Verðlaunaðar fyrir framúrskarandi lokaverkefni | Háskóli Íslands Skip to main content
14. janúar 2021

Verðlaunaðar fyrir framúrskarandi lokaverkefni

Verðlaunaðar fyrir framúrskarandi lokaverkefni - á vefsíðu Háskóla Íslands

Áskoranir í starfi leikskólastjóra, fræðsluefni fyrir leiðbeinendur í leikskóla, fyrstu skref transbarna í nýju kynhlutverki og ferðalag nýliða í heimilisfræðikennslu eru meðal viðfangsefna lokaverkefna sem hlutu viðurkenningu skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar í gær.

Alls fengu sjö meistaranemar viðurkenningar fyrir lokaverkefni sín í leikskóla-, grunnskóla- og frístundafræðum að þessi sinni. Verðlaunaféð nam 250.000 krónum og fór dómnefnd skipuð sérfræðingum á vettvangi skóla- og frístundastarfs yfir verkefnin. Viðurkenningin er liður í því að hvetja til og auka hagnýtingu rannsókna í fagstarfi með börnum og unglingum og vekja athygli á skóla- og frístundastarfi hjá borginni.  

Fjögur verkefni við Menntavísindasvið hlutu viðurkenningu og eru höfundar þeirra eftirfarandi:

Linda Rún Traustadóttir fékk viðurkenningu fyrir meistaraverkefnið Áskoranir í starfi leikskólastjóra — Dagarnir eru aldrei eins en alltaf uppfullir af einhverju! Verkefnið var unnið við Deild kennslu- og menntunarfræði og setur höfundur fram áhugaverðar niðurstöður um þróun leikskólastjórastarfsins í framtíðinni. Nánari upplýsingar um verkefnið. 

Melkorka Kjartansdóttir fékk viðurkenningu fyrir verkefnið Velkomin til starfa í leikskóla — Stafrænt fræðsluefni fyrir leiðbeinendur við upphaf starfs. Verkefnið var unnið við Deild kennslu- og menntunarfræði og er fræðsluefni fyrir nýja leiðbeinendur í leikskólum og leiðbeiningar fyrir þá sem taka á móti þeim til starfa. Nánari upplýsingar um verkefnið.

Rakel Guðmundsdóttir fékk viðurkenningu fyrir meistaraverkefnið Undir Regnboganum  — Fyrstu skref transbarns í nýju kynhlutverki innan grunnskólans sem unnið var við Deild menntunar- og margbreytileika. Markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á reynslu foreldra og skólasamfélags af því að styðja barn í gegnum það ferli að lifa samkvæmt öðru kynhlutverki en því var úthlutað við fæðingu. Nánari upplýsingar um verkefnið.

Steinunn E. Benediktsdóttir fékk viðurkenningu fyrir verkefnið Ferðalag nýliða í heimilisfræðikennslu Þroskasaga. Verkefnið var unnið við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda og er starfendarannsókn í grunnskóla þar sem höfundur gerir grein fyrir eigin reynslu af fyrstu tveimur starfsárum sínum við kennslu. Nánari upplýsingar um verkefnið.

Menntavísindasvið óskar verðlaunahöfum til hamingju með viðurkenningarnar.

Áskoranir í starfi leikskólastjóra, fræðsluefni fyrir leiðbeinendur í leikskóla, fyrstu skref transbarna í nýju kynhlutverki og ferðalag nýliða í heimilisfræðikennslu eru meðal viðfangsefna lokaverkefna sem hlutu viðurkenningu skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar í gær.