Skip to main content
29. júní 2023

Vill bæta þjónustu við börn með sérþarfir

Vill bæta þjónustu við börn með sérþarfir - á vefsíðu Háskóla Íslands

Í hópi þeirra sem brautskráðust frá Háskóla Íslands laugardaginn 24. júní var hugbúnaðarverkfræðingurinn Elísabet Ásta Ólafsdóttir. Hún nýtti nám sitt vel til nýsköpunar í þágu samfélagsins því Elísabet vinnur nú að hugbúnaðarlausn sem ætlað er að bæta þjónustu við grunnskólabörn með sérþarfir. Þessi hugmynd hennar skilaði henni 2. sæti í AWE-frumkvöðlahraðlinum innan HÍ í vor og hyggst Elísabet þróa hana áfram í sumar í samstarfi við Akureyrarbæ.

Elísabet Ásta, sem búsett er á Akureyri, brá sér suður yfir heiðar um síðustu helgi og tók við brautskráningarskírteini í Laugardalshöll ásamt á þriðja þúsund útskriftarkandídata í Háskóla Íslands. Þetta var að sjálfsögðu mikill gleðidagur fyrir hana eins og aðra kandídata enda langþráðum áfanga náð eftir námstíma sem m.a. hefur einkennst af takmörkunum kórónuveirufaldursins.

Hugbúnaðarlausn leysir af hólmi samskiptabók

Elísabet Ásta vinnur í sumar að því að þróa vöru sem hún á hugmyndina að en um er að ræða hugbúnaðarlausn sem miðar að því að bæta öryggi í þjónustu við börn með sérþarfir í grunnskólum landsins með því að leysa af hólmi samskiptabók sem gjarnan er notuð. „Í samskiptabókina eru skráðar upplýsingar um dag barns sem gera foreldrum þess kleift að vera upplýst um gang mála. Bókin er mikilvægur liður í þjónustu við börnin og fjölskyldur þeirra vegna þess að oft eiga börnin erfitt með að skýra frá viðfangsefnum hvers dags og eiga að fá að vera laus við það, bókin kemur þar inn og upplýsir,“ bendir Elísabet Ásta á.
 
Hins vegar er bókin í því formi sem hún er í dag ekki öruggur vettvangur, að sögn Elísabetar Ástu. „Bókin getur t.d. hæglega orðið eftir á vergangi og þá getur hver sá sem kann að lesa grúskað í afar persónulegum upplýsingum. Þegar mér varð ljóst að málin gætu undið svona upp á sig stóð mér ekki á sama,“ segir hún en hugbúnaðarlausnin er í formi apps/forrits þar sem foreldrar barna með sérþarfir munu geta nálgast upplýsingar um það hvernig börnunum þeirra vegnar.

Nýsköpunarnámskeið og frímínútur nýttust í þróun námskeiðsins

Hugmyndin að lausninni kviknaði í námskeiðum sem Elísabet Ásta tók á síðasta ári sínu í hugbúnaðarverkfræði í HÍ. „Ég tók námskeiðið „Frá hugmynd að veruleika“ og síðan samnefnt framhaldsnámskeið sem Jóhann Pétur Malmquist, prófessor og reynslubolti í nýsköpun, stendur fyrir árlega. Þar var okkur nemendum falið að hefja þróunarvinnu á hugmynd og lá beinast við fyrir mig að vinna að lausn sem myndi leysa samskiptabókina af hólmi. Í námskeiðinu fengum við nemendur innsýn í raunverulegar aðstæður í atvinnulífinu. Einnig fengum við þjálfun við að greina hvað er gott að kunna og vita svo hugmyndin manns verði ekki bara hugmynd,“ útskýrir Elísabet, en þess má geta að hugmyndir að fjölmörgum lausnum og fyrirtækjum hafa kviknað og þróast í þessum námskeiðum Jóhanns Péturs.

Aðspurð segir Elísabet Ásta enn fremur að að sjálfsögðu hafi margvísleg önnur námskeið í náminu nýst henni gríðarlega vel við þróun lausnarinnar. „Það sem mér þykir þó standa einna helst upp úr eru frímínútur milli tíma. Þá gefst oft tækifæri til að spjalla við kennarana. Upptakan er sett á pásu og þeir nemendur sem mæta á staðinn í tímana öðlast aukinn fróðleik. Viska kennaranna er oft vannýtt auðlind en þeir vita nefnilega heilmargt sem kannski kemst ekki að í formlegri kennslustund. Iðulega er það ótengt prófsefni áfangans en nýtist sannarlega utan kennslustofunnar,“ bendir Elísabet Ásta á.

