paul D. Larson, prófessor í viðskiptafræði við Manitóbaháskóla: „Nýbúar í Kanada og á Íslandi: Menningarleg sjálfbærni“
 • Huimin Qi, prófessor og forstöðumaður Konfúsíusarstofnunarinnar Norðurljós: „Jass í Fríkirkjunni í Reykjavík“

Málstofustjóri: Peter John Buchan, forstöðumaður og tungumálakennari við Íslenskudeild Manitóbaháskóla

Veröld – hús Vigdísar, 023
12:00–1:00: Pallborð 8 – Frásagnarhefðir og menningarsamfélög í Kanada 

 • Dr. Justin Jaron Lewis, prófessor í trúarbragðafræði við Manitóbaháskóla: „Umbreytingar landnáms: Lærdómur og sögur Tosher‒réttrúnaðar gyðinga“
 • Dr. Warren Cariou, forstöðumaður Centre for Creative Writing/Oral Culture og prófessor í enskum bókmenntum við Manitóbaháskóla: „Jarðsögur: Ferðlaög og samastaðir í hefðbundnum sögum frumbyggja“

Málstofustjóri: Dr. Karen Busby, prófessor í lögfræði við Manitóbaháskóla

1:00–2:00: Hádegishlé

Veröld – hús Vigdísar, 023 
2:00–3:00:  Pallborð 9 ‒ Innflytjandinn í Evrópu og Ameríku í sögu og samtíð

 • Dr. Hólmfríður Garðarsdóttir, prófessor í spænsku við Háskóla Íslands: „Komið til Ameríku: Flóttamenn á norðurleið vitna um fjölbreytta útilokun og skort á pólitískri forystu“
 • Dr. Simone Mahrenholz, prófessor í heimspeki við Manitóbaháskóla: „Yfir þröskuldinn: Flóttamaðurinn sem óvinur og aðdráttarafl“

Málstofustjóri: Dr. Jón Ólafsson, prófessor við Íslensku‒ og menningardeild Háskóla Íslands

3:00–3:15: Kaffihlé

3:15–5:15: Pallborð 10 – Flóttamenn og hælisleitendur á Íslandi, (Rannsóknarverkefnið „Hreyfanleiki og fjölþjóðlegt Ísland“)

 • Dr. Guðbjörg Ottósdóttir, lektor í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands: „Reynsla sýrlenskra flóttamanna og fagaðila í móttöku flóttamanna“ 
 • Elísabet Kristjánsdóttir, M.A í mannfræði og aðstoðarmaður rannsókna og kennslu við Háskóla Íslands: „Konur sem hafa sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi“
 • Elva Björt Stefánsdóttir, M. A. nemi í mannfræði við Háskóla Íslands: „„Ég vildi tilheyra þessu samfélagi á Íslandi“: Líf og reynsla flóttamanna sem fá hæli á Íslandi“
 • Dr. Unnur Dís Skaptadóttir, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands: „Sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi: Höfnunarferlið“ 

Málstofustjóri: Thomas Brorsen Smidt, verkefnisstjóri rannsókna við Jafnréttisskóla HSþ á Íslandi, Háskóla Íslands

5:15–5:30: Lokorð

 • Dr. Guðmundur Hálfdánarson, forseti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands og Jón Sigurðssonar prófessor í sagnfræði

Safnahúsið: http://www.culturehouse.is/

6:00–7:30: Sérstakt pallborð um sameiginleg útgáfuverkefni 
 

Birna Bjarnadóttir