Skip to main content
19. ágúst 2020

Viðmið um útfærslu kennslu og annars starfs í húsnæði Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu til starfsfólks og nemenda í dag (19. ágúst 2020):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk.

Kennsla við Háskóla Íslands er nú að hefjast af fullum krafti. Háskóli Íslands leggur rafræna kennslu til grundvallar haustið 2020, en leggur einnig áherslu á möguleikann á staðkennslu, sérstaklega fyrir nýnema, að því gefnu að slík kennsla uppfylli tilmæli sóttvarnalæknis og yfirvalda hverju sinni.

Við forgangsröðun staðkennslu verður áhersla lögð á umræðutíma, dæmatíma og sambærilega kennslu, kennslu í listgreinum, verklega kennslu og klíníska kennslu.

Háskóli Íslands ber ábyrgð á að farið sé eftir gildandi sóttvarnareglum með öryggi og velferð nemenda, kennara og starfsfólks að leiðarljósi. Í ljósi leiðbeininga frá menntamálayfirvöldum sem bárust 19. ágúst sl. gilda eftirfarandi reglur um starf skólans á haustmisseri 2020 eða þar til annað verður gefið út.

Við útfærslu á kennslu og öðru starfi í húsnæði Háskóla Íslands verður að taka mið af eftirfarandi:

Almennar sóttvarnir og nándarmörk

1.    Háskóli Íslands leggur höfuðáherslu á einstaklingsbundnar sóttvarnir, s.s. nándarmörk, handþvott og sótthreinsun.
2.    Um öll svæði Háskólans gildir að nemendur, kennarar og annað starfsfólk á ekki að koma inn á svæði ef viðkomandi:
•    Eru í sóttkví.
•    Eru í einangrun (einnig á meðan beðið er niðurstöðu sýnatöku).
•    Hafa verið í einangrun vegna COVID-19 smits og ekki eru liðnir 14 dagar.
•    Eru með einkenni COVID-19 (kvef, hósta, hita, höfuðverk, bein- eða vöðvaverki, þreytu).
3.    Nándarmörk í öllu húsnæði Háskóla Íslands eru minnst 1 m á milli einstaklinga, s.s. í sameiginlegum rýmum, skrifstofum, mötuneytum, veitingasölu, íþróttahúsum og í bóklegum og verklegum kennslustofum. Jafnframt ber nemendum, kennurum og starfsfólki að tryggja a.m.k. 1 m bil sín á milli í öllu starfi skólans.
4.    Við aðstæður þar sem ekki er hægt að framfylgja nándarreglunni, s.s. í verklegri kennslu, listkennslu og klínísku námi, skal nota andlitsgrímu sem hylur munn og nef. Við þær aðstæður skal leitast við að bæði kennari og nemandi beri grímu. Tryggja þarf rétta notkun andlitsgrímunnar. 
5.    Fyrir nemendahópa sem stunda klínískt nám inni á heilbrigðisstofnun gilda strangari reglur, þ.m.t. grímunotkun í sameiginlegum rýmum þegar minna en 2 m eru á milli fólks.

Fjöldatakmörkun og aðgreining hópa

6.    Ekki mega fleiri en 100 einstaklingar koma saman, hvort sem er í opinberum rýmum eða einkarýmum.
7.    Ef nemendur, kennarar og annað starfsfólk eru fleiri en 100 verður viðkomandi byggingu skipt í hólf og tryggt eftir fremsta megni að enginn samgangur (blöndun) sé á milli hólfa. Þetta er m.a. gert til að auðvelda smitrakningu komi til þess að einstaklingar innan skólans smitist.
8.    Hvert hólf verður aðgreint og tryggt eftir fremsta megni að það hafi eigin inngang og útgang. Salerni verða aðgreind fyrir hvert hólf. Þar sem aðstæður leyfa ekki slíka aðgreiningu er heimilt að nýta ganga milli aðgreindra hólfa til að nemendur komist inn og út úr kennslustofum og á salerni. Í slíkum tilvikum verður auglýst rækilega að umræddir gangar séu einungis ferðarými og megi ekki nýta til annars.
9.    Þurfi kennarar og nemendur að fara á milli hólfa (svæða) skal gætt sérstaklega að sóttvörnum.
10.    Kennarar og annað starfsfólk sem vinnur á aflokuðum skrifstofum sínum teljast almennt ekki hluti af heildarfjölda í hólfi viðkomandi byggingar.
11.    Til að hægt sé að halda nándarmörk þarf að tryggja að ekki safnist saman of margir nemendur í sameiginlegum rýmum. Gangar eru eingöngu ferðarými á milli stofa.
12.    Heimilt er að borða nesti í kennslustofum til að minnka samgang við hópa í sameiginlegum rýmum. Nemendur þurfa að þrífa eftir sig og taka með sér rusl úr kennslustofunni.
13.    Miðrými eru lokuð nema ef mögulegt er að sjá til þess að nándarregla sé virt, t.d. með því að breyta þeim í lærdómshorn þar sem eru kennsluborð og stólar sem uppfylla nándarreglu og sóttvarnir.

Sóttvarnir og þrif

14.    Handspritt verður til staðar fyrir framan og í hverri kennslustofu (það geta verið fleiri en ein kennslustofa í hverju hólfi).
15.    Sótthreinsa skal sameiginlegan búnað og snertifleti minnst einu sinni á dag og áhersla lögð á einstaklingsbundnar sóttvarnir. Sameiginlegir snertifletir (hurðarhúnar o.s.frv.) í kennslustofum eru sótthreinsaðir á milli nemendahópa. Hver og einn nemandi sér um sótthreinsun á sínu borði, æskilegt er að koma sér upp litlum brúsa af sótthreinsandi efni og hafa í töskunni. Mælst er til þess að kennari strjúki af hurðarhúni að lokinni kennslustund.
16.    Veggspjöld til áminningar verða eftir ástæðum hengd upp í skólabyggingum. (Sjá: https://www.covid.is/veggspjold).
17.    Takmarka skal gestagang í Háskóla Íslands eins og kostur er (m.a. fjölmenna fundi, opin hús o.s.frv.). Brýna þarf fyrir gestum að gæta ýtrustu varkárni og virða ávallt reglur um sóttvarnir.
18.    Mælst er til þess að halda ekki viðburði á vettvangi skólans. Á meðan á samkomubanni stendur mun Háskólinn takmarka viðburði sem starfsfólk sækir þvert á fræðasvið eða miðlægt.
19.    Séu samkomur haldnar í skólabyggingum gildir að allir verða að virða fjöldatakmarkanir (ekki fleiri en 100 í sama rými) og tryggja þarf að allir geti virt nándarreglu um minnst 1 m fjarlægð sín á milli.
20.    Leiðbeiningar þegar upp kemur smit er að finna hér.

Kæru nemendur og samstarfsfólk. Ég minni á að núverandi ástand er tímabundið og með sameiginlegu átaki tryggjum við öflugt skólastarf og stöndum vörð um gæði náms og kennslu við Háskóla Íslands.

Jón Atli Benediktsson, rektor“

Maður speglaður í stiga á Háskólatorgi