Skip to main content
20. apríl 2022

Vigdísarstofnun fagnar Alþjóðlegum áratug frumbyggjatungumála

Vigdísarstofnun fagnar Alþjóðlegum áratug frumbyggjatungumála - á vefsíðu Háskóla Íslands

Vigdísarstofnun – alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar við Háskóla Íslands fagnar Alþjóðlegum áratug frumbyggjatungumála og fimm ára afmæli sínu með glæsilegri opnunarhátíð 22. apríl um leið og margmiðlunarsýningin Mál í mótun verður opnuð í Veröld – húsi Vigdísar. Stofnunin mun m.a. helga næsta áratug fámennistungumálum með bæði rannsóknum, ráðstefnum, vinnustofum og alls kyns viðburðum öðrum. Dagskráin á föstudag er opin öllum en hún verður jafnframt í beinni útsendingu.

Sameinuðu þjóðirnar hafa útnefnt áratuginn 2022-2032 Alþjóðlegan áratug frumbyggjatungumála (IDIL 2022-2032). Fulltrúar Vigdísarstofnunar – alþjóðlegrar miðstöðvar tungumála og menningar tóku árið 2021 sæti í stýrihóp og undirbúningsnefnd vegna áratugarins fyrir hönd Íslands og hafa lagt drög að starfsemi stofnunarinnar til næstu 10 ára innan ramma þessa átaks.

Ann-Sofie Nielsen Gremaud, dósent í dönsku við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands, tók við sem stjórnarformaður alþjóðlegu miðstöðvarinnar í byrjun ársins. Við spurðum hana um þátttöku Vigdísarstofnunar í þessu átaki sem hefst formlega með opinberum viðburði í Háskóla Íslands þann 22. apríl. 

„Helstu markmið Vigdísarstofnunar, samkvæmt samstarfssamningi Ríkisstjórnar Íslands og UNESCO frá 2013, eru að stuðla að fjöltyngi til að auka skilning, samskipti og virðingu milli menningarheima og þjóða og auka vitund um mikilvægi tungumála sem grunnþáttar í menningararfleið mannkyns. Vigdísarstofnun er önnur tveggja UNESCO-miðstöðva heimsins sem hefur varðveislu tungumála að verkefni. Það lá því beint við að miðstöðin tæki þátt í að framfylgja stefnu UNESCO um Alþjóðlegan áratug frumbyggjatungumála,“ segir Ann-Sofie.

Á hvaða hátt mun Vigdísarstofnun beita sér í þágu þessa alþjóðlega átaks?

„Fyrir utan að eiga áframhaldandi aðild að stýrihóp IDIL 2022-2032 munum við standa fyrir ráðstefnum, málþingum, fyrirlestrum, vinnustofum og ýmiss konar viðburðum, eins og við höfum gert á síðustu árum, en nú með sérstaka áherslu á þau svið sem tengjast átakinu. 

Vigdísarstofnun hefur lýst yfir vilja til að styðja við áratuginn með verkefnum sem lúta að fámennistungumálum og byggja þar á langri reynslu af rannsóknum innan þess málaflokks. Verkefni okkar munu almennt tengjast fámennismálumhverfi og minnihlutamálum, með áherslu á bókmenntir og menningarframleiðslu viðkomandi tungumála, en einnig á fjöltyngi, læsi og menntun. Við ætlum að leggja sérstaka áherslu á menning og tungumál Sama, Ínúíta og Rómafólks. Í þessu starfi munum við njóta góðs af þekkingu fræðimanna á Íslandi, þ.m.t. við Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, og um leið halda áfram að þróa samstarf okkar við erlent fræðifólk og hagsmunaaðila. Í þessu felast mikil tækifæri fyrir íslenskt fræðasamfélag og við horfum með mikilli tilhlökkun fram á áratug með auknu erlendu samstarfi og viðburðum innan ramma IDIL 2022-2032.

