Skip to main content
21. júní 2017

Varði doktorsritgerð um bókasöfnun Willards Fiskes

""

Kristín Bragadóttir hefur varið doktorsritgerð sína, Íslenskar bækur erlendis. Bókasöfnun Willards Fiskes (1831–1904), við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Andmælendur voru Sumarliði R. Ísleifsson, lektor við Sagnfræði- og heimspekideild, og Þórunn Sigurðardóttir, rannsóknalektor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Aðalleiðbeinandi Kristínar var Már Jónsson, prófessor í sagnfræði, en í doktorsnefnd voru auk hans þau Guðrún Ása Grímsdóttir, rannsóknaprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, og Sveinn Yngvi Egilsson, prófessor í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands. Svavar Hrafn Svavarsson, deildarforseti Sagnfræði- og heimspekideildar, stjórnaði athöfninni sem fór fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu 16. júní síðastliðinn.

Hér má nálgast myndir frá vörninni.

Um verkefnið

Ritgerðin er rannsókn á söfnun Bandaríkjamannsins Willards Fiskes (1831–1904) á íslenskum ritakosti og er á sviði bóksögu og íslenskrar menningarsögu. Fiske safnaði öllu efni prentuðu á Íslandi og Íslandstengdum ritum sem urðu til í útlöndum. Sama hvort um var að ræða mesta fágæti eða nýtt efni, í stóru eða smáu formi. Ritgerðin byggist á bréfasöfnum og þá sérstaklega tengslaneti hans við Íslendinga. Söfnunartímabilið var 1850 til 1904. Þetta safn er þriðja stærsta safn íslenskra rita á eftir Landsbókasafni Íslands og Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn. Ekki eru dæmi um að einstaklingur hafi náð jafn miklu efni saman.

Ritgerðin skiptist efnislega í þrennt. Í fyrsta hluta, sem fjallar um aðdraganda þess að áhugi Fiskes beindist að Íslandi og síðan söfnun hans á íslensku prentefni, er vikið að ýmsum ytri skilyrðum og umhverfi námsmanns í New York-fylki fyrir og um miðja 19. öld. Hann dvaldist í Danmörku og Svíþjóð árin 1850–1852 og þar fékk hann þá hugmynd að Íslandi skyldi hann þjóna og vinna að málefnun þess eins vel og honum væri unnt. Í Íslandsferð sinni 1879 kynntist hann mönnum sem unnu að söfnuninni fyrir hann. Í öðrum kafla er kannað hvernig hann fór að því að eignast safnið. Enn fremur er sýnt fram á hvaða áherslur hann lagði á efni sem hann eignaðist. Í þriðja hluta er fjallað um framtíðarhugmyndir safnarans. Rök eru færð fyrir því að hann hafi haft ákveðin markmið í huga með söfnuninni og unnið markvisst að þeim markmiðum í áratugi. Með söfnun sinni var Fiske að bjarga menningarverðmætum sem hann áttaði sig fljótt á að yrðu annars eyðingu að bráð.

Um doktorsefnið

Kristín Bragadóttir lauk BA-prófi frá Háskóla Íslands í sagnfræði, almennri bókmenntasögu og bókasafns- og upplýsingafræði 1977. Viðbótar BA-prófi í íslensku 1989 og cand.mag. prófi frá sama skóla 1992. Nám í sænskum bókmenntum, menningarsögu fornaldar við Uppsala háskóla árin 1978–1983 og síðar í bókmenntafélagsfræði við þann skóla árin 1992–1993. Kenndi við félagsvísindadeild Háskóla Íslands 1994–1996. Starfaði við Háskólabókasafnið í Uppsölum, Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, Bókasafn Norræna hússins í Reykjavík, Bókasafn Háskóla Íslands og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn. Var ritstjóri ritraðarinnar Islandica sem gefin er út af Cornell-háskóla.

""