Skip to main content
12. júní 2020

Viðbrögð vegna mögulegra tafa á rannsóknum og ritvirkni í kjölfar COVID-19

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu til starfsfólks og nemenda í dag:

„Kæra samstarfsfólk og nemendur. 

Nú í vikunni var haldinn í Hátíðasal að viðstöddum mennta- og menningarmálaráðherra ársfundur Háskóla Íslands og tókst hann afar vel. Yfirskrift ársfundarins að þessu sinni var „Nýsköpun í kennslu við Háskóla Íslands“. 

Á fundinum voru m.a. veitt verðlaun Háskóla Íslands fyrir „frumkvæði og forystu“ í þágu Háskóla Íslands. Við afhendingu verðlaunanna lét ég eftirfarandi orð falla:

„Verðlaunin eru nú veitt í annað sinn, en með þeim vill Háskóli Íslands heiðra hóp eða teymi sem sýnt hefur sérstakt frumkvæði og forystu við uppbyggingu framúrskarandi starfs innan skólans.

Handhafar verðlaunanna eru valdir í sameiningu af rektor og forsetum allra fimm fræðasviða Háskóla Íslands. 

Með verðlaununum viljum við undirstrika að alla daga er unnið einstakt og fórnfúst starf innan Háskóla Íslands – starf sem sannarlega verðskuldar viðurkenningu, hvort sem það er á sviði náms og kennslu, rannsókna og nýsköpunar, jafnréttismála, samfélagsþátttöku eða frumkvæðis nemenda, svo nokkuð sé nefnt. 

Ársfundarverðlaun Háskóla Íslands fyrir frumkvæði og forystu hljóta að þessu sinni kennarar Háskóla Íslands og starfsfólk í stjórnsýslu kennslumála sem á síðustu mánuðum tókst á undraskömmum tíma að umbylta kennslu við skólann á afar krefjandi tímum. 

Eftir að hafa fengið það risavaxna verkefni í fang að færa bókstaflega allt nám, alla kennslu og öll próf og annað námsmat á rafrænt form, þegar almennt samkomubann ríkti í íslensku samfélagi, sýndu kennarar og starfsfólk stjórnsýslu Háskóla Íslands alla þá kosti sem þesssum verðlaunum er ætlað að hampa.

Með dugnaði, ósérhlífni, færni og sköpunarkrafti fundu kennarar, kennslustjórar, kennsluþróunarstjórar og stjórnendur og starfsfólk stoðþjónustu Háskóla Íslands frumlegar leiðir til að bregðast við óvæntum og krefjandi aðstæðum og um leið að standa vörð um gæði þess náms sem Háskóli Íslands býður nemendum sínum upp á.“

Ég óska kennurum og starfsfólki í stoðþjónustu kennslu við Háskóla Íslands innilega til hamingju með verðskulduð verðlaun.

Viðbrögð Háskóla Íslands vegna mögulegra tafa á rannsóknum og ritvirkni af völdum Covid-19

Stjórnendur Háskóla Íslands eru meðvitaðir um að COVID-19-faraldurinn hefur haft ýmis neikvæð áhrif á starfsfólk og stúdenta Háskólans. Afleiðingarnar geta vissulega verið ólíkar á milli einstaklinga og hópa og eru þættir á borð við kyn, fjölskyldu- og vinnuaðstæður meðal þess sem horfa þarf til í þessu sambandi. 

Tafir á rannsóknum og ritvirkni akademískra starfsmanna

Ljóst er að þættir sem tengjast COVID-19 höfðu í einhverjum tilvikum áhrif á rannsóknir og ritvirkni akademísks starfsfólks, m.a. vegna eftirfarandi þátta: 
•    Fjölskylduaðstæðna, s.s. umönnunar barna vegna lokana eða skerðinga á starfi leik- og grunnskóla.
•    Breytinga á kennsluháttum vegna samkomubanns.
•    Tafa á starfsemi tímarita og útgefenda. 
•    Frestana eða afboðana ráðstefna og annarra viðburða sem tengjast rannsóknum.
•    Veikinda vegna COVID-19.

Erfitt getur reynst að meta neikvæð áhrif COVID-19 á vinnuframlag starfsfólks, en til að leitast við að milda þau mun Háskólinn þó bregðast við með eftirfarandi hætti:

1.    Vegna breyttra kennsluhátta munu allir akademískir starfsmenn sem voru í kennslu á vormisseri 2020 fá kennsluþróunarstig fyrir önnina. Samráð verður haft við fræðasvið og deildir um mat á kennsluframlaginu.
2.    Áhrif COVID-19 á starfsfólk Háskóla Íslands verða kortlögð m.a. af Menntavísindastofnun HÍ og mögulegar aðgerðir mótaðar í framhaldinu til að milda neikvæð áhrif faraldursins á ritvirkni ef þörf er á.
3.    Af sömu ástæðu gefst akademísku starfsfólki kostur á að gera grein fyrir áhrifum COVID-19 á störf sín í tengslum við skil á ársskýrslu vinnumats.

Áhrif á fjármögnun launa doktorsnema og nýdoktora

Í þeim tilvikum þar sem laun eru fjármögnuð með styrkjum sem bera stjórnunar- og aðstöðugjald (erlendir styrkir og Rannís) skal mögulegt vinnutap greiðast af þeim hluta stjórnunar- og aðstöðugjalds sem fellur til verkefnis og fræðasviðs. 

Í þeim tilvikum þar sem laun eru fjármögnuð úr doktorssjóði HÍ eða nýdoktorasjóði HÍ, þ.e. með styrkjum sem ekki bera stjórnunar- og aðstöðugjald, geta styrkþegar sent umsókn til starfsmannasviðs HÍ á netfangið mannaudur@hi.is til að fá mögulegt vinnutap bætt.

Við mat á því að hve miklu leyti er unnt að koma til móts við styrkþega varðandi fjármögnun skal tekið tillit til eftirfarandi þátta:

  • Umfangs vinnutaps, metið í samráði við leiðbeinanda.
  • Skerðingu aðgengis að nauðsynlegri vinnuaðstöðu.
  • Fjölda og aldurs barna á heimili.
  • Hvort viðkomandi þurfti að fara í sóttkví.
  • Hvort viðkomandi hafi veikst af COVID-19.

Auk þessa er hvatt til þess að hver og einn leiti til síns styrkveitanda og kanni möguleika á framlengingu á verkefnistíma og/eða tilfærslu á liðum innan fjárhagsáætlunar til að koma til móts við mögulegar raskanir á áætlunum af völdum faraldursins. 

Njótum helgarinnar á þessum fallega árstíma. 

Jón Atli Benediktsson,
Rektor“

 

borð í Gimli