Að auki höfum við einsett okkur að deila, kynna og miðla upplýsingum um IDIL 2022-2032  hér á  landi, m.a. um þá starfsemi sem fer fram í tengslum við átakið, bæði á Íslandi og erlendis. Við munum halda úti vefsíðu þar sem hægt er að nálgast þessar upplýsingar og fylgjast með því helsta sem er á döfinni innan málaflokksins.“

Ann-Sofie Nielsen Gremaud og Johan Sandberg McGuinne, forseti Bágo – rithöfundasambands Sama, í Veröld fyrr á árinu en þá stóð Vigdísarstofnun fyrir málþingi um menningarframleiðslu Sama og framtíð samískra tungumála í samstarfi við samíska fræðimenn og baráttufólk fyrir málefnum Sama. MYND/Kristinn Ingvarsson

Geturðu nefnt dæmi um viðburði hjá ykkur sem tengjast IDIL 2022-2032?

„Á síðustu misserum hefur rannsóknaráhersla Vigdísarstofnunar tengst vestnorræna svæðinu og menningu Rómafólks. Við komum til með að halda áfram á þeirri línu og höfum nú þegar haldið tvo viðburði á þessu ári sem skipulagðir voru innan ramma IDIL 2022-2032. 

Snemma árs héldum við málþing um menningarframleiðslu Sama og framtíð samískra tungumála í samstarfi við samíska fræðimenn og baráttufólk fyrir málefnum Sama. Við erum að vinna í að byggja upp frekara samstarf við þessa hópa og það er áhugi fyrir því að Vigdísarstofnun geti orðið vettvangur á vestnorræna svæðinu fyrir slíka umræðu til framtíðar. 

Þann 8. apríl s.l. fögnuðum við Alþjóðadegi Rómafólks í Veröld – húsi Vigdísar. Þangað komu m.a. rithöfundar og tónlistarfólk af rómískum uppruna til að kynna menningu sína og fulltrúar tékkneskra samtaka sem berst fyrir réttindum Rómafólks þar í landi. 

Dæmi um það sem er á dagskrá á næstunni er að fjalla um þýðingar. Á síðustu árum höfum við haldið þýðendaþing hér landi, í Frakklandi og Japan, þar sem þýðendur, fræðimenn, nemendur, útgefendur og áhugafólk hafa komið saman til miðla af reynslu sinni. Á næstu árum verður sjónarhorninu beint að þýðingastarfi á vestnorræna svæðinu og fjallað m.a. um vægi og afstöðu til þýðinga frá og yfir á fámennis- og minnihlutatungumál.

Áhrif tungumálasambýlis á minnihluta- og fámennismál er einnig málefni sem fjallað verður um á næstu misserum og við höfum mikinn áhuga á að efla samstarf og skapa vettvang fyrir rithöfunda og skáld á vestnorræna svæðinu.

Síðast en ekki síst höfum við sett upp margmiðlunarsýninguna Mál í mótun í Veröld – húsi Vigdísar. Hún fjallar um tungumál heimsins og var sett upp í samstarfi við Gagarín og andrúm arkitekta. Í tengslum við efni sýningarinnar hefur verið settur upp námsvefur með fjölda verkefna sem eru sniðin að aldurshópnum 12-19 ára og við munum bjóða upp á móttöku skólahópa fyrir þennan aldurshóp með leiðsögn og leikjum þar sem fræðst er um tungumál.“

Hvernig verður áratug frumbyggjamála hleypt af stokkunum?

„Vigdísarstofnun – alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar hóf störf sumardaginn fyrsta 2017 og sama dag var Veröld – hús Vigdísar formlega tekin í notkun. Okkur þótti viðeigandi að setja Alþjóðlegan áratug frumbyggjatungumála formlega bæði í Hátíðasal Háskólans og í Vigdísarstofnun þann 22. apríl og fagna um leið 5 ára starfsmæli okkar. Það verður boðið upp á dagskrá með áhugaverðum gestum í tilefni dagsins sem hægt er að kynna sér hér

Við hvetjum svo alla til að kynna sér Alþjóðlegan áratug frumbyggjatungumála og hafa samband við okkur ef áhugi er á samstarfi eða til að upplýsa okkur um verkefni sem tengjast átakinu og við getum sagt frá á nýju vefsíðunni okkar sem verður opnuð von bráðar.“ 

Ann-Sofie Nielsen Gremaud