Skip to main content
31. ágúst 2020

Vinna að bættri endurvinnslu plasts

Vinna að bættri endurvinnslu plasts - á vefsíðu Háskóla Íslands

Plastúrgangur hefur verið vaxandi vandamál í heiminum undanfarna áratugi enda hefur hann mikil áhrif á umhverfi. Fregnir af plasteyjum fljótandi í heimshöfunum og plastrusl víða í borgarumhverfi og náttúru hafa opnað augu manna fyrir þessum mikla vanda og þegar hefur verið brugðist við, bæði með nýjum lögum og reglum sem miða að því að draga úr plastnotkun og aukinni endurvinnslu á plasti. En plast er ekki það sama og plast. Það þekkir Benjamín Ragnar Sveinbjörnsson, lektor í efnafræði, sem hefur ásamt nemendum sínum unnið að nýsköpunarverkefni í sumar sem miðar að því að finna einfalda leið til að flokka plast eftir tegundum út frá leysanleika þeirra. Markmiðið er að auðvelda endurvinnslu þess.

Plast er samansett úr svokölluðum fjölliðum, sem eru keðjur sameinda, og þær hafa verið viðfangsefni Benjamíns í rannsóknum um nokkurt skeið. „Maður vill að rannsóknirnar sem maður er að vinna að nýtist til að gera heiminn að betri stað og þetta viðfangsefni virkaði spennandi og þess eðlis að það ætti erindi við heiminn í dag,“ segir Benjamín aðspurður um tilurð verkefnisins.

Ein af áskorununum við endurvinnslu plasts er flokkun þess. „Í venjulegum heimilisúrgangi eru alls konar plasttegundir og ef þeim er blandað saman í endurvinnslunni verður endurunna plastið með aðra eiginleika en leitast er eftir. Þess vegna er flokkunin mjög mikilvæg. Plastúrgangur sem fer til Sorpu er ekki flokkaður á Íslandi heldur sendur út til Svíþjóðar til flokkunar. Þar er bara hluti plastsins endurunninn en aðrar plasttegundir, t.d. svokallað polystyrene og PVC, eru settar í „orkuendurvinnslu“ sem þýðir að þær eru brenndar til að fá orku sem er ekki endilega mjög umhverfisvænt,“ bendir Benjamín á.

Því má ljóst vera að ávinningur samfélagsins af því að bæta endurvinnslu plasts er mikill, ekki síst frá umhverfissjónarmiði. „Ef það er hægt að gera endurvinnsluna ódýrari en plastframleiðsluna geta líka verið gríðarleg fjárhagsleg verðmæti í endurvinnsluiðnaðinum. Plastefni eru síðan svo fjölbreytt að það eru margir þættir sem þarf að huga að því að skoða. Þessar rannsóknir hjálpa okkur í vísindaheiminum því líka í því að skilja plasteiginleika betur almennt, t.d. hvernig plasttegund, fjölliðustærð og uppbygging hefur áhrif á leysanleika þessara efna,“ segir Benjamín enn fremur.

„Áður en við byrjuðum í þessu verkefni höfðum við líka aðallega verið að vinna í því að búa til fjölliður en ekki aðskilja þær svo að við höfum líka verið að setja okkur inn í hvernig er best að framkvæma þessar leysanleikamælingar. Vonandi verður síðan hægt að taka þetta verkefni lengra í framtíðinni og finna lausn sem að getur nýst til að bæta plastendurvinnslu bæði á Íslandi og út í heimi,“ segir Benjamín. MYND/Kristinn Ingvarsson

Draumurinn að geta skilið að plasttegundir sjálfvirkt

Hann bætir við að plastefni leysist misvel í leysum en draumurinn sé að geta tekið tiltekna plastblöndu, bætt við leysi til að leysa upp bara ákveðna plasttegund í blöndunni og skilið hinar eftir. „Ef fleiri en ein plasttegund leysast vel upp í leysinum, væri síðan hægt að fella út bara eina plasttegund með að hella út í annan hentugan leysi fyrir það. Þannig væri hægt að aðskilja hægt og rólega hverja plasttegund frá annarri og vonandi væri hægt að finna ferli sem hægt væri að gera sjálfvirkt,“ útskýrir Benjamín.

Þau Sigurður Guðni Gunnarsson, sem lauk BS í efnafræði frá Háskóla Íslands í vor, og Sólrún Elín Freygarðsdóttir, sem er á öðru ári í BS-námi sínu í greininni, hafa unnið með Benjamín að verkefninu í sumar með stuðningi frá Nýsköpunarsjóði námsmanna. „Nú í upphafi verkefnisins erum við aðallega að mæla leysanleika ýmissa plasttegunda í leysunum sem væri auðveldast að nota. Með þessum upplýsingum getum við fengið betri yfirsýn yfir hvaða plasttegundir er auðveldast að aðskilja hverja frá annarri og í hvaða röð við þyrftum að bæta leysum við blönduna til að aðskilja flóknari blöndur,“ útskýrir Sigurður Guðni.

„Við höfum notað plast úr heimilisúrgangi í þessar frummælingar og síðan höfum við líka prófað að taka einfaldar plastblöndur og aðskilja þær hverja frá annarri. Við höfum líka verið í þónokkurri heimildavinnu en það hafa einhverjar rannsóknir verið gerðar á þessu sviði. Enn virðist hins vegar ekki hafa tekist að þróa hagkvæmt ferli sem hægt er að nýta í endurvinnsluiðnaðinum,“ bætir Sólrún við.

Verkefnið er á fyrstu metrunum og Benjamín bendir á að þrír mánuðir séu mjög stuttur tími fyrir rannsóknarverkefni sem þetta. Því séu væntingar þremenninganna í upphafi þær að fá betri yfirsýn yfir hvaða möguleikar eru fyrir hendi og hverjar helstu áskoranirnar eru í ferlinu. „Áður en við byrjuðum í þessu verkefni höfðum við líka aðallega verið að vinna í því að búa til fjölliður en ekki aðskilja þær svo að við höfum líka verið að setja okkur inn í hvernig er best að framkvæma þessar leysanleikamælingar. Vonandi verður síðan hægt að taka þetta verkefni lengra í framtíðinni og finna lausn sem að getur nýst til að bæta plastendurvinnslu bæði á Íslandi og út í heimi,“ segir Benjamín enn fremur.

""