Skip to main content
15. apríl 2016

Verkleg kennsla í íþrótta- og heilsufræði í World Class

""

Nemendur á fyrsta ári í íþrótta- og heilsufræði við Háskóla Íslands munu frá og með næsta hausti stunda nám sitt í Reykjavík. Bóklegi hluti námsins fer fram í byggingum Menntavísindasviðs við Stakkahlíð en verklegar æfingar og vettvangsnám mun fara fram í ýmsum íþróttamannvirkjum í Laugardal, þar á meðal í World Class Laugum. Jóhanna Einarsdóttir, forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, og Hafdís Jónsdóttir, eigandi World Class, undirrituðu samkomulag þess efnis í háskólanum í vikunni. Þá munu nemendur sem uppfylla skilyrði um eðlilega framvindu í náminu geta fengið aðgang að öllum stöðvum World Class á höfuðborgarsvæðinu og á Selfossi.

Ákveðið var í febrúar sl. að flytja grunnnámið í íþrótta- og heilsufræði frá Laugarvatni til Reykjavíkur m.a. í því skyni að efla það og auka samstarf við aðrar deildir háskólans. Einnig er með þessari ráðstöfun meiri nálægð við íþróttahreyfinguna, frjáls félagasamtök og ýmsar stofnanir sem tengjast störfum íþróttafræðinga. Í haust verða nemendur  sem innritast á fyrsta ár í Reykjavík en nemendur á öðru og þriðja ári verða áfram að Laugarvatni. Frá og með árinu 2018 mun allt námið hins vegar færast til Reykjavíkur.

Sem áður segir verður Laugardalurinn vettvangur verklegs hluta námsins og munu nemendurnir m.a. stunda það í húsnæði World Class auk þess að nýta tækjasal og aðra aðstöðu stöðvarinnar ásamt útivistarsvæðum, íþróttahúsum og völlum í grennd. 

Jóhanna Einarsdóttir, forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands: „Við erum afskaplega ánægð með þennan samning við World Class en á háskólasvæðinu er ekki að finna nægilega góða aðstöðu fyrir verklega kennslu íþrótta- og heilsufræðinema. Við þurftum ekki að leita langt því bestu íþróttaaðstöðu landsins er án nokkurs vafa að finna í Laugardalnum.“

Hafdís Jónsdóttir, eigandi World Class: „Við hlökkum til að fá til okkar nemendur Háskólans í íþrótta- og heilsufræði. Við leggjum mikla áherslu á að fylgjast með og taka þátt í því nýjasta sem er að gerast á þessu sviði enda er það markmið okkar að stuðla að hreysti og góðri heilsu landsmanna. Við rekum sjálf einkaþjálfaraskóla og höfum í gegnum tíðina verið í samstarfi við ýmsa menntaskóla sem ekki eru með nægilega góða aðstöðu til að bjóða nemendum sínum upp á íþróttakennslu. Þar fyrir utan höfum við viljað leggja okkar af mörkum í heilsueflingu fatlaðra og eldri borgara með því að bjóða þeim líkamsræktarkort á lækkuðu verði. Nemendur í íþrótta- og heilsufræði koma því inn í fjölbreytt samfélag í Laugum sem endurspeglar breiðan hóp fólks sem það mun hugsanlega vinna með að námi loknu.“

Fulltrúar Háskólans og World Class stilltu sér upp fyrir ljósmyndara eftir undirritun samstarfssamningsins fyrir framan Aðalbyggingu Háskólans í hádegissólinni.
Jóhanna Einarsdóttir, forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands og Hafdís Jónsdóttir, eigandi World Class skrifa undir samkomulagið.
Fulltrúar Háskólans og World Class stilltu sér upp fyrir ljósmyndara eftir undirritun samstarfssamningsins fyrir framan Aðalbyggingu Háskólans í hádegissólinni.
Jóhanna Einarsdóttir, forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands og Hafdís Jónsdóttir, eigandi World Class skrifa undir samkomulagið.