Verðlaunuð fyrir örmæli fyrir rannsóknastofur á Gullegginu | Háskóli Íslands Skip to main content
3. nóvember 2019

Verðlaunuð fyrir örmæli fyrir rannsóknastofur á Gullegginu

""

Örmælir sem ætlað er að flýta fyrir mælingu á örlitlu vökvamagni á rannsóknastofum og heilbrigðsstofnunum hlaut verðlaun í frumkvöðlakeppninni Gullegginu á dögunum. Forsprakki verkefnisins er fyrrverandi nemandi í líf- og læknavísindum við Háskóla Íslands. Þá var leiðsagnarapp um Reykjavík, sem  byggist á hugmynd nýskrifaðra nemenda í sálfræði og jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, einnig í úrslitum keppninnar.

Gulleggið hefur fyrir löngu unnið sér fastan sess innan nýsköpunargeirans á Íslandi en keppnin er haldin á vegum Icelandic Startups, m.a. í samstarfi við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og Háskólann á Bifröst auk fjölmargra lykilaðila í íslensku atvinnulífi. Markmiðið er að gefa frumkvöðlum tækifæri til að koma hugmyndum sínum á framfæri og gera úr þeim raunverulegar og markvissar áætlanir sem miða að stofnun fyrirtækja. 

Samkeppninni var ýtt úr vör í 13. sinn í Háskóla Íslands snemma í haust en alls bárust 150 hugmyndir í keppnina. Þátttakendur sóttu bæði námskeið og fengu þjálfun í mótun viðskiptahugmynda en á endanum voru tíu hugmyndir valdar til þátttöku í úrslitum Gulleggsins. Aðstandendum þeirra bauðst að taka þátt í vinnusmiðjum og kynningu í aðdraganda úrslitanna sem fram fóru í Háskólanum í Reykjavík í lok október.

Dómnefnd valdi á endanum sigurvegara keppninnar en það var hugmyndin Dufl sem er áreiðanlegur staðsetningarbúnaður á sjó. Verkefnið fékk einnig verðlaun í flokknum Vara. 

Alls voru tíu hugmyndir valdar til þátttöku í úrslitum Gulleggsins. Aðstandendum þeirra bauðst að taka þátt í vinnusmiðjum og kynningu í aðdraganda úrslitanna sem fram fóru í Háskólanum í Reykjavík í lok október.

Örmælir mælir vökvarúmmál mun hraðar en núverandi tækni

Verðlaun voru veitt í þremur öðrum flokkum á lokahófi keppninnar, þar á meðal í flokknum Heilsa. Verkefnið Örmælir var valin besta hugmyndin í þeim flokki en um er að ræða búnað sem mælir vökvarúmmál í tilraunaglösum tíu sinnum hraðar en núverandi tækni á algjörlega sjálfvirkan og snertilausan hátt. Örmælirinn sparar bæði tíma og peninga fyrir heilbrigðisstofnanir og rannsóknastofur úti um allan heim, að sögn aðstandenda.

Að verkefninu standa Sunna Björg Skarphéðinsdóttir vísindamaður, Andri Björn Eiðsson verkfræðingur, og Einir Guðlaugsson verkfræðingur. Sunna Björg er leiðtogi teymisins og hún útskrifaðist úr Háskóla Íslands árið 2015 með meistaragráðu í líf- og læknavísindum. Hún fékk hugmyndina tveimur árum síðar við störf sín á frumulíffræðideild Landspítalans þar sem hún var að einangra RNA úr brjóstakrabbameinssýnum.

Enn fremur hlaut verkefnið Greenbytes verðlaun í flokknum Græn lausn en þar á ferðinni hugbúnaður sem  ætlað er að draga úr matarsóun og auka hagnað veitingastaða. Þess má geta að verkefnið tekur einnig þátt í samfélagshraðlinum Snjallræði, sem nú stendur yfir, en Háskóli Íslands er einmitt einn af bakhjörlum hraðalsins. Tré lífsins, verkefni sem einnig komst í úrslit Gulleggsins, tekur einnig þátt í Snjallræði en þar er á ferðinni nýstárlegur möguleiki til skráningar lífssögu og gróðursetningar ösku við andlát fólk.

Þá má geta þess að verkefnið Audios komst einnig í úrslit Gulleggsins en að því standa þeir Sigvaldi Sigurðarson, Erlingur Geirsson og Sverrir Páll Sverrisson. Þeir Sigvaldi og Erlingur eru nýútskrifaðir úr Háskóla Íslands, Sigvaldi með meistaragráðu í hagnýtri sálfræði og Erlingur í jarðeðlisfræði. Audios er  sjálfsleiðsagnarapp og lifandi upplýsingaveita um Reykjavík sem glæðir borgarumhverfið nýju lífi í hljóði og mynd.

Aðstandedur verkefnisins Örmælir sem hlaut verðlaun í flokknum Heilsa á Gullegginu í ár.