Skip to main content
15. febrúar 2019

Vel heppnað málþing til heiðurs Helga Skúla

„Það sem stendur upp úr á ferlinum, er líklega þátttaka mín í sagnfræðilegum samstarfsverkefnum. Fyrst Íslenskum söguatlas, síðast Líftaug landsins, og ekki hvað síst Almenningsfræðslu á Íslandi. Nú tekur við beint framhald af rannsóknarþætti gamla starfsins, bæði eigin rannsóknir og samvinna af ýmsu tagi,” segir Helgi Skúli Kjartansson, prófessor emeritus í sagnfræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Afmælismálþing var haldið honum til heiðurs í síðustu viku en hann varð sjötugur þann 1. febrúar síðastliðinn.

Helgi Skúli lauk störfum við Háskóla Íslands í lok síðasta árs eftir langan og farsælan starfsferil sem fræðimaður. Veglegt rit var gefið út í tilefni afmælismálþingsins sem ritstýrt er af samstarfsfólki hans, þeim Guðmundi Jónssyni, Gunnari Karlssyni, Ólöfu Garðarsdóttur og Þórði Helgasyni. Í formála ritsins segir: „Kennsluferill Helga Skúla er til vitnis um þá frjóu og skapandi hugsun sem einkennir starfsferil hans. Hann hefur kennt fjölmörg og fjölþætt námskeið, oft í samstarfi við fræðimenn úr ólíkum fræðigreinum, svo sem landfræðinga, guðfræðinga og félagsfræðinga. Hann hefur kennt á námskeiði um íslenskt landnám og sköpun þjóðar en einnig um Japanssögu. Þá kenndi hann á þverfaglegu námskeiði um átök í heimi samtímans og lét til sín taka á námskeiði um auðlindir Íslands og nýtingu þeirra í fortíð, nútíð og framtíð. Fræðastörf Helga Skúla spegla sannarlega vítt áhugasvið hans og er ritaskrá hans gleggsti vitnisburðurinn um það.”

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, var einn þeirra sem flutti ávarp á málþinginu og ritar hann einnig kveðju í afmælisritið. Þar segir: „Hann Helgi Skúli veit þetta örugglega. Þau eru ófá skiptin að þessi orð hafa fallið í tali sagnfræðinga. Breytir þá nánast engu um hvaða svið eða skeið sögunnar er fjallað. Eins fróður er Helgi um íslenskt mál, réttarfar og stjórnskipun, og er þá fráleitt allt upp talið. Loks er ekki síður mikilsvert hversu hjálpsamur hann er þeim sem til hans leita, ráðagóður og ónískur á eigin tíma. Oft hef ég notið velvildar hans og visku. Já, Helgi Skúli Kjartansson er öðrum mönnum bónbetri, margfróður, margspakur og margvís.”

Menntavísindasvið Háskóla Íslands þakkar Helga Skúla frábær störf í þágu sviðsins og mikilvægt framlag til íslenskra fræða.

Helgi Skúli lauk störfum við Háskóla Íslands í lok síðasta árs eftir langan og farsælan starfsferil sem fræðimaður.