Elísabet Ásta, sem búsett er á Akureyri, brá sér suður yfir heiðar um síðustu helgi og tók við brautskráningarskírteini í Laugardalshöll ásamt á þriðja þúsund útskriftarkandídata í Háskóla Íslands. Þetta var að sjálfsögðu mikill gleðidagur fyrir hana eins og aðra kandídata enda langþráðum áfanga náð eftir námstíma sem m.a. hefur einkennst af takmörkunum kórónuveirufaldursins. MYND/Gunnar Sverrisson

Götin í stundaskránni nýttust vel fyrir AWE

Elísabet Ásta lét sér ekki nægja að sækja námskeið í nýsköpun í sínu námi heldur skráði sig einnig í frumkvöðlahraðalinn Academy for Women Entrepreneurs, AWE, sem HÍ og Sendiráð Bandaríkjanna á Íslandi stóðu saman að á vormisseri og fór nú fram í þriðja sinn. Markmið hans er að styðja konur í að þróa áfram viðskiptahugmyndir sínar og fyrirtæki og auka hlut þeirra innan frumkvöðla- og nýsköpunargeirans.

„Það kom þannig til að ég hafði séð auglýsingu árinu áður og þótti þetta vera spennandi tækifæri til þess að bæta ofan á þá praktísku þekkingu sem ég öðlast í skólanum. Á síðustu önninni minni nú í vor átti ég inni nokkrar einingar og ákvað því að slá til. Götin í stundaskránni nýttust því vel og afar hentugt er að hraðallinn er kenndur í samstarfi við HÍ svo stutt var að fara í staðlotur,“ segir Elísabet Ásta aðspurð um ástæður þess að hún ákvað að sækja um þátttöku í hraðlinum.

Tekur með sér stórt tengslanet úr AWE

Tuttugu konur tóku þátt í hraðlinum að þessu sinni og luku bæði alþjóðlegu vefnámskeiði og tóku þátt í vinnulotum sem Háskóli Íslands stóð fyrir í samvinnu við reynslumiklar konur úr íslensku atvinnulífi. Dómnefnd valdi svo þrjár hugmyndanna og veitti þeim verðlaun á uppskeruhátíð hraðalsins.

Elísabet Ásta segir kennsluna í AWE-frumkvöðlahraðlinum sannarlega hafa staðið undir væntingum. „Ég lærði heilmargt sem tengist því að koma hugmyndinni sinni áfram á næsta stig. Ég lærði hvernig maður ber sig að með alls konar praktísk atriði eins og hluthafasamkomulag í samstarfi, hvernig maður sækir um styrki úr sjóðum og hvernig maður kemur hugmyndinni sinni á framfæri. Ekki síst tengdist ég fleirum sem eru í svipaðri stöðu og ég, að stíga sín fyrstu skref í frumkvöðlageiranum,“ segir hún. 

verdlaunahafar AWE

Elísabet Ásta ásamt öðrum verðlaunahöfum í AWE-frumkvöðlahraðlinumm. MYND/Kristinn Ingvarsson

Svo fór að Elísabet Ásta hafnaði í öðru sæti hraðlinum með verkefni sitt og hlaut fyrir það 500 þúsund krónur í verðlaunafé. „Þegar ég lít til baka yfir farinn veg í AWE trúi ég því að það helsta sem nýtist beint í frekari þróun verkefnisins sé viðskiptaáætlunin sem unnið var að. Hana er hægt að nýta í svo margt annað en bara ramma inn verkefnið, t.a.m. þegar sækja þarf um styrki og kynna verkefnið sitt fyrir mismunandi aðilum. Viðskiptaáætlunina þarf nefnilega að sérsníða að aðstæðum hverju sinni svo hún falli að mismunandi þörfum þeirra sem eiga í hlut. Einnig tek ég með mér stórt tengslanet sem hefur nú þegar sannað sig – það er svo mikilvægt að geta leitað til fólks sem maður treystir þegar vangaveltur banka upp á,“ segir hún aðspurð um hvað hún taki með sér úr hraðlinum.

Þróar verkefnið með Akureyrarbæ og notendum

Þróun verkefnisins heldur áfram í sumar og Elísabet Ásta hlaut í vor styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna til þess. „Sumarið er rétt hafið og enn er langt í land en útfærsla hugbúnaðarlausnar sem hefur marga og hagnýta notkunarmöguleika er svipað og að byggja Róm – gerist ekki á einum degi og vanda verður til verka. Ég vinn verkefnið í samstarfi við Akureyrarbæ en með samtali við væntanlega notendur sé ég fram á að góður grunnur verði lagður að lausninni. Ég hlakka til þess að líta til baka, sjá hvert vinna sumarsins nær og hvert hún leiðir mig áfram,“ segir Elísabet Ásta að endingu.

Elísabet Ásta Ólafsdóttir