Vísindamenn við HÍ rannsaka getu fólks til að sjá fyrir sér hluti | Háskóli Íslands Skip to main content
22. maí 2020

Vísindamenn við HÍ rannsaka getu fólks til að sjá fyrir sér hluti

Setjum upp litla hugarleikfimiæfingu. Reyndu að ímynda þér bleikan einhyrning. Skynjarðu bleika litinn eða veistu kannski bara af honum, rétt eins og maður veit að tómatar eru rauðir og gúrkur grænar? Hvernig snýr skepnan? Snýr hún einhvern veginn yfir höfuð? Sérðu hornið? Faxið? Taglið? Eða sérðu kannski ekki neitt heldur hugsar einfaldlega um hugtakið einhyrning og allt það sem einkennir slíkar verur?

Ef tíu manns fengju þessar spurningar væru svörin æði misjöfn því mikill einstaklingsmunur virðist vera á styrk myndrænnar ímyndunar meðal fólks almennt. Nýlega var lýst hópi fólks sem telur sig aldrei hafa haft neina getu til myndrænnar ímyndunar og hafa vísindamenn kallað þetta ástand aphantasiu. Sömuleiðis virðist vera til fólk á hinum enda rófsins sem sér hlutina ljóslifandi fyrir sér í huganum og má því segja að sé með ofurmyndun hyperphantasia. Lítið er vitað um eiginleika þessara hópa og örfáar rannsóknir hafa hingað til verið gerðar á þeim. 

Þeir sem geta séð hluti fyrir sér í huganum geta misst getuna til myndrænnar ímyndunar sökum heilaskaða, vegna slyss eða sjúkdóms. Nýlega fengu Sandra Þórudóttir, meistaranemi við Rannsóknarmiðstöð um sjónskynjun (www.visionlab.is) við Sálfræðideild Háskóla Íslands, og Heiða María Sigurðardóttir, lektor við sömu deild, ásamt erlendu samstarfsfólki birta grein í vísindaritinu Brain Sciences þar sem greint var frá arkitekt sem missti nær alla getu til að sjá fyrir sér hluti í huganum eftir að hafa fengið heilablóðfall. 

Fyrir áfallið átti arkitektinn sérlega auðvelt með myndræna ímyndun og notaði hana í starfi sínu. Við heilaskaðann virtist hann hafa misst þennan hæfileika með tilheyrandi áhrifum á starf hans og líf. Þegar arkitektinn var spurður hvort hann gæti ímyndað sér fíl virtist hann að mestu hugsa um hugtakið fíl án þess að sjá hann almennilega fyrir sér: „Ég get hugsað um fíla, fræga fíla á borð við Babar og Elmar, en ég get bara séð fyrir mér einstaka búta úr þeim. Þetta er næstum því sársaukafullt.“ Þegar arkitektinn var beðinn um að lýsa staðnum sem hann heimsótti í fríinu sínu virtist hann ekki sjá staðinn fyrir sér: „Ég man eftir þessu eins og lista af atriðum. Ég nota þessa sömu aðferð þegar ég fer eitthvert. Ég verð að muna lista.“ 

Rannsakendurnir báru arkitektinn saman við annað fólk sem einnig hafði orðið fyrir heilaskaða, þar með talið annan arkitekt sem enn hafði mikla hæfileika til myndrænnar ímyndunar. Heilaskaðinn olli hópnum alls kyns vandamálum, þar með talið við að rata og þekkja fólk í sjón, en enginn nema fyrrnefndur arktekt átti við aphantasiu að stríða. 

Þegar segulómmyndir af heila allra sjúklinga voru bornar saman kom í ljós að á aðeins tveimur svæðum í heila arkitektsins með aphantasiu hafði orðið skaði sem ekki var að finna á sömu svæðum hjá hinum sjúklingunum. Þar á meðal var lítið svæði í vinstri spólufellingu (fusiform gyrus) heilans og telja vísindamennirnir að þetta svæði geti mögulega gegnt lykilhlutverki í sjónrænum ímyndunarferlum. Þetta er í samræmi við fyrri rannsóknir sem einnig benda margar til þess að skaði í vinstra heilahveli sé líklegri en skaði í því hægra til þess að valda truflun á sjónrænni ímyndun. Þrátt fyrir það er margt enn órannsakað. 

Sandra Þórudóttir og Heiða María Sigurðardóttir ætla að halda rannsóknum sínum á sjónrænni ímyndun áfram og leita nú að fólki með aphantasiu, hyperphantasiu og öllu þar á milli. Þær hafa sérlegan áhuga á að kanna tengsl styrks sjónrænnar ímyndunar við önnur hugarferli á borð við skynjun og minni. Hafi fólk áhuga á þátttöku í rannsókninni getur það haft samband við Söndru með því að senda póst á netfangið sdt9@hi.is. Með því er fólk þó ekki að skuldbinda sig til þátttöku. Rannsóknin tekur um tvo tíma og fer fram í Háskóla Íslands. Í lok rannsóknar verður fólki boðið í stutt viðtal þar sem spurt verður nánar út í hvort og þá hvernig það sér fyrir sér hluti í huganum. Þátttakendur geta skráð nafn sitt í happdrættispott og hljóta allnokkrir heppnir þátttakendur 10.000 kr. gjafabréf í verðlaun.

Greinin um arkitektinn með apathasiu

""